Frystiklefinn, litla atvinnuleikhúsið á Rifi á Snæfellsnesi, sýnir í samvinnu við Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði hinn sprellfjöruga og hjartnæma gamanleik Trúðleik eftir Hallgrím H. Helgason sem sló í gegn í sumar hjá gagnrýnendum og áhorfendum.

Sýningarfjöldi er takmarkaður en sú fyrsta er 15. september kl. 14.00

Leikarar eru Benedikt Karl Gröndal og Kári Viðarsson, leikstjóri er Halldór Gylfason.

Þeir Skúli og Spæli eru trúðar sem hafa starfað saman langalengi. Skúli er ævinlega kátur og bjartsýnn, finnst yndislegt að sprella og getur ekki ímyndað sér neinn annan starfa, enda streyma hugmyndirnar og skemmtileg dellan upp úr honum eins og gosbrunni. Spæli er hins vegar krumpuð og tortryggin týpa. Fljótlega kemur babb í bátinn. Spæli kemst að því að þeir félagar hafi greinilega, enn einu sinni, lent á vitlausum áhorfendum sem hlægi á kolröngum stöðum.

Trúðleikur er þriðja leiksýning Frystiklefans. Hinar tvær voru einleikurinn Hetja og Góðir Hálsar sem báðar fengu afbragðsviðbrögð frá gagnrýnendum og áhorfendum.

Sýningar verða um helgar kl 14.00 í Gaflaraleikhúsinu. Nánari upplýsingar og miðasala er á gaflaraleikhusid.is og midi.is