Leikminjasafnið hefur samstarf við Byggðasafn Hafnarfjarðar um sýningu um leiklist í Hafnarfirði sem verður opnuð á Björtum dögum, föstudaginn 4. júní kl 17 í Góðtemplarahúsinu að Suðurgötu 7. Í Hafnarfirði hefur verið leikið í meira en 130 ár. Þar hafa bæði starfað áhugaleikfélög og atvinnuleikhús, auk þess sem ýmsir þjóðkunnir leikarar eru hafnfirskir að uppruna eða hafa einhvern tímann tyllt niður fæti á hafnfirskum leiksviðum.

Á nítjándu öld urðu Hafnarfirðingar flestum, ef ekki öllum, fyrri til að koma sér upp leikhúsi og síðar fékk Leikfélag Hafnarfjarðar ágæta aðstöðu í Bæjarbíói. Þá hefur löngum verið mikið leikið í skólum bæjarins, bæði barnaskólanum og Flensborgarskóla. Leiksaga Hafnfirðinga er því, þegar á allt er litið, bæði löng og fjölbreytt og á köflum metnaðarmikil.

Ekki er vitað með vissu hvenær leiksýningar hefjast í Hafnarfirði, en þó er nokkuð ljóst að það var áður en Gúttó kom til sögunnar, um 1880. Sýnt var í Linnetspakkhúsi svonefndu og var Skugga-Sveinn Matthíasar Jochumssonar leikinn. Frá þessu segir í endurminningum Knuds Ziemsens borgarstjóra í Reykjavík.

Með tilkomu Gúttó breyttist leikaðstaða auðvitað til mikilla muna, þó að framan af muni Hafnfirðingar ekki hafa hugsað svo hátt að stofna sérstakt leikfélag. Þó er getið um leikfélag í blaðinu Kvási sem var gefið út í bænum á árunum 1908 – 09, en litlar heimildir eru að öðru leyti um starf þess.

{mos_fb_discuss:3}