Dramatíski gamaneinleikurinn Superhero verður aftur sýndur í Jaðarleikhúsinu nú í júlí í tilefni af Act alone. Leikari verksins, sænsk-ungverski leikarinn Erik Hakansson kom aftur til landsins til þess að taka þátt í einleikjahátíðinni Act alone á Ísafirði þar sem hann vakti mikla athygli, en boðið verður upp á fjórar auka sýningar á verkinu í Jaðarleikhúsinu, Miðvangi 41, 220 Hafnarfirði, 9. – 12. júlí.

Superhero er dramatískur gamanleikur um Peter Brown, ungan mann sem býr við stöðugt ofríki foreldra sinna. Þegar foreldrar hans falla skyndilega frá verður hann að læra að taka sínar eigin ákvarðanir, áskorun sem í hans augum er nánast óyfirstíganleg. Hann leitar því leiðsagnar hjá ofurhetjunum sem hann kynntist í barnæsku.

Verkið er samið af leikstjóranum, Eyrúnu Ósk Jónsdóttur, en var það sérstaklega samið fyrir leikarann sem flytur það, Erik Hakansson. Persóna verksins byggir að sumu leyti á leikaranum sjálfum, en leikarinn og Peter eru báðir afar sérstakir menn sem upplifa heiminn öðruvísi en við eigum flest að venjast og tjá sig á einstakan hátt. Einlæg, hreinskiptin sýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Almennt miðaverð er 1200 krónur, en 1000 krónur fyrir afsláttarþega. Sýningar hefjast kl 20 og er verkið flutt á ensku. Miðapantanir í síma 867-2675

{mos_fb_discuss:2}