Föstudagskvöldið 3. apríl verða sýndar tvær óperur í uppfærslu Tónlistarskólans í Reykjavík í samvinnu við Íslensku óperuna. Þessi óperusýning sætir nokkrum tíðindum, því hér er um að ræða annars vegar frumflutning á nýrri íslenskri óperu, Gilitrutt eftir Þórunni Guðmundsdóttur, og hins vegar frumflutning á Íslandi á fyrstu óperu Rossinis, La cambiale di matrimonio. Leikstjórn er í höndum Þórunnar Guðmundsdóttur og hljómsveitarstjóri er Kjartan Óskarsson.

La cambiale di matrimonio (Hjónabandssamningurinn) var samin af Gioachino Rossini (1792 –1868)  á örfáum dögum árið 1810, þegar hann var aðeins átján ára gamall. Hún er fyrsta ópera hans sem flutt var opinberlega. Librettóið er eftir Gaetano Rossi. Söguþráðurinn í La cambiale gengur út á græðgi herra Mills, ensks aðalsmanns, sem stundar viðskipti við Kanada. Hann er búinn að útbúa samning um hjónaband dóttur sinnar og kanadísks kaupsýslumanns sem er kominn til Englands til að leita sér að konu. Vandamálið er að Fanný, dóttir Mills, er ástfangin af ungum, fátækum manni og hefur hreint engan áhuga á að giftast einhverjum Kanadamanni. Þjónustufólkið styður ungu elskendurna og allt fer vel að lokum. Óperan er sungin á ítölsku en sönglesið verður flutt í töluðu máli á íslensku.

Gilitrutt er gamanópera í einum þætti. Hún var samin á þessu ári, gagngert til að vera félagi Hjónabandssamningsins í þessari uppfærslu. Þetta er önnur óperan sem Þórunn Guðmundsdóttir semur fyrir Tónlistarskólann í Reykjavík, en hin var Mærþöll sem sett var upp árið 2006. Gilitrutt er byggð á hinu vel þekkta íslenska ævintýri um húsfreyjuna lötu sem freistast til þess að ganga til samninga við ókunna konu, sem reynist illu heilli vera tröllskessa. Bóndinn er hreint ekki sáttur við vinnufælni konu sinnar, en það er samt hann sem bjargar henni að lokum. Húsfreyja sér að sér og upp frá þessu er mesta ánægja hennar fólgin í því að vinna. Hlutverkin eru því þrjú, auk þess sem kór gegnir veigamiklu hlutverki sögumanns. Þórunn semur bæði libretto og tónlist, en hún hefur getið sér gott orð sem höfundur leikrita og söngleikja sem settir hafa verið upp af leikfélaginu Hugleik.

{mos_fb_discuss:2}