Stjórnarfundur 6. og 7. júlí 2007

Fundur stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga
haldinn 6. og 7. júlí 2007 að Laugavegi 96 í Reykjavík.

Fundur settur kl. 18.00 þann 6. júlí.

Mættir: Þorgeir Tryggvason, Lárus Vilhjálmsson, Ingólfur Þórsson, Margrét Tryggvadóttir, Guðfinna Gunnarsdóttir, Ármann Guðmundsson, Ólöf Þórðardóttir, Hjalti Kristjánsson, Vilborg Árný Valgarðsdóttir og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir.

1. Úthlutun styrkja menntamálaráðuneytisins fyrir leikárið 2006-07

Stjórn fór yfir umsóknir og gerði tillögu að úthlutun. (Sjá nánar í yfirliti.)
Eftirtöldum umsóknum um styrki var hafnað:

1. Umsókn frá Hugleik um styrk vegna 25 tíma leiklistarnámskeiðs hjá Benedikt Erlingssyni þar sem styrkur var veittur vegna afraksturssýningar námskeiðsins. Venja er að veita aðeins fyrir sýningar í slíkum tilfellum, þar sem námskeiðið telst vera æfingatímabil sýningarinnar.

2. Umsókn frá Leikfélagi Selfoss um styrk vegna einþáttungsins Skór þar sem um leiklestur var að ræða.

3. Umsókn frá Leikfélagi Seyðisfjarðar um styrk vegna verkefnisins 50/50 Leikfélagið 50 ára þar sem um leiklestra var að ræða.

4. Umsókn frá Leikfélagi Vestmannaeyja um styrk vegna 35 stunda námskeiðs, hafnað þar sem afraksturssýningu námskeiðsins var veittur styrkur. Sjá einnig rökstuðning með höfnun 1.

5. Umsóknum frá Leikfélaginu Sýnum um styrk vegna tveggja götuleikhúsverkefna þar sem ekki varð séð af gögnum að um heildstæðar leiksýningar væri að ræða.

Eitthvað var um að mynddiskar virkuðu ekki hjá stjórnarmönnum og örfáar upptökur höfðu glatast. Ákveðið var að ræða slík tilfelli sérstaklega. Einnig verða umsóknir um viðbótarstyrk vegna sérstaks frumkvæðis skoðaðar sérstaklega.

a) Upptökur sem vantar:

Ólæsilegir mynddiskar:
Tveir einþáttungar frá Leikfélagi Kópavogs – Reynt verður að fá annan disk.
Trúðaskólinn hjá Leikfélagi Hornafjarðar – Líklegt að um mistök í fjölföldun sé að ræða. Reynt verður að fá annan disk um leið og næst í formann félagsins.

Upptökur sem hafa glatast:
Þú ert enginn Johnny Depp, Stúdentaleikhúsið – Kveðst hafa sent eintak á skrifstofuna fyrr í vetur, en skrifstofan kannast ekki við að hafa móttekið. Fleiri eintök af upptöku ekki til.
Öskubuska, Leikfélag Keflavíkur – Fyrir mistök sendu þau aðeins hljóðupptökur af tónlistinni. Mynddiskur verður sendur við fyrsta tækifæri.
Allra meina bót, Leikfélag Seyðisfjarðar – Helmingurinn af því er kominn, en þau finna ekki hinn helminginn í svipinn. Upptaka verður send um leið og hún finnst.
Grease, Leikfélag Mosfellssveitar – Upptaka glataðist vegna vatsskemmda í heimahúsi.

Samþykkt var að veita styrki fyrir þessi verk með því skilyrði að þær upptökur sem til væru yrðu sendar. Ljóst var að í öllum tilfellum er þarna um mistök, tæknibilanir eða aðrar óviðráðanlegar aðstæður að ræða.

b) Umsóknir um viðbótarálag fyrir sérstakt frumkvæði:

Umsókn Halaleikhópsins um frumkvæðisstyrk vegna sýningarinnar Batnandi maður samþykkt vegna viðamikillar, frumsaminnar hljóðmyndar.

Umsókn Hugleiks um frumkvæðisstyrk fyrir verkið Epli og eikur samþykkt vegna viðamikillar, frumsaminnar tónlistar.

Umsókn Hugleiks um frumkvæðisstyrk fyrir verkið Mikið fyrir börn hafnað þar sem ekki var um frumflutta tónlist að ræða.

Umsókn Leikfélags Dalvíkur um frumkvæðisstyrk fyrir Sambúðarverki hafnað þar sem rökstuðningur þótti ófullnægjandi.

Umsókn Leikfélags Fljótsdalshéraðs um frumkvæðisstyrk vegna verksins Listin að lifa samþykkt vegna viðamikillar og frumsaminnar hljóðmyndar.

Umsókn Leikfélags Hornafjarðar um frumkvæðisstyrk vegna Trúðaskólans var hafnað þar sem tónlistin þótti ekki nægilega stór hluti sýningarinnar.

Umsókn Leikfélags Hólmavíkur um frumkvæðisstyrk vegna leikferðar með Þið munið hann Jörund til Bolungarvíkur hafnað þar sem leikferðir eru almennt ekki metnar sem ástæða til veitingar frumkvæðisstyrks.

Umsókn Leikfélags Keflavíkur um frumkvæðisstyrk vegna Öskubusku hafnað þar sem rökstuðningur þótti ófullnægjandi.

Umsókn Leikfélags Rangæinga um frumkvæðisstyrk vegna sýningarinnar Getraunagróða hafnað þar sem rök þóttu ófullnægjandi fyrir frumkvæðisstyrk þó svo að endurvakning á menningarstarfsemi í gömlu og merkilegu félagsheimili þætti vissulega gott framtak.

Umsókn Leikfélag Siglufjarðar um frumkvæðisstyrk vegna sýningarinnar Láttu ekki deigan síga, Guðmundur, hafnað þar sem rök þóttu ónóg.

Umsóknir leikfélagsins Peðsins um frumkvæðisstyrk fyrir sýningarnar Barpera og Jólapera samþykktar vegna viðamikillar og frumsaminnar tónlistar og öflugs starfs félagsins á sínu fyrsta leikári.

Umsókn Leikklúbbsins Spuna um frumkvæðisstyrk vegna sýningarinnar The Seven Divas hafnað þar sem rökstuðningur þótti ófullnægjandi.

Umsókn Sólheimaleikhússins um frumkvæðisstyrk vegna sýningarinnar Blái Hnötturinn samþykkt vegna frumsaminnar tónlistar.

Umsókn Umf. Stafholtstungna um frumkvæðisstyrk vegna verksins Ása í ástandinu samþykkt vegna frumflutnings á áður óþekktu verki eftir einstakling úr sveitinni.

Umsókn Stúdentaleikhússins um frumkvæðisstyrk vegna leikritsins Examinasjón samþykkt vegna frumsaminnar tónlistar.

Umsókn Leikfélags Kópavogs um frumkvæðisstyrk vegna sýningarinnar Allt og ekkert hafnað þar sem rökstuðningur þótti ófullnægjandi.

Umsókn Hugleiks um frumkvæðisstyrk fyrir verkið Einu sinni var… hafnað þar sem rökstuðningur þótti ófullnægjandi.

2. Fundargerð aðalfundar 2007 og fundargerð umræðufundar frá 4. maí.
Fundargerðir yfirfarnar og samþykktar.

Fundi frestað kl. 23.00 og haldið áfram kl. 9.00 þann 7. júlí.

Mættir: Þorgeir, Lárus, Ingólfur, Margrét, Ármann, Ólöf, Hjalti, Guðfinna og Vilborg.

3. Starfsáætlun leikársins 2007-08.

Almenn starfsemi
1. Fjárhagstaða frekar slæm eins og gjarnan á þessum árstíma.

2. Verið er að bíða eftir að ÍSTAK gangi almennilega frá eftir framkvæmdir, þétti þak yfir handritageymslu og hreinsi sand af þaki.
Vilborg vill setja húsnæðið á sölu með haustinu. Stefnt á að halda stjórnarfund um mánaðarmót sept./okt. og þar verði áhersla lögð á húsnæðismálin.

3. Efnisöflun fyrir ársrit er í fullum gangi. Vinna við uppsetningu hefst í lok ágúst.

4. Ýmsum hugmyndum velt upp varðandi námskeið fyrir leiklistarskólann. T.d. tónlistnámskeið og þúsund þjala námskeið í fyrirlestraformi, svipað og haldið var fyrir 2 árum.
Þorgeir átti símafund með forráðamönnum Austur-Héraðs. Þeir mjög áhugasamir um að Hallormsstaður verði næsti samastaður skólans. Þeir hafa gert samstarfssamning við Menntamálaráðuneytið um að vera sveitarfélag sem leggur áherslu á sviðslistir, þannig passar rekstur leiklistarskóla vel inn í þeirra áætlanir. Vandamálið aðallega tímasetningin, þau vilja hafa þetta vikunni fyrr en við. Á framhaldsfundi á Bandalagsskrifstofunni voru fjármál rædd og þeim gerð grein fyrir hvað við erum að borga fyrir Húsabakka. Næsta skref er að fulltrúi okkar fari austur og eigi fund þar sem allir hnútar verði leystir. Einnig þarf að leggja áherslu á að gengið verði frá aðgengismálum þannig að ásættanlegt sé.

5. Þorgeir dustaði rykið af hugmynd að vefpistlum þar sem menn deila reynslu af því sem þeim þykir spennandi í starfi sínu, svo sem velheppnuðum námskeiðum og góðu leikhúsfólki. Ákveðið að huga að fyrir næsta fund hvernig og hverja hægt er að fá til að auglýsa á vefnum. Þorgeir veltir upp möguleika á að nýta þá vinnu sem lögð var í að finna gagnrýnendur fyrir Morgunblaðið fyrir leiklistarvefinn, hvort sem það er borgað fyrir það eða ekki. Ef farið yrði af stað með þá vinnu þyrfti að tryggja að það næði til alls landsins. Hugsanlega mætti bjóða fyrirtækjum borða á leiklistarvefnum gegn því að þau fjármagni þetta, alla vega að hluta til.

6. Ákveðið að reyna að fá fund hjá menntamálaráðherra varðandi hækkun á framlögum. Jafnframt þarf að fá fund hjá fjárlaganefnd í haust. Leggja þarf áherslu á hækkun styrks til þjónustumiðstöðvar og reyna að fá styrk rekstrar leiklistarskólans. Einnig þarf að kynna fyrir ráðherra Leiklistarhátíðina 2010 og fá til hennar fjármagn.

7. Við notum Þjóðleikhússýninguna alls ekki nóg sem möguleika til kynningar á Bandalaginu og starfsemi aðildarfélaga þess.

Sérverkefni starfsársins
1. Ákveðið að halda Bandalagsþing og einþáttungahátíð 2008 í Reykholti ef aðgengi fyrir fatlaða er þar viðunandi.

2. Rætt um fjármögnun NEATA-hátíðar. Velt upp möguleika á að fá flugfélag til að sponsora ferðir. Einnig þann möguleika að fá fyrirtæki til að sponsora hverja sýningu fyrir sig. Negla þarf niður tímasetningar þar sem verslunarmannahelgi á Akureyri er ekki fýsilegur kostur. Til greina koma 21. – 25. júlí eða 4. – 8. ágúst. Ákveðið að Þorgeir setji sig í samband við leikfélögin á NA-landi og falist eftir þátttöku þeirra í undirbúningi fyrir hátíðina.

3. Þorgeir leggur fram tillögu að tveimur skipunarbréfum nefnda, handritssafnsnefnd og nefnd til endurskoðunar laganna. Þær samþykktar. Í nefnd um handritasafn sitja Ármann, Hrefna Friðriksdóttir og Örn Alexandersson.
(Seinni nefndin, sjá lið d hér á eftir).

Fulltrúar úr undirbúningsnefnd Margt smátt gerðu grein fyrir stöðu mála. Ákveðið hefur verið að halda hátíðina í Litla sal Borgarleikhússins 6. október.

4. Ályktanir og samþykktar tillögur frá síðasta aðalfundi.
a) Stjórnarmenn skipta á milli sín fjárlaganefndarfólki og hyggjast hafa samband við það fyrir fund sem formaður og jafnvel fleiri stjórnarmenn ætla að eiga með nefndinni í haust.

b) Rætt um framkvæmd á tillögu frá aðalfundi um að safna í pakkaferð á NEATA-hátíðina í Riga 2008.

c) Í ljós hefur komið að hugmyndir Þjóðleikhússins um að afhenda okkur búningasafn voru talsvert aðrar en Bandalagsins. Ákveðið að athuga með möguleika á að fulltrúi Bandalagsins hafi aðgang að búningsafni Þjóðleikhússins.

d) Ákveðið að stofna tveggja manna nefnd sem gera á tillögur að breytingum á lögum Bandalagsins og skilar niðurstöðum á fyrsta stjórnarfundi 2008. Nefndina skipa Þorgeir og Guðfinna.

5. Erlent samstarf
Almenn ánægja er með þá lausn á styrkumsókn frá NUTU að borga fyrir fulltrúa Íslands en styrkja það ekki frekar að sinni.

6. Önnur mál:
a) Laun starfsmanna endurskoðuð skv. samningum
Formaður og varaformaður munu ganga í málið í næstu viku.

b) Ritaraskipti í ágúst
Sigríður Lára lætur af störfum þann 15. ágúst og við tekur gamlalkunnur starfsmaður og varastjórnarmaður, Ármann Guðmundsson.

Fundi slitið kl. 14.00.

Fundargerð rituðu Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Ármann Guðmundsson.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 6. og 7. júlí 2007 569 12 júlí, 2007 Fundir júlí 12, 2007

Áskrift að Vikupósti

Karfa