Fyrsta leikdagskrá leikfélagsins Hugleiks í vetur verður flutt í Þjóðleikhúskjallaranum sunnudaginn 11. nóvember og þriðjudaginn 13. nóvember. Að þessu sinni verða á boðstólum sex ný leikverk eftir félagsmenn, í leikstjórn nemenda af leikstjórnarnámskeiðum sem félagið hefur staðið fyrir í haust undir leiðsögn Sigrúnar Valbergsdóttur.
Verkin sem sýnd verða eru:
Bráðum e. Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Harðar Skúla Daníelssonar
Einu sinni sem oftar e. Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Júlíu Hannam
Englar í snjónum e. Unni Guttormsdóttur í leikstjórn Sigrúnar Óskarsdóttur
Heilladísirnar e. Júlíu Hannam í leikstjórn Hjörvars Péturssonar
Tímabært e. Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Sigríðar Birnu Valsdóttur
Þetta er mitt leg e. Árna Hjartarson í leikstjórn höfundar
Eins og oft fyrr er farið um víðan völl í verkum höfunda Hugleiks. Hér verður meðal annars fjallað um ótímabæra öldrun, ástarævintýri, nytsemi gjafa, bið, eignarhald á grafreitum og endingartíma hjónabandssælu. Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi.
Þriðja veturinn í röð stendur Hugleikur fyrir syrpu af skemmtidagskrám í Þjóðleikhúskjallaranum undir yfirskriftinni "Þetta mánaðarlega". Í desember verður dagskrá helguð jólunum, í febrúar og apríl verða aftur dagskrár með blönduðu leiknu efni, og í maí verður eins og tvö síðustu ár klykkt út með tónlistarveislu að hætti Hugleiks.
Húsið opnar kl. 20:30, en sýning hefst kl. 21:00 bæði kvöldin. Almennt miðaverð er 1000 kr.
{mos_fb_discuss:2}