Þjóðleikhúsið frumsýnir á laugardaginn í Kúlunni nýtt leikrit eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur um hina átta ára gömlu gleðisprengju – Fíusól.

Það er ekki ofmælt að það sé mikill áhugi á leiksýningunni um Fíusól og nú þegar er orðið uppselt á allar sýningar fram í miðjan maí! Ástæðan fyrir þessum mikla spenningi liggur vitanlega í því að íslensk börn og foreldrar þeirra hafa fyrir margt löngu fallið fyrir ólíkindauppátækjum Fíusólar í þeim fjórum Fíusólarbókum sem þegar hafa komið út – og eru margverðlaunaðar og lofaðar.

Í leikritinu býður Fíasól leikhúsgestum heim í hosiló og inn í hræðilega ruslahauginn sem er herbergið hennar. Við kynnumst fjölskyldunni, besta vininum honum Ingólfi Gauki, bláu skrímslunum í gluggakistunni, draugunum undir rúminu og svo er eins gott að lyfta fótunum svo Sigmundur netþjónn komist að með töfraryksuguna sína!

Lára Sveinsdóttir leikur hina einu sönnu Fíusól, Sindri Birgisson leikur Ingólf Gauk og María Pálsdóttir bregður sér í hlutvek mömmu, Pippu systur og Sigmundar netþjóns.

Höfundur Fíusólar er Kristín Helga Gunnarsdóttir og leikgerðina vann hún ásamt Vigdísi Jakobsdóttur.
Leikstjóri sýningarinnar er Vigdís Jakobsdóttir, Halldór Baldursson og Högni Sigþórsson eru höfundar leikmyndar, Leila Arge hannaði búninga og Jóhann Bjarni Pálmason sér um lýsingu.

Ingó í Veðurguðunum samdi lögin í sýningunni – sem krakkar eiga eflaust eftir að kyrja löngu eftir að leiksýningunni er lokið.