Kómedíuleikhúsið frumsýnir Tindátana föstudaginn 30. september næstkomandi.
Fyrir nærri 8 áratugum kom út ljóðabók sem átti eftir að spá fram í tímann og vera auk þess einstaklega sannspá. Þessi framsýna íslenskra ljóðabók spáði hvorki meira né minna en fyrir um endalok seinni heimstyrjaldarinnar. Ljóðabók þessi heitir Tindátarnir og er eftir Stein Steinarr með myndum eftir Nínu Tryggvadóttur. Enn á þessi bók brýnt erindi við okkur mannfólkið og verður vonandi einnig sannspá og það helst sem fyrst. Nú hefur Kómedíuleikhúsið gert leikverk uppúr þessari áhrifamiklu ljóðabók, Tindátarnir, og verður leikurinn frumsýndur í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal á föstudag 30. september.
Tindátarnir er barna- og fjölskyldu leikverk með mikilvægt erindi. Umfjöllunarefnið er sannlega eldfimt, nefnilega stríð með öllum sínum hörmungum og leiðu afleiðingum. Að viðbættum beittum einræðistilburðum sem sérlega auðvelt er að missa tökin á einsog verður reyndar reyndin. Leikurinn er settur upp sem skuggabrúðuleikhús sem er um margt lítt notað leikhúsform hér á landi. Leikstjóri er Þór Túlinius, leikari er Elfar Logi Hannesson og brúðumeistari er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Eru þau einnig höfundar leiksins. Soffía Björg Óðinsdóttir semur tónlist og hljóðmynd, Þ. Sunnefa Elfarsdóttir annast búningahönnun, Kristján Gunnarsson leikmyndahönnun og ljósameistari er Sigurvald Ívar Helgason.
Tindátarnir verða einog áður var getið frumsýndir í Kómedíuleikhúsinu Haukadal 30. september. Eftir það verður farið í leikferð um landið og hafa þegar verið bókaðar sýningar víða. Tindátarnir er 51 leikverkið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið en leikhúsið hefur starfað á Vestfjörðum síðan 2001 og er eina atvinnuleikhús Vestfjarða.