Stjórnarfundur 9. og 10. júlí 2004

Haldinn í Þjónustumiðstöðinni við Laugaveg í Reykjavík.

Mættir:
Úr aðalstjórn: Einar Rafn Haraldsson, Hörður Sigurðarson, Guðrún Halla Jónsdóttir, Júlíus Júlíusson og Lárus
Vilhjálmsson.
Úr varastjórn: Ármann Guðmundsson, Embla Guðmunds-
dóttir, Margrét Tryggvadóttir og Sigríður Karlsdóttir.
Starfsmenn: Vilborg Valgarðsdóttir og Sigríður Lára
Sigurjónsdóttir.
Fjarverandi: Guðrún Esther Árnadóttir úr varastjórn.

Fundur settur kl. 17.00 þann 9. júlí.
Dagskrá fundar lögð fyrir. Samþykkt.

1. Úthlutun styrkja Menntamálaráðuneytisins vegna leikársins 2003 – 2004:
Farið yfir styrkumsóknir aðildarfélaganna og tillaga gerð að úthlutun styrkja Menntamálaráðuneytisins.
Alls sóttu 43 félög um styrki til 94 leiksýninga og leikþátta, 9 samsettra dagskráa, 17 leiklistarnámskeiða og 47 nemenda í Leiklistarskóla BÍL.
Stjórn getur einungis gert tillögu um styrk þegar fyrir liggur gild umsókn og gögn skv. úthlutunarreglum BÍL og því var eftirfarandi umsóknum hafnað:

Umsókn frá Leikfélagi Hólmavíkur vegna kvikmyndar. Kvikmyndir flokkast ekki sem starfsemi áhugaleikfélaga enda hægt að sæka um styrki vegna þeirra úr öðrum sjóðum.
Umsókn frá Leikfélagi Hörgdæla vegna lesturs á Passíu-
sálmum. Ekki er veittur styrkur fyrir leiklestra.
Umsókn frá Hugleik vegna leiklesturs. Ekki er veittur styrkur fyrir leiklestra.  
Umsókn frá leikdeild Umf. Íslendings vegna Idol söngvara-keppni. Ekki eru veittir styrkir fyrir söngvarakeppnir.  

Eftirfarandi umsóknir um sérstakt frumkvæði skv. lið D 4. voru samþykktar:
Umsókn frá Leikfélaginu Hugleik (f. Sirkus) samþykkt vegna glæsilegrar búninga og leikmyndarvinnu.
Umsókn frá Leikfélagi Selfoss (f. Gaukshreiðrið) samþykkt vegna glæsilegrar  leikmyndarvinnu og vandaðrar hljóðmyndar.
Umsókn frá Leikfélagi Dalvíkur (f. Svarfdælasögu) samþykkt fyrir frumlega uppsetningu, gervi og grímur.
Umsókn frá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs (f. Gaukshreiðrið) samþykkt vegna vandaðrar hljóðmyndar.
Umsókn frá Leikfélaginu Sögu (f. Hamslaus) samþykkt fyrir frábæra vinnu við spunaverk.
Umsókn frá Freyvangsleikhúsinu (f. Ronju ræningjadóttur) samþykkt fyrir glæsilega búninga og brúður.

Samþykkt að fara yfir og breyta úthlutunarreglum síðar á fundinum.
 
2. Fundargerðir síðustu tveggja stjórnarfunda og aðalfundar yfirfarnar.
Athugasemdir varðandi starfsáætlun ræddar undir 3. lið. Fundargerðir samþykktar án efnislegra athugasemda.

3. Starfsáætlun leikársins 2004-2005:
Rekstur fasteignar:
Rætt um viðhaldsáætlun sem nær til næstu ára eftir því sem fjárhagur leyfir. Framkvæmdarstjóra falið að gera kostnaðaráætlun í samstarfi við húseiganda á efri hæð.

Ársrit 2003-2004:
Efnisöflun í ársrit gengur vel, ákveðið að hafa það með svipuðu sniði og áður. Ákveðið að Lárus skrifi leiðara í ritið þar sem vakin er athygli á leiklistarhátíð 2005.

Leiklistarskóli BÍL:
Námskeiðsáætlun fyrir skólann kemur í haust.

Leiklistarvefurinn:
Fundargerð fundar Harðar og Vilborgar með Vefsýn yfirfarin. Verið er að endurhanna spjallþræði. Kerfi til að birta vörur verslunarinnar á vefnum er að mestu leyti tilbúið og að sama skapi kannanakerfi. Hvortveggja verður sýnt vefnefnd um miðjan júlí og væntanlega tekið í gagnið fljótlega eftir það. Athuga með að kaupa Soloforms sem er eyðublaðakerfi til að fólk geti fyllt út umsóknir á vefnum. Menn eru sammála um að þetta yrði vinnusparnaður og aukið öryggi.

Auknar styrkveitingar frá ríkinu:
Panta viðtalstíma hjá fjárlaganefnd og jafnvel að tala við einstaka nefndarmenn til að þrýsta á hækkanir á ríkisstyrk. Hitta þarf nýskipaðan menntamálaráðherra. Styrkurinn hefur ekki hækkað um árabil.

Áframhaldandi samstarf við Þjóðleikhúsið:
Spurning um hvort um samstarf er að ræða varðandi Þjóðleikhúsið og athyglisverðustu áhugasýningu ársins. Nokkrar umræður spunnust um gildi þjóðleikhús samkepp-nninnar fyrir félögin og forsendur valnefndar fyrir ákvörðun sinni. Rifjuð upp sagan á bakvið keppnina um athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins, rifjað upp hvernig upphaf verkefnisins hljóðaði þegar það kom fyrst fram á bandalags-þingi 1993 og þróunin í valnefnd síðan þá.
Sérverkefni:
Haustfundur 2004:
Haustfundur þarf að færast til annarrar helgar í október, frá þeirri fyrstu. Júlíus og Guðrún Halla sjá um undirbúning haustfundar á Akureyri.

Stuttverkahátíð í Borgarleikhúsinu 23. október 2004:
Nokkrar umræður spunnust um tímamörk og framkvæmd hátíðarinnar. Hvað þarf að laga frá fyrra ári. Undir-
búningsnefnd lagði fram drög að skipulagi sem voru rædd og samþykkt. Nefndin hefur heimild stjórnar til að leita sér aðstoðarfólks.

Leiklistarhátíð á Akureyri 22. – 26. júní 2005:
Undirbúningur hennar er þegar hafinn. Leitað verður eftir styrkjum í lok ágúst hjá fyrirtækjum á Akureyri og nágrenni, vonandi verða komin svör fyrir haustfund.

4. Gríman – íslensku leiklistarverðlaunin.
Umræður um punkta varðandi aðkomu BÍL að Grímunni sem starfsmenn skrifstofu hafa tekið saman, en þeir eru eftirfarandi:.

Sem aðili að Leiklistarsambandi Íslands á Bandalagið rétt á að taka þátt í Grímunni – Íslensku leiklistarverðlaununum í a.m.k. einum verðlaunaflokki, Besta áhugasýning ársins.
* Okkur sýnist að um 10 manns væri góður fjöldi í valnefnd-ina sem Bandalagið mun sjálft skipa, þess vegna mætti hún samanstanda af stjórn og varastjórn, en jafnan er jú haft að leiðarsljósi að sá hópur samanstandi af fólki víðs vegar að af landinu.
* Öllum félögum verði gert að senda inn upptökur af öllum sýningum strax eftir frumsýningu. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að allir sjái allar sýningar á sviði, þannig að menn þyrftu að reyna að sjá það sem þeir gætu og sjá síðan það sem eftir er á myndbandi. Félögum yrði gert að senda upptökur til bandalagsins svo fljótt sem auðið væri eftir hverja sýningu þannig að vinna valnefndarinnar dreifðist sem jafnast yfir veturinn.
* Kosning yrði haldin með svipuðu sniði og í “hinni” valnefndinni, þ.e.a.s. fyrst yrði kosið um hvaða 5 sýningar skuli tilnefndar og í seinni umferð hver vinnur. Þetta býður einnig upp á möguleika um að valnefndin kjósi um fleira en bestu sýninguna, jafnvel í sömu flokkum og í Grímunni, en þær niðurstöður gætum við þá birt á vefnum, og jafnvel haft verðlaunaafhendingu á bandalagsþingi, eftir því hvað mönnum þykir viðeigandi í því efni. Fyrri umferð kosninga fer þannig fram að valnefndin fær senda atkvæðaseðla sem henni er gert að senda inn fyrir ákveðinn tíma. Seinni umferð fer fram “á einum stað” þar sem menn kjósa á milli þeirra sýninga sem tilnefndar eru eftir fyrri umferð.

Umræður:
Mönnum leist vel á tillögu um vinnulag, sérstaklega varðandi tillöguna að því að félögin sendu inn upptökur um leið og sýningum er lokið og að stjórnar og varastjórnarmenn skoði allar upptökurnar. Einnig hluti af því að gera starfsemina sýnilegri út á við og gæti hjálpað til við fjáröflun hreyfingunni til handa. Tryggja þarf að bandalagið sé á góðum stað í dagskrá Grímunnar ef af verður. Vangaveltur um að gera athuga-semdir þess efnis að handrit ársins skuli valin úr öllum frumsömdum leikverkum sama hvort um er að ræða áhuga eða atvinnusýningar. Ákveðið að gera prufu að okkar eigin Grimuhátíð fyrir næsta leikár, prufuvalnefnd verður stjórnin. Ef vel tekst verður rætt um framhaldið á næsta aðalfundi.
Rætt um að síðar verði jafnvel fjölgað í valnefndinni, hugsanlega kysi aðalfundur fólk sem ætti að sitja í henni, auk stjórnarmanna.

5. Erlent samstarf.
Vilborg skýrir frá því að þeir úr aðalstjórn sem komast og starfsmenn skrifstofu fari á leiklistarhátíð og fund hjá NEATA í Viljandi í Eistlandi í byrjun ágúst n.k.. Nú sendum við fimm manns í stað eins sem færi venjulega á slíka samkomu. Rétt þótti að gera þetta í ljósi leiklistarhátíðar sem bandalagið heldur 2005.
Samþykkt að bandalagið greiði kr. 300.000 til þessa liðar, það sem útaf stendur greiði Eistlandsfarar sjálfir.

6. Starfsreglur um skipan í nefndir.
Starfsreglur þykir vanta um skipan fastanefnda. Umræða um skólamál. Rætt var um að athuga aðgengi fatlaðra að leiklistarskólanum, til dæmis með námskeiðshaldi á öðrum stöðum en á Húsabakka. Ljóst er að við höfum ekki yfir þeim húsakynnum að ráða. Eins að skoða aðgengi að þjónustu-miðstöð bandalagsins. Til dæmis með stólalyftu. Athuga með styrki úr framkvæmdasjóði fatlaðra.

7. Samskipti stjórnarmanna.
Hugmynd um að lokaður spjallþráður sé í gangi á netinu þar sem samskipti stjórnar á milli funda koma fram og séu geymd á einum stað. Mikilvægt að stjórnarmenn séu með á hreinu hvert þeirra hlutverk er varðandi verk sem þeim eru falin af stjórn, fari eftir stjórnarsamþykktum og sjái stjórnarmenn sér ekki fært að sinna þeim verkefnum sem þeim er ætlað vegna anna eða annars þá hafi þeir samband við aðra stjórnarmenn og komi af sér verkefnum. Umræða um hvort æskilegt væri að setja reglur um hversu lengi menn megi sitja í stjórn. Ákveðið taka þau mál til umræðu á haustfundi.

8. Önnur mál:

a. Úthlutunarreglur.  
Stjórn samþykkir tillögu um breytingar á úhlutunarreglum fyrir næsta leikár þannig að aðeins verði veittur styrkur fyrir leikverk og námskeið. Styrkur vegna leikverks gerir ráð fyrir að leikverk í fullri lengd sé 90 mínútur. Síðan verði veitt álag vegna frumflutnings 30% og vegna sérstaks frumkvæðis 20%. Námskeiðstyrkir og styrkur vegna Leiklistarskóla BÍL verða óbreyttir. Stjórn áréttar að á næsta ári verða ekki teknar til greina umsóknir sem berast eftir að umsóknarfrestur
rennur út og  einnig þær sem ekki fylgja viðeigandi gögn, s.s. upptökur af sýningum.

b. “Fósturhugmynd” af aðalfundi.
Á aðalfundi kom fram tillaga um að stjórnarmenn hefðu betra samband við aðildarfélögin með því að hver og einn tæki að sér nokkur félög og yrðu þar með þeirra tengiliðir eða n.k. þjónustufulltrúar. Nokkrar umræður spunnust um málið.
Vilborg stingur upp á að stjórnarmenn byrji á að hringja í félögin vegna breyttra úthlutunarregla, kröfu um að senda myndbönd strax að sýningum loknum, stuttverkahátíðar, leiklistarhátíðar 2005 ofl. til að fullvissa sig um að allir formenn séu með á nótunum og svara þeim spurningum sem upp kunna að koma. Starfsmenn skrifstofu skipta aðildarfélögunum niður á stjórnarmenn. Skrifstofa sér um erlend félög.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 20.00 þann 10. júlí.
Lárus Vilhjálmsson ritari.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 9. og 10. júlí 2004 679 07 september, 2005 Fundir september 7, 2005

Áskrift að Vikupósti

Karfa