Stjórnarfundur 6. – 8. janúar 2006

Haldinn á Grjóteyri í Borgarfirði 6. – 8. janúar  2006

Föstudagur 6. janúar

Mætt:
Guðrún Halla Jónsdóttir, Hörður Sigurðarson, Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ármann Guðmundsson, Ólöf Þórðardóttir og Vilborg Árný Valgarðsdóttir.

1. Fundargerð síðasta fundar
Farið yfir fundargerð síðasta fundar. Ýmislegt ógert af því sem fólk hefur tekið af sér. Lofað bót og betrun. Vilborg gerir grein fyrir stöðu mála á erindi sem sent var Grímunefnd varðandi það að leikrit sem frumsýnd eru hjá áhugaleikfélögum komi til greina við úthlutun Grímunar. Erindið verður borið undir aðalfund Grímunar næsta sumar.
Fundargerð samþykkt.

2. Starfsáætlun
Vilborg kynnti bráðabirgðauppgjör. Miðað við leiklistarhátíð á árinu er fjárhagstaða viðunandi, rekstur þjónustumiðstöðvar í járnum.

Lítið gerst í viðhaldsmálum þjónustumiðstöðvar, þak yfir handritssafni byrjaði að leka enn einu sinni vegna framkvæmda á lóðinni við hliðina.

Ársrit komið út með hefðbundnu sniði.

Umræðu um Leiklistarskólann frestað uns Gunnhildur Sigurðardóttir skólameistari mætir á svæðið.

Hörður gaf skýrslu um vefinn. Aðsókn virðist hafa minnkað eftir að nýja kerfið var tekið upp. Gæti þó stafað af mismunandi talningu umsjónarkerfa. Ákveðið að prófa að aflétta innskráingu af spjalli. Verkaskipting vefnefndar rædd. Ákveðið að ýta á leikfélögin að nýta sér auglýsingaborða (5.000 kr. tvær vikur, 2.000 á viku eftir það). Halla taldi nauðsynlegt að reyna auka sýnileika landsbyggðaleikfélaga á vefnum miðað við höfuðborgarsvæðisfélögin.

Rætt um að útbúa handbók áhugaleikfélaganna sem inniheldur allar helstu upplýsingar sem leikfélög þurfa að hafa í huga.

Framlög ríkisins hækkuðu um eina milljón frá síðasta ári eftir nokkurra ára stöðnun. Betur má ef duga skal.

Fundi frestað til morguns

Laugardagur 7. janúar

Mætt: Guðrún Halla, Hörður, Embla, Margrét, Ármann, Ólöf, Vilborg og Lárus Vilhjálmsson
Tekin upp umræða um vef. Lárus gagnrýndi val á forsiðuefni.

Athyglisverðasta áhugaleiksýningin
Þjóðleikhúsið hefur skipað nefndina. Hana skipa Hlín Agnarsdóttir, Tinna Gunnlaugsdóttir, Þórhallur Sigurðsson og Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Nefndin virðist ætla að fara sér rólega og hefur ekki sótt sýningar sem þó hafa verið á höfuðborgarsvæðinu. Ætlunin er að fá fund hjá Tinnu og ræða þessi mál og önnur.

Útgáfa sögu Bandalagsins
Bjarni Guðmarsson hefur skrifað sig í gegnum bókina og stjórn fengið hana til aflestar. Athugasemdir gerðar við að eitthvað er um staðreyndavillur og því þörf á vandlegum yfirlestri. Enn hafa ekki verið valdar myndir í bókina en sögunefnd ætlar að hafa myndafund 26. janúar. Ákveðið að hafa bókina tilbúna til prentunar 1. september n.k.  Athuga þarf hvort það er inni í samningi við Bjarna að ganga endanlega frá bókinni, (vinna myndir til prentunar og brjóta um handritið), annars gera aðrar ráðstafanir.

Hrund Ólafsdóttir mætir

Samstarf við Borgarleikhúsið
Farið yfir hvað leikfélögin hafa sagt um áhuga á Margt smátt/einþáttungahátíð og aðalfund í Reykjavík. Stjórnarmenn hafa verið misduglegir við að hringja í fósturfélögin en almennt virðist fólk jákvætt fyrir fundi í Reykjavík og það yki frekar en hitt líkur á að fólk sendi leikþátt ef þetta væri samtengt. Hrund greindi frá samræðum við Guðrúnu Vilmundardóttur í Borgarleikhúsinu. Ekki virðist hafa verið alveg sameiginilegur skilningur á því hvernig Borgarleikhúsið kemur að þessu. Ljóst er að við yrðum að sjá að mestu kynningarmál.

Umræða um aðalfund. Spurning um hvort halda á fundinn á stór-Reykjavíkursvæðinu eða annars staðar. Helstu rök fyrir að halda hann á stór-Reykjavíkursvæðinu eru þau að það sé tilraunarinnar virði að athuga hvort það laði fleiri félög að.
Ákveðið að halda fundinn á stór-Reykjavíkursvæðinu og senda tölvupóst á öll leikfélögin þar og skoða áhuga þeirra á að skipuleggja fundinn. Fá þau vikufrest til að svara og skrifstofan ákveður svo hver hreppir hnossið.

Ákveðið að halda einþáttungahátíð samhliða aðalfundinum. Mjög skiptar skoðanir um hvar og undir hvaða nafni á að halda hátíðina, ýmist vildi fólk halda hátíðina í Borgarleikhúsinu og undir nafninu Margt smátt eða halda hana annars staðar undir öðru nafni. Rökin með því fyrrnefnda eru m.a. þau að helstu ástæður dræmar þátttöku hafi verið tímasetningin og gefa eigi nýrri tímasetningu tækifæri. Einnig hafi það meiri pr-slagkraft að vera í Borgarleikhúsinu og öll aðstaða sé þar tiptop. Það muni ekki hafa nein merkjanleg áhrif á mætingu að vera í Borgarleikhúsinu. Mótrökin eru að Margt smátt-nafnið hafi ákveðin formerki í huga fólks og það fæli fólk frá. Þetta eigi fyrst og fremst að vera hópelfi áhugaleikfélaga og það náist betur ef skorið er á Borgarleikhús/Margt smátt-tengslin.

Ákveðið að halda Margt smátt í Borgarleikhúsinu en setja engin skilyrði önnur fyrir þátttöku en að verkið fari ekki yfir tilskylda hámarkslengd. Framkvæmdanefnd skipuð Ármanni og Ólöfu auk þess sem talað verður við Ásu Hildi Guðjónsdóttur í Halaleikhópnum.

Gunnhildur Sigurðardóttir mætir

Leiklistarskólinn
Gunnhildur telur að nú á 10 ára starfsafmæli skólans sé rétti tíminn til að líta um öxl og svo fram á við. Þær Sigríður Karlsdóttir hafa ákveðið að láta af störfum eftir sumarið og því sé nú tækifæri að vega og meta hvað hefur áorkast.
Þær vilja að haldin verði vegleg lokaveisla í skólanum næsta sumar þangað sem öllum fyrrverandi nemendum og kennurum verði boðið.

Ýmsar hugmyndir eru í gangi, m.a. samstarf við Listaháskólann. Einnig að rannsaka hvernig skólinn hefur nýst út í leikfélögin. Skólanefnd falið að gera spurningarlista fyrir 15. mars. Hann verði síðan sendur félögunum og stjórn hringir í formenn eftir svörum.

Hörður lagði til að haldinn yrði málfundur um skólann, t.d. á haustfundi.

Hugmyndir líka um að bjóða Menntamálaráðherra einn dag í skólann.

Gunnhildur fer

3. Hringt í leikfélög
Fólk gerði grein fyrir símtölum sínum við formenn.

Lárus gerir grein fyrirhugðuðum breytingum á Félagsheimilasjóði. Ætlunin er að sameina hann öðrum sjóðum, meiningin er að hluti hans renni til Bandalagsins og stjórn þess sjái um að úthluta ferðstyrkjum framvegis.

4. Gagnrýni Morgunblaðsins
Ákveðið að stjórn sendi bréf þar sem harmað er að gagnrýni á sýningar áhugafélaga úti á landi hefur verið lögð af, Hörður tekur að sér að gera uppkast. Jafnframt ákveðið að hvetja formenn leikfélaga til að gera slíkt hið sama. Sem fyrst.

5. NEATA hátíð 2010
Ákveðið að stefna að því að halda hátíðina. Jafnframt ákveðið að fara fram á viljayfirlýsingu um að Akureyrarbær standi að hátíðinni með okkur.  Halla talar við Kristján Þór bæjarstjóra. Farið verður fram á formlegt umboð næsta aðalfundar til að halda hátíðina. Finna þarf tvo aðalstyrktaraðila. Byrja á að leita til styrktaraðila á stór-Akureyrarsvæðinu. Jóhannes í Bónus, Björgólf, Benna í KEA, Arngrím og Magnús í Avion Group og Eimskip. Sú vinna þarf að hefjast sem fyrst.

6. Afmæli fyrrverandi formanns
Einar Rafn Haraldsson, formaður Bandalagsins til 10 ára, verður sextugur þann 25. febrúar n.k.

7. Fulltrúi Íslands í NUTU – eða ekki?
Mjög skiptar skoðanir um hvort fulltrúi Íslands í NUTU sé fulltrúi Bandalagsins eða í raun á eigin vegum. Ákveðið að fresta ákvörðun til næsta stjórnarfundar.

Fundi frestað til morguns

Sunnudagur 8. janúar

Mætt: Guðrún Halla, Hörður, Embla, Margrét, Ármann, Ólöf, Vilborg, Lárus og Hrund

8. Búningasafn Þjóðleikhússins
Búningar fást ekki lánaðir hjá Þjóðleikhúsinu vegna þess að búningadeildin vill fá starfsmann til að sinna þessu en fær ekki. Ákveðið að ræða þetta við Þjóðleikhússtjóra ásamt fleiri málum sem lúta að samstarfi okkar. Vilborg skrifar Tinnu bréf.

9. Erindi frá Menntamálaráðuneyti um UNESCO
Ólöf fór á kynningarfund um UNESCO sem hún sagði gjörsamlega gagnlausan. Ákveðið að svara erindinu en gera ekki athugasemd.

10. Erindi frá Snorra Emilssyni
Leikfélag Seyðisfjarðar hefur verið að athuga hvort það borgar sig að láta midi.is sjá um miðasölu á netinu. Mun senda erindi um málið.

11. Handritasafn á tölvutækuformi
Ármann segir frá hugmyndum sem komu fram á aðalfundi Félags leikskálda og handritshöfunda um að safna öllum íslenskum leikritum saman á einn stað í tölvutæku formi. Nefnd var skipuð og átti hún m.a. að leita eftir samstarfi við Bandalagið. Ármann taldi að Bandalagið ætti að taka frumkvæðið í þessu máli enda einsýnt að þetta verði ekki gert án þess að við tökum þátt í því. Með sameiginlegu átaki þessara aðila og e.t.v. fleiri sem málið er skylt væri örugglega hægt að fá styrki til verkefnisins.

Lárus bendir á að þetta væri dæmigert verkefni sem Safnaráð styrkti. Til þess þyrfti að skilgreina verkefnið og sækja um. Einnig þyrfti að fá handritasafnið samþykkt formlega sem safn. Ákveðið að finna út úr því að vera formlegt safn.

12. Ímyndarvandi Bandalagins
Ármann leggur fram lista yfir snertipunkta Bandalagsins við umheiminn, þar sem möguleikar eru á að hafa áhrif á ímynd þess.
Hrund bendir á hve mikil þörf er fyrir leiklist í samfélaginu og það þurfi alltaf að vera minna á það. Lárus veltir upp hugmynd um að skipa erindreka sem hafi það hlutverk að fara um landið, veita ráðgjöf og kynna möguleika varðandi leiklist.
Halla leggur til að skrifstofan safni saman upplýsingum um hvaða leikfélög hafi „góða samninga“ við sveitarfélög og þær bornar saman við leiklistarstarfsemi  í sveitarfélaginu.

13. Næsti fundur
Ákveðinn í þjónustumiðstöinni 25. mars 2006

Fundargerð ritaði Ármann Guðmundsson

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 6. – 8. janúar 2006 714 31 janúar, 2006 Fundir janúar 31, 2006

Áskrift að Vikupósti

Karfa