Það var mikil tilhlökkun hjá barnabörnunum að fara með afa í Þjóðleikhúsið og sjá  hátíðarsýningu Leikfélags Sólheima Árar, álfar og tröll í tilefni 90 ára afmælis félagsins. Spurt var á leiðinni hvort að það væri sungið í sýningunni og hvort að leikararnir þyrftu að vera með grímu. Þegar tjaldið var síðan dregið frá stórskemmtilegri sýningu leikfélagsins kom í ljós að það var heldur betur sungið og enginn leikari með grímu nema í þágu listarinnar.  

Höfundur verksins Hannes Blandon fer þá skemmtilegu leið í gerð handritsins að segja sögu Sólheima og baráttu Sesselju Sigmudsdóttur við að setja upp heimili á Sólheimum í anda Rudolph Steiner í ævintýraheimi álfa og trölla,konunga og galdrakinda. Þetta fannst mér vel heppnuð paródía þar sem mér fannst t.d. tröllin tákna úrelta og grimma hugmyndafræði sem verður að steini þegar Sesselja dregur hana út í sólina, ráðgjafar tákna staðnað embættismannakerfi sem standa á móti góðum hugmyndum og kóngurinn fyrir stjórnvöld sem vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga. Aðrar persónur hlutgera síðan þá sem standa hjá og gera ekkert og þá sem berjast á móti góðum hugmyndum með flærð og grimmd. Álfarnir/náttúruöflin standa síðan alltaf með Sesselju og aðstoða hana til sigurs. Aldeilis skemmtilega vel útfærð hugmynd hjá Hannesi sem gefur manni innsýn í sögu Sesselju og Sólheima og skemmtir manni og barnabörnunum  í leiðinni.

Það er valinn maður í hverju rúmi í sýningunni. Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson stjórnar leikurum og flæði sýningarinnar af alúð og festu og lætur hana breiða vel úr sér á stóra sviði Þjóðleikhússins. Tónlist þeirra Lárusar Sigurðssonar og Hannesar Blandon var bæði skemmtileg og hugljúf og vel flutt af leikurum og leikhóp. Leikmynd og búningar voru skemmtilega litrík og fjölbreytt í anda ævintýrisins og gervi og hár gerðu mikið fyrir persónur verksins.

Það var gaman að sjá hvað Leikfélag Sólheima hefur yfir að ráða frábærum hópi leikara og söngvara. Mikið mæddi á Helgu Þórunni Pálsdóttur sem lék Sesselju og skilaði hún hlutverkinu með miklum glans. Kristján Atli Sævarsson og Arnar Ingi Richardssn í hlutverkum Runálfs og Steinars voru afar góðir og Arnar uppskar marga hlátra. Hallbjörn V. Rúnarsson og Dagný Davíðsdóttir í hlutverkum kóngs og drottingar voru prýðilega yfirlætisleg eins og stjórnvöldum sæmir og Íris L. Blandon ógurleg og fyndin í hlutverki völvunnar. Það má heldur ekki gleyma stórskemmtilegum ljósálfum með þýsku ívafi og  ískrandi fyndnum svartálfa ráðgjöfum. Svo má ekki gleyma börnunum í sýningunni, dönsurum og söngvurum  sem voru frábær. 

Um leið og ég óska Leikfélagi Sólheima til hamingju með 90 ára afmælið vil ég þakka leikfélaginu fyrir þær sýningar sem mér hefur hlotnast að sjá í gegnum tíðina. Ekkert leikfélag/leikhús í landinu er  með hjartað meira á réttum stað og sendir alltaf kærleika til áhorfenda um leið og að það hefur alltaf boðið upp á afbragðs skemmtun. 

Barnabörnin og ég þakka kærlega fyrir frábæra skemmtun og hlýju í hjartastað. 

Lárus Vilhjálmsson