Leikfélag Akureyrar og hinn ástæli leikari og tenór Guðmundur Ólafsson bjóða upp á leiksýninguna Tenórinn í Samkomuhúsinu laugardagskvöldið 14. mars kl. 20:00. Eftir 6 ára sýningartíma Tenórsins er Guðmundur á því að "Nú sé mál að linni" og því mun Tenórinn „syngja sitt síðasta“ í Samkomuhúsinu á Akureyri laugardagskvöldið 14. mars en þar þreytti Guðmundur einmitt frumraun sína í atvinnuleikhúsi haustið 1974.

Guðmundur Ólafsson er höfundur og annar leikara Tenórsins sem var frumsýndur á Ólafsfirskum Berjadögum í ágústmánuði 2003 og síðar það sama haust  í Iðnó þar sem sýningin var á fjölunum  í tvö leikár; auk þess var verkið leikið haustið 2006 í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit, vorið 2007 í Borgarleikhúsinu og svo gladdi söngvarinn augu og eyru íbúa á Norðausturlandi í miðju bankahruninu sl. haust.

Í Tenórnum er sagt frá tenórsöngvara sem hefur verið langdvölum í útlöndum en er nú kominn heim í stuttan stans, og notar tækifærið til að halda tónleika. Leikritið gerist á tæpum tveimur klukkutímum í búningsherbergi ónefnds tónlistarhúss þar sem söngvarinn og undirleikari hans eru að undirbúa sig fyrir tónleikana.

Upphitun þeirra og undirbúningur taka á sig undarlegustu króka bæði til fortíðar og framtíðar og kemur ýmislegt í ljós þegar skyggnst er ofaní sálarkirnu söngvarans ekki síður en í ferðatösku hans.

Í tónlist er víða leitað fanga svo sem hjá rússneskum karlakórum, háværum sópransöngkonum og rasssíðum röppurum. Auk þess í hjarnbjörtum íslenskum tenórsöngvum, amerískum söngleikjum, ítölskum slögurum og óperuaríum.

Guðmundur Ólafsson er Tenórinn og Undirleikarann leikur Sigursveinn Kr. Magnússon. Leikstjóri er Oddur Bjarni Þorkelsson.

{mos_fb_discuss:2}