StóraHangikjÞann 9. maí 2015 lýkur leikfélagið Hugleikur leikári sínu með frumsýningu á nýju, hressu verki sem kallast Stóra hangikjöts-, Orabauna- og rófumálið: Taðreyktur sakamálatryllir.

Leikurinn gerist á hrörlegu veitingahúsi sem verið er að gera upp. Allt hangikjöt, rófur og Orabaunir hafa horfið af landinu með dularfullum hætti. Eru álfarnir að hefna sín af því að álfabyggð hefur verið raskað eða eru það strokufangar af Litla-Hrauni sem eru sökudólgarnir? Og hvaðan koma þessar þrjár konur, Ása, Signý og Helga, sem eru að sniglast um veitingahúsið? Ólafur rannsóknarlögreglumaður heldur að veitingamaðurinn og álfavinurinn Sigmar geymi lykilinn að lausn málsins.

Höfundar eru Unnur Guttormsdóttir, Sigrún Óskarsdóttir og Anna Kristín Kristjánsdóttir. Þær eru allar þrjár stofnfélagar í Hugleik og allar hafa þær skrifað leikrit frá upphafsárum félagsins. Árni Hjartarson semur lög og texta og leikstjóri er Hrund Ólafsdóttir. Alls taka fimm leikarar þátt í sýningunni ásamt hljómsveit en töluvert er um tónlist í verkinu að hugleikskum sið.

Sýningar eru áætlaðar fimm talsins og sýndar dagana 9., 12., 15., 17., og 22 maí í Hugleikhúsinu. Allar sýningar hefjast kl. 20 og miðaverð er kr. 2.000. Miðasala fer fram á hugleikur.is.