ImageJanúarverkefni Hugleiks í Þjóðleikhúskjallaranum er gamanóperan Bíbí og blakan eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Verkið segir frá hinni ungu og fögru Bíbí sem bíður ein eftir að ástin sæki hana heim, en mál hennar vandast þegar tvo gesti ber að garði sömu nóttina: töfrandi en dularfullan rúmenskan nýbúa og ábúðarmikinn vampýruveiðara sem telur sig heldur en ekki vera kominn í feitt.

ImageHöfundarnir kjósa að kalla verkið "óperuþykkni", enda koma þar fyrir öll þau helstu atriði sem einkenna "alvöru" óperur, en á mun skemmri tíma en algengast er, sem ætti að henta sérlega vel tímabundnum nútímaáhorfendum.

Bíbí og Blakan er langlífasta og víðförulasta sýning Hugleiks, og fagnar nú tíu ára afmæli sínu. Verkið var frumsýnt í Höfundasmiðju Leikfélags Reykjavíkur 1996, og seinna sama vor tekin til sýninga hjá Hugleik. Árið 2000 var sýningin fulltrúi Íslands á alþjóðlegri leiklistarhátíð í Litháen og var í framhaldinu boðið á aðra hátíð í Rússlandi af fulltrúum rússneska áhugaleikhússambandsins sem heilluðust mjög af sýningunni. Erlendri sigurgöngu Bíbíar (hingað til a.m.k) lauk síðan í Rudolstadt í Þýskalandi, þangað sem henni var boðið af þýskum leiklistarforkólfum eftir sýninguna í Rússlandi.

Verkið hefur tekið talsverðum breytingum í áranna rás, og hafa höfundar notað tækifærið í hvert sinn sem nýtt ferðalag var á döfinni að breyta og bæta. Leikarar að þessu sinni eru þau Einar Þór Einarsson, Björn Thorarensen, Hulda B. Hákonardóttir, Silja B. Huldudóttir, Þorgeir Tryggvason, Þórunn Guðmundsdóttir og Ylfa Mist Helagdóttir auk píanóleikarans Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Aðeins verður ein sýning á verkinu, miðvikudaginn 11. janúar nk. og hefst hún kl. 21.00.