Saga Önnu Frank ætti að vera öllum kunn, unglingsstúlku af gyðingaættum sem neyddist til að fela sig með fjölskyldu sinni í seinni heimstyrjöldinni, innilokuð á háalofti í tvö ár. Unglingsstúlku sem hélt dagbók allan tímann en hlaut að lokum grimmileg örlög í fangabúðum nasista.
Í dagbókina skrifaði Anna allar sínar hugrenningar, um lífið í þrengslunum á háaloftinu, hina íbúana og ekki síst um tilfinningar sínar og umrótið sem fylgir unglingsárunum en hún var á aldrinum þrettán til fimmtán ára meðan á þessum atburðum stóð. Fyrst þegar Dagbók Önnu Frank kom út var efni hennar að nokkru leyti ritskoðað, að ósk föður hennar var skautað yfir þá hluta sem sneru að kynferðislegri vakningu og neikvæðum tilfinningum í garð móður hennar. Það var ekki fyrr en um það bil fjörutíu árum eftir fyrstu útgáfu að óritskoðuð dagbók Önnu kom út.
Freyvangsleikhúsið setur nú upp verk byggt á dagbók Önnu, en um er að ræða nýja leikgerð sem byggir á óritskoðuðu útgáfunni. Sýningin er því um margt frábrugðin fyrri uppsetningum hér á landi sem hafa byggt á fyrri útgáfum bókarinnar. Sjálf hef ég bara lesið fyrri útgáfuna og það kom mér því nokkuð á óvart að leikritið var töluvert léttara en ég hafði búist við. Viðfangsefni sýningarinnar er að sjálfsögðu háalvarlegt en hún er á köflum létt og skemmtileg og þó nokkrum sinnum kvað við skellihlátur áhorfenda í salnum.
Áður en sýningin hefst er áhorfandinn þó minntur á það hvað er í vændum, dramatísk tónlist setur andrúmsloftið um leið og áhorfendur ganga inn í salinn og fá sér sæti. Sviðsmyndin er mjög skemmtileg og gefur áhorfandanum góða yfirsýn yfir þau litlu rými sem mynda vistarverur háaloftsins. Í upphafi leikritsins má sjá þar fjöldann allan af kartöflupokum, íbúarnir eru nokkuð bjartsýnir og vel búnir fyrir langa dvöl í felum. Eftir hlé, þegar eitt og hálft ár er liðið, eru kartöflupokarnir hins vegar horfnir og ljóst að vistin er orðin íbúum háaloftsins afar þungbær.
Áhorfandinn getur auðveldlega ímyndað sér hvernig það er að vera innilokuð í tvö ár í litlu rými með sjö öðrum manneskjum, ekki síst ef þú kannt ekki vel við einhverja af þessum sjö manneskjum. Þetta væri krefjandi fyrir hvern sem er, hvað þá að upplifa rússíbana unglingsáranna í þessum aðstæðum. Í svona náinni sambúð einstaklinga sem eiga ekki samleið gengur eðlilega á ýmsu, árekstrar yfir ótrúlegustu hlutum og kækir og hegðun sem reyna á taugar annarra. Tilfinningar áhorfenda sveiflast fram og aftur með sorg og gleði íbúanna, þegar þau fá hræðilegar fregnir af ástvinum, hamingjuna þegar þau fá hversdagslega hluti eins og ferskar matvörur, og ekki síst tilraunir Önnu til að vekja kátínu hinna. Það er óhætt að segja að Anna sé karakter sem er alveg á skjön við það umhverfi sem hún er í, orkumikil gleðisprengja sem reynir allt til að létta þungt andrúmsloftið á háaloftinu.
Leikarahópurinn er nokkuð þéttur og spilar vel saman. Járnbrá Karítas Guðmundsdóttir er hreint út sagt frábær í hlutverki Önnu, hún fangar vel þessa líflegu og fyrirferðarmiklu persónu sem er bundin af erfiðum og hamlandi aðstæðum. Að öðrum ólöstuðum vil ég líka sérstaklega nefna Helga Þórsson í hlutverki Herra Van Daan og Ingólf Þórsson í hlutverki Ottó Frank sem báðir eru mjög sannfærandi í hlutverkum sínum.
Tilfinningaþrungin lokaorð Ottó Frank þar sem hann lýsir afdrifum íbúa háaloftsins láta engan ósnortinn. Þrátt fyrir að hafa þekkt söguna og alla sýninguna verið meðvituð um þau hræðilegu örlög sem biðu þeirra, var ég ekki viðbúin þeirri nístandi sorg sem greip mig þegar faðir Önnu stendur einn eftir. Eftir að hafa upplifað hörmungar fangabúðanna kemst hann að því að hann eiginkona hans og dætur eru látnar, hann einn hefur lifað af. Ég, líkt og fleiri í salnum, réði ekki við tárin sem streymdu í stríðum straumum meðan á einræðu þessa umkomulausa föður stóð.
Í hléinu hafði ég tekið eftir því að hægt er að kaupa vasaklúta í sjoppunni og þótti það nokkuð skondið. Eftir á að hyggja hefði ég betur fjárfest í slíkum pakka og hefði þá kannski sloppið við að snýta mér í ermina meðan á mesta táraflóðinu stóð. Lesendur hafa hér með verið varaðir við og geta byrgt sig upp af snýtibréfi fyrir sýningu.
Þetta er leiksýning sem spilar á allan tilfinningaskalann og það er óhætt að segja að það sé verulega vel að henni staðið. Freyvangsleikhúsið fær mikið hrós fyrir metnaðarfulla og flotta sýningu sem ég mæli hiklaust með.
Hrönn Björgvinsdóttir