Nýja stefnan í Þjóðleikhúsinu
Hin hefðbundna “blandípokastefna” sem Þjóðleikhúsið hefur fylgt af menningarlegri skyldurækni frá öndverðu fær kærkomið frí í ár og leikárið er byggt upp af nýjum íslenskum og (mis) nýlegum erlendum verkum. Ekkert eitt verk vekur áhuga umfram annað, og ég hefði heldur kosið að sjá nýjasta verk MacDonaghs, The Lieutenant of Inishmore heldur en hinn öllu slappari halta Billa, sem Húsvíkingar gerðu aukinheldur ágæt skil fyrir nokkrum árum, En hvað um það – stefna hússins er skýr og áhugaverð.

Vilhjálmur snýr aftur
Síðasta leikár var Shakespeare-frítt (ef við gleymum Títusi og mér finnst við eigum að gera það). Nú verður hins vegar boðið upp á a.m.k þrjár uppfærslur og hafa þær allar eitthvað áhugavert við sig. Rómeó og Júlía í Borgarleikhúsinu verður í nýrri þýðingu Hallgríms Helgasonar, Vetrarævintýri er í flutningi Nýjasviðshóps Benna Erlings, sem hefur ekki klikkað enn, og Hamlet er…. jú alltaf Hamlet. Kannski verða þær allar klúður, annað eins hefur nú gerst í stormasömu sambandi íslensks leikhúss við kallinn. Ég ætla samt ekki að missa af neinni þeirra.

Peter Enquist
Hinn sænski íslandsmeistari í Godotsýningafjölda, maðurinn á bak við Ormstungu og Lofthrædda örninn snýr aftur! Enn er ekki opinbert hvað hann mun setja á svið hjá Leikfélagi Reykjavíkur en mér er slétt sama, þetta er mest spennandi leikstjóri sem sviðsetur verk á Íslandi á næsta leikárinu og hananú!

Sölumaður deyr
Eitt af fimm bestu leikritum aldarinnar og tíu bestu leikritum allra tíma. Verður í Borgarleikhúsinu. Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir og verður hennar sárt saknað úr gagnrýnendastétt, en leiklistarumfjöllun hennar í morgunsjónvarpinu og kistan.is í fyrra var frábær, og í raun einn af hápunktum síðasta leikárs.

Grettir
Tilraunir til leikgerða á íslendingasögunum hafa grætt margt leikskáldið, en engum er frekar trúandi til að skila spennandi sviðsetningu á Grettissögu en Hilmari, Finni og félögum. Lengi lifi Hafnarfjarðarleikhúsið!

Íslenskt
Listinn yfir íslensk leikskáld á fjölunum í vetur er óvenju langur. Þar er að finna gamla refi eins og Kjartan Ragnarsson og Ólaf Hauk og nýgræðinga eins og Sigtrygg Magnason og Jón Atla Jónasson. Gleðiefni, og svo ekkert annað en aukabónus ef vel tekst til.

Nemendaleikhúsið
Alltaf spennandi, þó enn hafi ég ekki séð dagskrána kynnta. Heimasíða Listháskólans heldur því reyndar fram að útskriftarverkefnið verði Platonov í samstarfi við Hafnarfjarðarleikhúsið, en var það ekki fyrir tveimur árum? Skamm skamm!

Rakarinn í Sevilla
Rossini hefur ekki sést á Reykvísku sviði lengi, en er flottur og fyndinn kall. Síðasta gamanópera sem ég sá hjá Íslensku Óperunni var Cosi fan Tutte og var algert prump, fannst mér. En ég gef þeim séns og fer á þessa.

Enn er von
Enn er enginn búinn að missa af Veislunni, And Björk of Course eða Fyrst er að fæðast. Reyndar heldur ekki Með fulla vasa af grjóti, Kryddlegnum hjörtum eða Jóni Oddi og Jóni Bjarna. En hinar fyrrnefndu eru Möst Sí.

Áhugaverðasta áhugaleiksýningin 2002-2003
Eins og skáldið sagði: Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá (og svo framvegis)