Eða hvað? Muniði ekki eftir honum Jörundi úr sögubókunum, hann kom til Íslands árið 1809 og gerðist kóngur um hundadagana.  Hét víst Jörgen upp á dönsku enda upprunninn þar og  þótti  erfiður drengur og ódæll, prakkari og stríðnispúki. Hann var því snemma sendur á sjóinn og sigldi með bretum í mörg ár.

Eða muniði kannski eftir honum í laginu Arídúarídúradei? „Í Danmörk fæddist og ólst hann upp en engan hlaut hann þar frama sú kotunga þjóð með kúastóð og kokhljóð var honum til ama…. Sem kóngur ríkti hann meður sóm´og sann eitt sumar á landinu bláa…..“

Hvað sem því líður er Leikfélag Fljótsdalshéraðs að kynna sér feril kappans og ætlar að deila því sem kemur í ljós með Héraðsbúum og nærsveitamönnum með sýningunni Þið munið hann Jörund í leikstjórn Halldóru Malinar Pétursdóttur.  Leikritið er eftir Jónas Árnason með fjöldanum öllum af söngvum sem hann samdi við skosk og írsk þjóðlög.  Hver man ekki eftir Bíum bíum bambaló….einmitt……úr þessu leikriti. Leikritið var frumsýnt í Iðnó 1970 og naut gríðarlegra vinsælda og við sem munum langt aftur munum eftir tríóinu Þrjú á palli sem söng öll þessi lög í óskalagaþáttunum í útvarpinu og stundum í okkar svarthvíta sjónvarpi. Í sýningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs verður það karlakór sem syngur lögin og hefur Freyja Kristjánsdóttir stjórnað honum en Hafþór Valur Guðjónsson sér um tónlistarstjórnina í sýningunni.

Kíkiði á fésbókarsíðuna Þið munið hann Jörund og fylgist með hvernig gengur. Hvernig kemst Jörundur til Íslands? Hver er Charlie Brown? Á Laddie kærustu? Hvað er skonrok? Og hver er Barbara? Kannski kærastan hans Stúdíosuss,  nei var það kannski hún Dala-Vala?

Sýningar verða í Valaskjálf en þar er nú  sem óðast verið að gera allt upp. Það eru örfá sæti laus á frumsýninguna þann 14. nóvember kl. 20.00 og  næstu þrjár sýningar verða sem hér segir:

Sunnudaginn 16. nóvember kl. 16.00

Miðvikudaginn 19. nóvember kl. 20.00

Föstudaginn 21. nóvember kl. 20.00

Aðrar sýningar verða auglýstar seinna. Fylgist með á prent- og vefmiðlum.

Frekari upplýsingar og miðapantanir eru í síma 867-1604 eða á tid.munid.hann.jorund@gmail.com