Stjórnarfundur 5. maí 2006

Haldinn í þjónustumiðstöðinni kl. 14.00.
 
Mættir: Lárus, Guðrún Halla, Margrét, Hörður, Vilborg, Embla, Júlíus, Ólöf, Ármann og Hrund.
 
Guðrún Halla setti fund.
 
Farið var yfir dagskrá komandi aðalfundar BÍL og verkaskiptingu á fundinum. Ákveðið að fá Ingólf nokkurn úr Freyvangsleikhúsi til að stjórna fundi ásamt Grétari frá leikfélagi Seltjarnarness. Ármann og Sigga Lára fundarritarar.
 
Guðrún Halla kynnti drög að starfsáætlun.
 
Fundur með Þjóðleikhúsnefndinni
Lárus og Hörður sögðu frá fundi sem þeir áttu með Tinnu og Hlín:

Þjóðleikhússýningin:
Þær hafa áhuga á breyttu fyrirkomulagi við val sýninga. Afar mikill tími fer að sækja sýningarnar með tilheyrandi kostnaði. Þjóðleikhúsið sér að jafnaði um ferðakostnað en heimamenn um gistingu og uppihald ef þarf.
Eru stundum hissa á þeim sýningum sem sótt er um fyrir og finnst einkennilegt að sækja um fyrir sýningar sem greinilega eiga ekki erindi né möguleika á að verða fyrir valinu. (H.S. og L.V. reyndar sammála þeim um það).
Þá gerir það líka erfitt fyrir að sýningar koma oft í einum pakka í stað þess að dreifast yfir veturinn.
Tvær hugmyndir voru aðallega ræddar.
Annarsvegar að breyta nefndarskipan þannig að hana skipuðu 1 fulltrúi frá Þjóðleikhúsi, 1 frá Bandalaginu og einn utanaðkomandi. Hægt að skipa varamenn sem koma inn ef þarf. Hlín sagðist vera með nöfn í huga fyrir utanaðkomandi fulltrúann og ætlaði að senda í tölvupósti.
Hinsvegar að fram fari einhverskonar forval þannig að 3-5 sýningar verði tilnefndar og nefndin velji síðan úr þeim. Þær stöllur stungu upp á að stjórn BÍL sæi um forval sjálf eða í það minnsta skipuleggði það.
Þessar 2 hugmyndir geta í sjálfu sér farið saman.

Búningasafn:
Þjóðleikhúsið er tilbúið að leggja til stóran hluta síns búningasafns ef komið væri á fót almennri búningaleigu. Við Lárus leyfðum okkur að lýsa því yfir að okkur þætti þetta spennandi hugmynd sem vert væri að skoða. Vorum sammála um að ekki skipti höfuðmáli hvar slíkt safn væri staðsett enda sjálfgefið og nauðsynlegt að hægt væri að skoða safnið á vefnum og panta úr því.
Möguleiki að aðrir aðilar væru tilbúnir í samstarf, t.d. Sjálfstæðu leikhóparnir og kvikmyndafyrirtæki. Til að þetta geti orðið að veruleika þarf startkapítal og fasta fjárveitingu. Slíkt safn ætti þó með tímanum að geta staðið að miklu leyti undir sér með leigutekjum.
Í hálfgerðu (en ekki algeru) gríni var húsnæði hersins á Keflavíkurflugvelli nefnt sem möguleg aðstaða.

 
Í framhaldi af skýrslu þeirra félaga var nokkuð rætt um val á Þjóðleikhússýningu og sýndist sitt hverjum að vanda. Hörður telur að vanti reglur um umsóknir til að auðvelda ferlið. Huga þarf að samsetningu valnefndar. Á að vera fulltrúi frá Bandalaginu í nefndinni. Júlíus telur vafasamt að að hafa stífar reglur – hvaða sýningar eiga erindi? Vilborg vill að við gætum þess að Þjóðleikhúsið komi ekki verkefnum yfir á Bandalagið, þetta sé nú eftir allt saman þeirra hugmynd og boð. Þá þarf að vera á hreinu hver ber hvaða kostnað af valinu.
 
Einnig rætt um búningasafn. Halla veltir fyrir sér hvort Bandalagið getur tekið við safninu. Þjóðleikhúsið er tilbúið til að setja stóran hluta safn síns inn í nýtt safn. Hörður telur það styrk fyrir Bandalagið að fá safnið og aðrir fundarmenn eru sammála því. Rætt um að nefnd vanti í málið, fara þarf yfir rekstrarþætti og form, peningamál, samstarfsaðila og alles.
 
 
Landssamtök hátíða og menningarviðburða.
Júlíus sagði frá stofnfundi samtakanna og leggur til að Bandalagið verði stofnaðili. Telur aðild geta komið samtökunum til góða. Stjórnarmenn sammála því að Bandalagið gangi í umrædd samtök.
 
Fundi slitið.
Fundargerð ritaði Þ. Embla Guðmundsdóttir.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 5. maí 2006 552 06 september, 2006 Fundir september 6, 2006

Áskrift að Vikupósti

Karfa