Stjórnarfundur 9. og 10. nóvember 2007

Haldinn í þjónustumiðstöðinni, settur kl. 18.00 föstudaginn 9.

Mætt föstudag: Þorgeir Tryggvason, Lárus H. Vilhjálmsson, Ingólfur Þórsson, Ármann Guðmundsson, Guðfinna Gunnarsdóttir, Hjalti St. Kristjánsson og Vilborg Árný Valgarðsdóttir.

Mætt laugardag: Þorgeir Tryggvason, Lárus H. Vilhjálmsson, Ingólfur Þórsson, Ármann Guðmundsson, Hjalti St. Kristjánsson og Vilborg Árný Valgarðsdóttir.

Fundarritari: Ármann Guðmundsson.

1. Fundargerð stjórnarfundar frá 6.–7. júlí

Engar athugasemdir gerðar. Fundargerð samþykkt.

2. Starfsáætlun stjórnar og aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2007-2008:

Almenn starfsemi:
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar í samræmi við lög BÍL

Rekstur í föstum skorðum. Ekki ástæða til að gera neitt átak í sölumálum þar sem yfirvofandi eru flutningar í nýtt húsnæði. Hins vegar mætti skoða hvað hægt er að gera í þeim málum að flutningum loknum.

2. Rekstur fasteigna skv. viðhaldsáætlun
Skipt hefur verið um rúðuna sem snýr að Laugaveginum. En hefur ekki náðst í ÍSTAK til að laga leka í handritasafni.

3. Útgáfa Ársrits fyrir leikárið 2006–2007
Ársritið er komið, aðeins á eftir áætlun, en veglegt að vanda. Gert í 100 eintökum sem send eru á öll aðildarfélög, stjórn, nefndafólk, bókasöfn, Menntamálaráðuneytið og aðra sem þess hafa æskt. Einnig er það birt á leiklist.is á PDF-formi.

4. Starfsemi Leiklistarskóla BÍL skv. námskeiðaáætlun
Skólastýrurnar Hrefna Friðriksdóttir og Dýrleif Jónsdóttir mæta á fundinn. Orðið er ljóst að skólinn verður ekki að Hallormsstað næsta sumar þar sem það er búið að gera samning um hótelrekstur frá 7. júní og því verður hann væntanlega á Húsabakka. Þó má athuga hvort möguleiki er að komast að samkomulagi við hótelrekstraraðilana. Samkipti við staðarhaldara á Húsabakka hafa ekki verið sem skildi, t.d. heldur hann því fram að við höfum bókað vikuna 7.–15. júní 2008 en það kannast enginn við. Lárus velti upp möguleikum á að hafa skólann uppi á gamla herstöðvarsvæðinu við Keflavík.

Almenn ánægja var með námskeið sl. sumars þótt að vonbrigði hafi verið með hversu fáir voru á leikstjórnarnámskeiðinu. Grunnnámskeið í förðun var haldið í október en fella þurfti niður framhaldsnámskeið vegna ónógrar þátttöku.

5. Rekstur vefsíðunnar leiklist.is skv. tillögum vefnefndar
Rekstur í föstum skorðum og ekkert sérstakt hefur verið gert í haust.

6. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og til einkaaðila til starfsemi áhugaleikfélaganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og Leiklistarskóla þess
Skv. fyrstu drögum fjárlagafrumvarps var lítlilsháttar niðurskurður á framlagi til Bandalagsins. Vilborg og Lárus fóru á fund fjárleganefndar og virtist helst áhugi á að veita styrk til tækjakaupa fyrir handritasafn. Þau, ásamt Þorgeiri, fóru svo á fund Menntamálaráðherra sem sagðist ekki munu gera neitt sjálf í þessum málum heldur láta fjárlaganefnd það eftir ef þeir vilja breyta framlögum. Hún bað um sérstaka greinargerð um NEATA-hátíðina, helst snemma á næsta ári. Lárus leggur til að reynt verði að sækja peninga til Reykjavíkurborgar. Einnig ræddur möguleiki á að fá starfsfólk á launum frá borginni til verka eins og skönnun á handritasafninu. Þorgeir taldi ekki skynsamlegt að leita til einkaaðila um styrki til almenns rekstrar þegar fyrir liggur að halda stóra leiklistarhátíð eftir 2 ár.

7. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugasýningu ársins
Ekki vitað til þess að búið sé að skipa nýja nefnd. Vilborg sendir Tinnu póst.

Sérverkefni starfsársins:
1. Halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2008

Ekki hægt að gera neitt í því fyrr en ljóst er hvar aðalfundurinn verður haldinn. Ekki er enn ljóst hvort Reykhyltingar geta haldið hann vegna lélegs aðgengis fyrir fatlaða. Ákveðið að fela Ingólfi að athuga með möguleika í Eyjafjarðarsveit ef ske kynni að Reykhyltingar hrykkju úr skaftinu.

2. Hefja undirbúning NEATA-hátíðar 2010

Undirbúningsnefnd er skipuð Þorgeiri, Lárusi og Ólöfu. Norðandeild hennar er skipuð Ingólfi og Guðrún Höllu. Nefndin tekur að sér að gera tillögu að strúktúr hátíðarinnar fyrir næsta stjórnarfund. Þegar dagsetningar hafa verið ákveðnar þyrfti að gera samstarfssamning við Akureyrarbæ. Ákveðið að dagsetning hátíðarinnar á Akureyri sé 3.–8. ágúst 2010.

3. Að stjórn skipi formlega langtímanefnd sem haldi utan um starfsemi handritasafns í samvinnu við starfsmenn Þjónustumiðstöðvar
Nefndin, sem skipuð er Ármanni, Hrefnu Friðriksdóttur og Erni Alexandersyni hefur fundað og fyrsta verkefni hennar er að setja saman greinargerð um safnið þar sem fram koma helstu upplýsingar. Ármann er með hana í smíðum. Ákveðið að hún verði kynnt á næsta stjórnarfundi.

4. Að Margt smátt-stuttverkahátíðin verði haldin í haust í svipuðu formi og verið hefur
Margt smátt hátíðin var haldin þann 6. október sl. og tókst í alla staði vel þótt færri félög hefðu tekið þátt en áður. Lárus lýsti yfir efasemdum um forsendur þess að Bandalagið standi fyrir hátíð þar sem nánast einungis leikfélög af suðvestur-horninu taka þátt. Það væri jafnvel nær að leikfélögin þar héldu þetta sjálf. Aðrir bentu á að öllum aðildarfélögum stæði þátttakan til boða og að boð Borgarleikhússins væri til Bandalagsins, ekki ákveðinna félaga innan þess. Rætt um að minnka kostnað við prentun. Ármann skilar skýrslu framkvæmdanefndar fyrir næsta stjórnarfund.

5. Að stjórn leiti leiða til að tryggja faglega umfjöllun um leiksýningar áhugaleikfélaganna á Leiklistarvefnum
Þorgeir leggur til að fólkinu á „Mogga-listanum“ verði skrifað bréf þar sem það er spurt hvort að það sé til í að skrifa um leiksýningar í þeirra nærsveitum, án þess að bjóða greiðslu fyrir. Þorgeir tekur að sér skrifa bréfið.

3. Ábendingar – bókun frá aðalfundi 2007:
– Að stjórn kanni grunndvöll þess að standa að pakkaferð á NEATA-hátíðina í Riga 2008
Hjalti ætlar að athuga hvort einhverjar ferðaskrifstofur geti sett saman einhvern pakka. Ingólfur bendir á Ferðaskrifstofu Akureyrar, þeir hafa verið með svona ferðir.
– Að skólanefnd kanni þörf á að hafa leikmynda-, búninga- og ljósanámskeið í samstarfi við félögin víða um land
Skólanefnd ætlar að skoða málið og reyna að finna flöt á því.
– Að ljúka upplýsingahandbók fyrir stjórnir leikfélaga á næsta starfsári
Ármann talar við Sigríði Láru um hvar vinnan við handbókina sé stödd.
– Að starf búninganefndar haldi áfram og að stjórn móti hlutverk nefndarinnar
Embla hefur verið í sambandi við búningameistara Þjóðleikhúsins sem sagði okkur velkomið að pressa á það við ráðuneytið að búið verði til stöðugildi til að sjá um þetta. Lárus segist hafa heyrt að atvinnuleikhúsin og RUV væru að leita að geymslum undir búninga og leikmuni á Keflavíkurflugvelli.
– Að sótt verði um styrki hjá einkaaðilum vegna sögu Bandalagsins, handritasafns, leiklistahátíða og stuttverkahátíða
Verður skoða fyrir hvern atburð fyrir sig.

4. Samþykktar tillögur á aðalfundi 2007:
1. Stjórn Bandalagsins verði falið að setja af stað nefnd sem endurskoða skal lög Bandalagsins fyrir næsta aðalfund
Laganefnd, skipuð Þorgeiri og Guðfinnu, hefur haldið símafund og er að hefja vinnu við yfirferð laga. Ætlar að skila af sér tillögum á næsta stjórnarfundi.
2. Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga samþykkir að 1.500.000 kr. af verkefnastyrk ríkisins verði veitt í rekstur þjónustumiðatöðvarinnar
3. Að stjórn og framkvæmdastjóra Bandalagsins verði falið að selja húsnæði Bandalagsins að Laugavegi 96 og kaupa annað hentugra sem fyrst
Þar sem aðstæður á húsnæðismarkaði eru ekki hliðhollar og ekki hefur verið gert við leka á þaki verður ekki farið í þetta mál af fullum þunga að sinni.

5. Erlent samstarf frá síðasta fundi:
Vilborg; IATA- og NEATA-fundir í Kóreu – fundur í Kaupmannahöfn – Leiklistarhátíð í Litháen
Þorgeir; NAR-fundur í Svíþjóð
Sigrún Eyfjörð; NUTU-mál 2007 og 2008

Vilborg greinir frá helstu hræringum í alþjóðaleikhúsheimi áhugafólks. Rætt um evrópu-styrki til NEATA-hátíðarinnar 2010. Vilborg sagði að fundur um styrkjamál haldinn 3. september sl. í Kaupmannahöfn, hafi verið gjörsamlega óþarfur þar sem afar fátt nýtt hefði komið þar fram.
Þorgeir sagði frá hræringum á NAR-fundi þar sem Danir bökkuðu út úr því halda NUTU-skólann. Finnar ætla að halda hann í staðinn. Á NAR-fundinum var rætt um styrkveitingar og þá þróun að styrkir eru sífellt að verða meira verkefnatengdir. Ákveðið var að hvert land ætti leggja drög að einu styrkhæfu verkefni fyrir næsta fund. Við höfum tekið að okkur að sjáum skrifstofumót 2008 og t.d. væri hægt að leggja það fram sem okkar framlag.

Sigrún Eyfjörð, nýr NUTU-fulltrúi, mætti á fundinn. Hún greindi frá því að hún væri á leið til Finnlands á næstunni til að funda með stjórn NUTU um skóla næsta sumars. Hún sagði almenna ánægju nemenda með skólann, góðir kennarar og afar gagnleg námskeið. Hún sagðist ætla að beyta sér fyrir því að Ísland fyllti kvótann sinn á hverju ári þar sem það líti ekki vel út þegar sótt er um styrki ef námskeiðin eru bara hálfmönnuð. Sigrún tók að sér að skrifa kynningu á NUTU-skólanum til að senda á leikfélögin og framhaldsskólaleikfélög. Ætlar jafnframt að skrifa smá úttekt á skólanum síðasta sumar fyrir ársritið 2008.

6. Önnur mál

a. Saga Bandalagsins
Þorgeir ætlar að ræða við kápuhönnuð og hefur tekið að sér að bera saman próförk. Að því loknu er textavinnu við bókina lokið. Finna þarf fólk til að sjá um forsölu. Bjarni er að athuga með prentun í Finnlandi. Reiknað er með eintakið muni kosta um 5.000 kr.

b. Sýning fyrir NEATA-hátíðina í Riga
Frestur til að tilkynna Lettum hvaða sýning fer á hátíðina rennur út 1. mars. Ákveðið að umsókn fyrir Bandalagsfélög þurfi að berast til okkar ekki seinna en 15. febrúar svo hægt sé að velja á milli ef margar umsóknir berast.

c. Erindi frá Kjartani Ragnarssyni
Kjartan hefur hug á að vinna sýningu á gömlum þingstað í Borgarfirði þar sem sviðsett verður þing með öllu sem því fylgir. Sjálfsagt að kynna þetta fyrir aðildarfélögum en Bandalagið mun ekki beyta sér að öðrum leyti í þessu. Þorgeir heyrir í honum á næstunni.

d. Næsti fundur ákveðinn 19.–20. janúar 2008.

Fundi slitið um 14.30 laugardaginn 10. nóvember.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 9. og 10. nóvember 2007 580 20 nóvember, 2007 Fundir nóvember 20, 2007

Áskrift að Vikupósti

Karfa