hangiket_gagnryniEins og svo oft áður setur reykvíska leikfélagið Hugleikur á svið nýtt íslenskt verk sem ber það stórbrotna nafn „Stóra hangikjöts-, Orabauna- og rófumálið, taðreyktur sakamálatryllir“. Það gefur tóninn að alveg glimrandi skemmtun í litla leikhúsinu á Eyjaslóð.
Anna Kristín Kristjánsdóttir, Sigrún Óskarsdóttur og Unnur Guttormsdóttir hafa sett saman skemmtilegt verk þar sem koma við sögu álfar sem eru að verja sín heimkynni, umhverfisverndarsinnar sem eru að verja landið og útrásarvíkingar sem hugsa bara um gróða og að komast undan Sérstökum. Ekki ætla ég að rekja söguþráðinn nánar en allt endar vel að lokum. Skemmtileg lög og textar Árna Hjartarsonar falla afar vel að verkinu og flutningur var hljómsveitar til fyrirmyndar.
Það er gaman að sjá hversu efnilegur leikhópur þeirra Hugleikara er og Hrund Ólafsdóttir leikstjóri stýrir þeim með styrkri hendi. Verkið hefur gott flæði og söng- og leikatriði falla vel saman.
Sigríður Bára Steinþórsdóttir var flott og röggsöm álfadrottning og með aldeilis fína söngrödd.Halldór Sveinsson sem leikur Sigmar veitingahúseiganda og umhverfissinna vann sitt hlutverk vel og var óborganlega fyndin þegar söngurinn tók yfir og rannsóknarlögreglumaðurinn sem er leikin af Ingvari Erni Arngeirssyni átti góða spretti. María Björt Ármannsdóttir sem leikur bóndakonuna Ásu frá Orkneyjum sýndi skemmtilega og kómíska takta og samleikur hennar og Halldórs var fyndin og vel unnin. Selma Rán Vilhelmsdóttir Lima hélt einnig vel utan um brjóstumkennanlegu útrásarfrúnna.
Enn einu sinni tekst þeim Hugleikurum að skemmta manni svo vel heila kvöldstund að ég var ennþá brosandi þegar ég stoppaði á rauðu ljósi í Garðabæ og útrásarvíkingurinn á Porsinum við hliðina á mér horfði undurfurðulega á mig. Var hann kannski á flótta undan Sérstökum. Kannski. Allavega fær leikópurinn á Eyjaslóðinni fjórar stjörnur frá mér og ég hvet alla til að drífa sig.
Lárus Vilhjálmsson