Hin ástsæla ópera Mozarts, Töfraflautan, verður flutt í styttri útgáfu fyrir börn í Norðurljósum í Hörpu næsta sunnudag, 16. nóvember, á tveimur sýningum, kl. 13.30 og kl. 16. Að sýningunni standa Íslenska óperan, Harpa og Töfrahurð, sem nýverið gaf út bók eftir Eddu Austmann Harðardóttur byggða á óperunni.

Í sýningunni er fuglafangarinn Papagenó í hlutverki sögumanns og leiðir hann áhorfendur gegnum óperuna, en í þessum búningi er verkið aðeins klukkustund í flutningi. Sópransöngkonan Edda Austmann Harðardóttir umritaði verkið fyrir börn en útsetningu tónlistar annaðist Steingrímur Þórhallsson.

Söngvarar í sýningunni eru Ágúst Ólafsson í hlutverki Papagenó, Gissur Páll Gissurarson í hlutverki Tamínó, Edda Austmann í hlutverki Pamínu, Snorri Wium í hlutverki Mónóstatosar, Viðar Gunnarsson í hlutverki Sarastró, Rósalind Gísladóttir í hlutverki Næturdrottningarinnar, Valgerður Guðnadóttir í hlutverki Papagenu og Fanný Lísa Hevesi, Jasmín Kristjánsdóttir og Birta Dröfn Valsdóttir í hlutverki vættanna þriggja. Þá taka Nicolaj Falck og Sigurlaug Knudsen þátt í sýningunni í hlutverki „Mozarts“. Með þeim leikur Shéhérazade-hópurinn undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar.

Sýningin byggir að nokkru leyti á uppfærslu Íslensku óperunnar á Töfraflautunni haustið 2011. Ágústa Skúladóttir leikstýrir, leikmunir eru hannaðir af Axel Hallkatli Jóhannessyni, búningar eru hannaðir af Filippíu Elísdóttur, lýsingu hannar Páll Ragnarsson og brúðugerð var í höndum Bernds Ogrodnik.

Uppselt er á báðar sýningarnar á sunnudag, en stefnt er að fleiri sýningum eftir áramót.