Á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga, sem haldinn var að Sveinbjarnargerði í Eyjafirði, sl. helgi, urðu talsverðar breytingar á stjórn Bandalagsins. Tveir stjórnarmenn, þeir Ingólfur Þórsson, Freyvangsleikhúsinu, og Hörður Sigurðarson, Leikfélagi Kópavogs, gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Hugleik, ákvað að hætta í stjórn eftir árs setu þar. Í stað þeirra voru kosin í stjórn, Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum og Halldór Sigurgeirsson, Freyvangsleikhúsinu. Einnig var Guðfinna Gunnarsdóttir, Leikfélagi Selfoss, endurkjörin.

Nýr inn í varastjórn kom Bernharð Arnarsson, Leikfélagi Hörgdæla en Halla Rún Tryggvadóttir, Leikfélagi Húsavíkur og Hjalti Stefán Kristjánsson, Hugleik, voru endurkjörin.

Eftirfarandi starfsáætlun fyrir leikárið 2010-2011 var samþykkt:

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Sérverkefni ársins

1. Halda NEATA-leiklistarhátíð á Akureyri 10.–15. ágúst 2010.

2. Stefnt  skal að því að halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2011.

Þá var samþykkt í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu Bandalagsins að hækka árgjald leikfélaga til þess úr 40.000 kr. í 50.000 kr. ef félag setur upp eina styrkhæfa sýningu. Fyrir uppsetningu á tveimur verkum greiðist eitt og hálft árgjald eða 75.000 kr. og þremur eða fleiri tvöfalt árgjald eða 100.000 kr. Ef leikfélag setur ekki upp sýningu á leikárinu greiðist hálft árgjald eða 25.000 kr.

rokk1Eins og lesa má í annarri frétt hér á vefnum var sýning Hugleiks, Rokk valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin 2010 og verður sýnd í Þjóðleikhúsinu í júní. Í umsögn valnefndar um sýninguna sagði:

Rokk er kröftug sýning þar sem leikur og tónlist njóta sín sérlega vel í skemmtilegri blöndu af gamni og alvöru. Sögusviðið er æfingarými sem tvær hljómsveitir deila með sér án þess að þekkjast nokkuð fyrir. Önnur er hefðbundin karlahljómsveit, hin kvennahljómsveit, en sambýlið leiðir fljótlega af sér margháttaða togstreitu og kostuleg atvik, og auðvitað er ástin fljót að fara á kreik við þessar aðstæður. Persónur hljómsveitarmeðlimanna eru dregnar skýrum og skemmtilegum dráttum, ekki síður en dularfulli uppgjafarpopparinn og húsnæðiseigandinn, sem virðast fylgja í kaupunum. Tónlistarflutningurinn er góður og kraftmikill og í heildina Rokk leikfélagsins Hugleiks bráðskemmtileg, fjörug og hugmyndarík leiksýning.

{mos_fb_discuss:3}