Liðsmenn Leikfélags Sauðárkróks æfa nú af kappi gamanleikinn Svefnlausa brúðgumann eftir Arnold og Bach í þýðingu Sverris Haraldssonar. Leikstjóri er Jakob S. Jónsson, sem einnig gerði nýja leikgerð af handriti og staðfærði, en alls koma á þriðja tug manna að sýningunni. Frumsýnt verður í félagsheimilinu Bifröst 1. maí næstkomandi en það er einmitt opnunardagur Sæluvikunnar 2011.

Leikritið fjallar um nýgift hjón sem lenda óvæntri uppákomu í brúðkaupsferðinni. Málin flækjast svo stig af stigi eins og góðum farsa sæmir, en enginn hlýtur þó varanlegan skaða af. Yfirsmiður leikmyndar er Indriði Ragnar Grétarsson, lýsingu hannar Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson en búningar eru í höndum leikhópsins.

Svefnlausi brúðguminn hefur áður verið sýndur á Sauðárkróki, en Verkakvennafélagið Aldan setti leikritið upp árið 1970 í leikstjórn Bjarna Steingrímssonar.  Leikfélag Sauðárkróks leitar nú að myndum, dagblaðaúrklippum, viðtölum eða minningum frá þeirri uppsetningu sem gaman væri að geta sýnt eða nýtt við nýju uppsetninguna. Gaman getur verið að bera saman búninga, förðun, leikmynd og annað sem væntanlega hefur breyttst nokkuð á þessum rúmu 40 árum og sýna eða segja frá því t.d. í leikskrá eða á veggspjöldum.

Þeir sem tóku þátt í uppsetningunni árið 1970, eiga myndir eða annað sem tengist sýningunni og eru tilbúnir að lána afnot af slíku, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við Leikfélag Sauðárkróks í síma 849-9434 eða á netfangið leikfelagsaudarkroks@simnet.is

{mos_fb_discuss:2}