ImageLeiksýningin Fullkomið brúðkaup hefur notið fádæma vinsælda frá því hún var frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar í lok október. Troðfullt hefur verið á allar sýningar og til að mæta eftirspurn hefur fjölda aukasýninga verið bætt við sem allar hafa selst upp jafn óðum. Nú á laugardag mun tíu þúsundasti gesturinn sjá sýninguna sem er orðin sú næst vinsælasta í sögu leikhússins. Einungis hafa fleiri séð My Fair Lady árið 1983 en hana sáu rúmlega 11.000 manns.
Tíu þúsund gestir hafa streymt í Samkomuhúsið að sjá gamanleikritið Fullkomið brúðkaup síðan það var frumsýnt í lok október. Verkið hefur hlotið afar jákvæð viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda. Fullkomið brúðkaup er orðið næstvinsælasta sýning LA frá upphafi. Einungis hafa fleiri séð My Fair Lady árið 1983 en hana sáu rúmlega 11.000 manns. Það kemur því í ljós í febrúar hvort metið verði slegið. Sýningar á Fullkomnu brúðkaupi hafa allar verið troðfullar og sýnt hefur verið allt að fimm sýningum um helgi.
Aukasýningum er bætt við eins og þurfa þykir.

Þrátt fyrir gott gengi þá mun sýningum á Fullkomnu brúðkaupi ljúka þann 18. febrúar.

En sem fyrr hefur verið bætt við aukasýningum til að mæta eftirspurn eftir miðum og því enn hægt að fá miða – en hver er að verða síðastur.  LA tók í fyrra upp nýtt sýningarfyrirkomulag. Þá er fyrirfram skilgreindur sýningartími fyrir hvert verk og svo er það sýnt þétt í þann tíma sem er tiltölulega stuttur. Því þurfa áhorfendur að vera snöggir til að tryggja sér miða og grípa gæsina meðan hún gefst. Þetta fyrirkomulag þykir hafa gefið góða raun, bæði listrænt og rekstrarlega.  Í tilviki Fullkomins brúðkaups var þó gerð undantekning vegna gríðarlegrar eftirspurnar þegar sýningartímabilið var framlengt frá áramótum til 18. febrúar. Þá mun Brúðkaupið víkja fyrir Litlu hryllingsbúðinni sem frumsýnd verður á sviðinu í mars. Þann 16. febrúar verður Maríubjallan frumsýnd í nýju
leikrými LA, Rýminu.

Í haust var met í kortasölu frá síðasta leikári slegið en einnig hafa færri komist að en vilja á aðrar sýningar, s.s. Belgíska Kongó og Edith Piaf.

Fullkomið brúðkaup er vel skrifaður gamanleikur, hraður, fullur af misskilningi, framhjáhöldum og ást. Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr.
Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinnim herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað…

Fullkomið brúðkaup er eftir Robin Hawdon, leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson en þýðingu gerði Örn Árnason. Leikarar eru Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Maríann
Clara Lúthersdóttir, Esther Thalia Casey og Þráinn Karlsson.
Samstarfsaðilar við uppsetninguna eru Visa, Höldur og Egils.