Stjórnarfundur 4. apríl 2006

Haldinn á skrifstofu Bandalagsins að Laugavegi 96 kl. 10.00

Mætt: Guðrún Halla Jónsdóttir, Lárus Vilhjálmsson, Júlíus Júlíusson, Hörður Sigurðarson, Ármann Guðmundsson og Vilborg Valgarðsdóttir.

1) Fundargerð síðasta stjórnarfundar
Fundargerð síðasta fundar samþykkt með framkomnum athugsemdum.

2) Starfsáætlun yfirstandandi árs yfirfarin
Ræddar framkvæmdir í húsinu við hlið Bandalagsins og möguleikar varðandi einhversskonar skaðabætur þegar þeim líkur vegna leka og annarrar röskunar. Velt upp möguleika á að láta endurhanna þak handritageymslu og jafnvel hækka hana í tvær hæðir.

Umræða um yfirvofandi sölu Húsabakkaskóla. Óvíst hvaða áhrif hún hefur á Leiklistarskóla Bandalagsins í sumar (og í framtíðinni). Ákveðið að senda fyrirspurn um málið til bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar.

Hörður segir frá þróun vefmála, aðsókn hefur aukist jafnt og þétt frá síðasta fundi. Ákveðið að leita eftir að fá að birta gagnrýni á sýningar aðildarfélaga sem birt er í landsmálablöðum.

Rætt um aðgerðir til að ná fram hærri framlögum frá ríkinu. Ástæða til að leggja í grimman lobbyisma nú þegar kosningar eru yfirvofandi.

Lárus segir að Menningarsjóður Félagsheimila verði lagður niður á næstunni og peningunum skipt á milli listgreinanna. Ef skipt verður eftir þeim hlutföllum sem hingað til hefur verið sótt um í sjóðinn mun það ekki koma vel út fyrir leiklistina þar sem sjóðurinn er afar illa nýttur af leikhúsfólki. Ákveðið að fá fund með menntamálaráðherra um málið og styrkina almennt.

Rætt um útnefningu Þjóðleikhússins á Athyglisverðustu áhugasýninguna. Enn hefur ekki verið fundað með Þjóðleikhússtjóra. Ákveðið að reyna að fá fund með Tinnu fyrir aðalfund ef mögulegt er.

Einn fundur hefur verið í sögunefnd. Bjarni Guðmarsson hefur tekið að sér að búa bókina undir prentun. Enn hafa myndir í bókina ekki verið valdar. Ákveðið að ítreka deadline 1. september.

3) Aðalfundur 2006 undirbúinn eins og kostur er
Aðalfundarboð yfirfarið og samþykkt, svo og ársreikningur Bandalagsins. Ákveðið að hafa gagnrýni á sýningar Margs smás á laugardaginn 6. maí kl. 13-14 í Félagsheimili Seltjarnarness.

Starfsáætlun 2006-2007 samþykkt til framlagnar fyrir aðalfund.

4) Önnur mál:

a. NUTU – fulltrúi Bandalagsins eða ekki?
Hart deilt um hvort Bandalagið eigi fulltrúa í NUTU eða hvort það sé einkamál þeirra sem vilja vera í NUTU-samstarfi. Hörður og Lárus lögðu til að málinu verði vísað til aðalfundar. Halla, Júlíus og Ármann andvíg því. Gengið til atkvæða og því vísað frá að fara með málið fyrir aðalfund. Síðan samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur atkvæðum Harðar og Lárusar, að fulltrúi Íslands í NUTU sé þar sem opinber fulltrúi Bandalagsins.

Hörður og Lárus gera eftirfarandi bókun um málið:

Eins og margoft hefur komið fram er það módel sem systursambönd okkar á Norðurlöndunum nota í unglingastarfi, fjarri þeim raunveruleika sem íslensk áhugaleikfélög búa við. Norræna módelið gengur út frá því að fólk á aldrinum 16-25 ára hafi sérstakar þarfir og viðhorf sem geri það að verkum að ástæða sé til að einangra það frá öðrum áhugaleikurum.
Þessu viðhorfi þarf BÍL að vinna opinberlega gegn. Hugmyndafræði íslenska áhugaleikhússins hefur alla tíð verið að leiklistin sé fyrir alla án skilyrða. Hún byggir m.a. á þeirri trú að leiklistin græði á því að ólíkir einstaklingar lendi í suðupottinum saman og jöfnum höndum miðli til og læri af öðrum. Það er ekki í þágu listarinnar að hólfa leiklistarfólk niður á þann hátt sem lýst er að framan.
Í þessu sambandi er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að helmingur af ráðstöfunarfé NAR fer til sérstakra hópa innan áhugaleiklistarinnar á borð við börn, unglinga og eldri borgara. Þar er ekki verið að veita peninga vegna þess HVAÐ er gert heldur vegna þess HVERJIR gera það. Í því kristallast það viðhorf að áhugaleiklist hafi ekki tilverurétt í sjálfu sér heldur sé fyrst og fremst tómstundastarf sem byggi tilveruréttinn á (óskilgreindum) pedagógískum forsendum. Með öðrum orðum virðist þurfa utanaðkomandi ástæður fyrir fjárframlögum í áhugaleiklist á borð við þær að hún hafi uppeldislegt gildi og/eða að hún sinni þörfum hópa sem ekki þarf að réttlæta sérstaklega fjárhagslegan stuðning við. Samkvæmt þessum viðhorfum er áhugaleiklistin því ekki fyrst og fremst listrænt starf sem er eftirsóknarvert í sjálfu sér. Með því að fallast athugasemdalaust á skipan þessara mála í í norrænu samstarfi er BÍL að samþykkja þetta viðhorf til áhugaleiklistarinnar. Því greiðum við atkvæði gegn því að BÍL skipi sérstakan fulltrúa í NUTU.

Hörður Sigurðarson og Lárus Vilhjálmsson

b. Úthlutunarfundur 2006 dagsettur
Úthlutunarfundur ákveðinn helgin 30. júní – 1. júlí.

c. Spurningarlisti skólastjórnar yfirfarinn
Spurningalisti vegna 10 ára afmælis Leiklistarskólans yfirfarinn og samþykktur.

d. Erlent samstarf
Halla segir frá NAR-stjórnarfundi sem haldinn var á Akureyri dagana 31. mars –  2. apríl og hún og Vilborg sóttu. Hún sagði það á margan hátt hafa verið athyglisverðan fund. Vilborg sagði að sér hefði komið á óvart hversu stutt undirbúningur NEATA-hátíðar í Færeyjum er kominn, það eigi nánast alveg eftir að fjármagna hátíðina.

Vilborg er á leiðinni á skrifstofumót NAR í Visby á Gotlandi. NAR greiðir kostnað.

e. Spurningarlistar til sveitarfélaga
Yfirfarnir spurningalistar um leiklistarfsemi sem sendir voru á öll sveitarfélög. Svar hefur borist 21 sveitarfélagi af 94. Ákveðið að ítreka þetta og minna sveitarfélögin á að þeim ber skylda til að svara.

f. Allt önnur mál
Umræða um hversu hár hluti af styrkjum NAR fer til starfs barna og unglinga. Allir sammála um að það sér óeðlilega hátt hlutfall (a.m.k. 50%) en það ku vera samkvæmt skipun frá Norrænu ráðherranefndinni.

Lárus greinir frá heimsókn sinni til Fargo í N-Dakota þar sem starfandi er íslendingafélag sem ótt og uppvægt vill fá íslensk leikfélög í heimsókn. Þeir telja lítið mál að fá styrki til slíkrar heimsóknar frá menningarsjóðum þarlendis og norræna/bandaríska sjóðnum.

Vilborg gerir grein fyrir kaupum á nýrri tölvu af Mini Mac gerð. Þau kaup nauðsynleg þar sem tölva ritara skrifstofu var orðin úrelt.

Ármann vekur máls á að hugað verði að því hvað gera þarf til þess að handritasafn Bandalagsins verði lögformlegt safn og eigi þar með möguleika á styrkjum frá Safnasjóði. Einnig þurfi að finna út hvernig er best að varðveita safnið á öruggan hátt. Ármann leggur til að stofnuð verði þriggja manna safnanefnd eftir aðalfund til að fjalla um málið.

Ein lagabreytingatillaga hefur borist sem lögð verður fyrir aðalfund. Hörður Sigurðarson gerði eftirfarandi lagabreytingatillögu:

6. grein:
Út falli setningin: „Aðalmenn í stjórn Bandalagsins hafa eitt atkvæði hver“. Að öðru leyti standi 6. grein óbreytt.

Fundi slitið.
Fundargerð rituð af Ármanni Guðmundssyni.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 4. apríl 2006 590 26 apríl, 2006 Fundir apríl 26, 2006

Áskrift að Vikupósti

Karfa