Um komandi helgi verður merkisviðburður í sögu Íslensku óperunnar og óperuflutnings á Íslandi – en þá færir Íslenska óperan upp fyrstu óperusýningu sína í Eldborg í Hörpu. Á fjölunum í þessari fyrstu uppfærslu verður engin önnur en sjálf Töfraflautan eftir W.A. Mozart, sem hrifið hefur áhorfendur öll þau 220 ár sem liðin eru frá frumsýningu hennar í alþýðuleikhúsi í Vínarborg.

Sýning Íslensku óperunnar nú er skipuð einvalaliði úr íslenskum tónlistarheimi sem leikhúsheimi. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason og stjórnar hann nokkrum af fremstu söngvurum þjóðarinnar í þessu meistaraverki Mozarts. Aðrir listrænir aðstandendur sýningarinnar eru þau Ágústa Skúladóttir leikstjóri, Axel Hallkell Jóhannesson leikmyndahöfundur, Filippía Elísdóttir búningahönnuður og Páll Ragnarsson ljósahönnuður og er allt kapp lagt á að gera sýninguna sem glæsilegasta og ævintýralegasta úr garði – að ógleymdum Bernd Ogrodnik brúðuhönnuði, sem hannað og smíðað hefur hrífandi fugla, snáka og dýr af ýmsum toga sem lifna við á sviðinu í Eldborg.

Söngvarar í sýningunni verða Þóra Einarsdóttir í hlutverki Pamínu, Finnur Bjarnason/Garðar Thór Cortes í hlutverki Tamínó, Ágúst Ólafsson í hlutverki Papagenó, Jóhann Smári Sævarsson/Bjarni Thor Kristinsson í hlutverki Sarastró, Sigrún Hjálmtýsdóttir/Alda Ingibergssdóttir í hlutverki Næturdrottningarinnar, Valgerður Guðnadóttir í hlutverki Papagenu, Snorri Wium í hlutverki Mónóstatosar, Viðar Gunnarsson í hlutverki Fyrsta reglubróður, Kolbeinn Jón Ketilsson/Hlöðver Sigurðsson í hlutverki Annars reglubróður, Hulda Björk Garðarsdóttir, Auður Gunnarsdóttir og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir í hlutverki hirðmeyjanna þriggja, auk þess sem 35 manna Kór Íslensku óperunnar tekur þátt í sýningunni ásamt 48 manna hljómsveit. Þá syngja Pétur Úlfarsson, 11 ára, Jasmín Kristjánsdóttir, 11 ára, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, 18 ára, Birta Dröfn Valsdóttir, 15 ára, og Ingibjörg Fríða Helgadóttir, 20 ára, hlutverk andanna þriggja.

Það hefur tíðkast frá upphafi að Töfraflautan sé þýdd úr þýsku og flutt á móðurmáli viðkomandi lands sem hún er sett upp í, og svo er einnig nú – líkt og þau fjögur skipti sem óperan hefur verið sett upp hérlendis áður. Sýningin nú er í þýðingu Þrándar Thoroddsen, Böðvars Guðmundssonar, Þorsteins Gylfasonar og Gunnsteins Ólafssonar, en hinn stórsnjalli leikhöfundur og „hálfviti“ Þorgeir Tryggvason hefur þýtt og aðlagað leiktextann upp á nýtt sérstaklega að sýningunni nú, en leiktexti skipar mikilvægan sess í verkinu. Má því búast við þó nokkrum hnyttnum tilsvörum í sýningunni!

Miðasala á Töfraflautuna hefur farið fram úr björtustu vonum, en leita þarf aftur á annan áratug til að finna viðlíka miðasölu á óperusýningu á Íslandi. Alls verða átta sýningar á verkinu og hafa þegar verið bókaðir hátt í 10.000 miðar á sýninguna.

{mos_fb_discuss:2}