Miðvikudaginn 16. mars kl. 20 verður styrktarsýning á heimildaverkinu Flóð í Borgarleikhúsinu eftir Hrafnhildi Hagalín og Björn Thors. Allur ágóði rennur til Katrínar Bjarkar Guðjónsdóttur, 23 ára íbúa á Flateyri, sem hefur átt við alvarleg veikindi að stríða síðan síðastliðið sumar.

Katrín Björk Guðjónsdóttir var tveggja og hálfs árs þegar snjóflóðið féll á Flateyri 1995, en bjargaðist með undraverðum hætti ásamt fjölskyldu sinni. Hún er ein af þeim sem Björn og Hrafnhildur ræddu við í tengslum við vinnuna við Flóð og kemur saga hennar að hluta fram í verkinu.

Síðastliðið sumar fékk Katrín heilablóðfall, annað á skömmum tíma og við tók löng og ströng endurhæfing. Fjölskylda Katrínar hefur verið henni stoð og stytta og hafa því verið mikið frá vinnu. Leikhópur og aðstandendur Flóðs vilja því leggja þeim lið með styrktarsýningu þar sem allur ágóði rennur til Katrínar.

Um verkið; Árið 1995 féll stórt snjóflóð á bæinn Flateyri á Vestfjörðum. Flóð er heimildaverk byggt á þessum atburðum. Á síðasta ári voru 20 ár liðin frá því að flóðið féll og vill Borgarleikhúsið minnast atburðanna sem mörkuðu djúp spor í þjóðarsálina á sínum tíma.
Þátttakendur í sýningunni rannsaka og rifja upp atburði, spyrja spurninga og raða saman brotum frá þessari örlagaríku nótt 26. október árið 1995. Verkið er byggt á nýlegum viðtölum við Flateyringa og unnið í nánu samstarfi við þá.

Flóð er áhrifamikið nýtt íslenskt heimildaverk um mikilvægi þess að varðveita söguna fyrir börnin okkar og framtíðina, um samstöðu og samheldni og það sem skiptir raunverulegu máli í lífinu.

„Margbrotin sýning” BS. Kastljós

Aðstandendur; Höfundar: Hrafnhildur Hagalín og Björn Thors | leikstjóri: Björn Thors | Leikmynd & búningar: Snorri Freyr Hilmarsson | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson| Tónlist & hljóð: Garðar Borgþórsson |  Leikarar: Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Jensson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Kristbjörg Kjeld.