Stjórnarfundur 30. júní og 1. júlí 2006

Haldinn í Þjónustumiðstöðinni að Laugavegi 96, Reykjavík.

Mættir:
Guðrún Halla, Lárus, Ingólfur, Þorgeir, Ólöf, Ármann, Guðfinna og Margrét auk Vilborgar.

1. Tillaga að úthlutum styrkja frá Menntamálaráðuneyti

Stjórn fór yfir umsóknir og gerði tillögu að úthlutun (sjá nánar í yfirliti). Nokkur álitamál um flokkun verkefna og tímalengd stóðu eftir og tóku Ármann og Halla að sér að fara yfir myndbönd að fundi loknum svo úrskurða mætti á laugardagsmorgni.

Umræður um sérstök ágreiningsefni:

a. Frumkvæði

Farið yfir umsóknir um sérstakt frumkvæði:

Umsókn Freyvangsleikhússins um frumkvæðisstyrk fyrir Kardimommubæinn hafnað, vinnan með tónlistina ekki metin það sérstök að það verðskuldi frumkvæðisstyrk.

Umsókn Hugleiks um frumkvæðisstyrk fyrir Jólaævintýri Hugleiks samþykkt, vegna frumsaminnar tónlistar.

Umsókn Leikfélags Hafnarfjarðar um frumkvæðisstyrk fyrir Hodja frá Pjort samþykkt, vegna frumsaminnar tónlistar.

Umsókn Leikfélags Hólmavíkur um frumkvæðisstyrk vegna umfangsmikilla og tíðra leikferða samþykkt.

Umsókn Leikfélags Mosfellssveitar um frumkvæðisstyrk vegna Í beinni hafnað, frumsamin tónlist ekki metin nægilega mikil.

Umsókn Leikfélags Reyðarfjarðar um frumkvæðisstyrk vegna þátttöku í að stofna leikfélag í Verkmenntaskóla Austurlands hafnað.

Umsókn Leikfélags Sauðárkróks um frumkvæðisstyrk vegna Jens og risaferskjunnar samþykkt vegna frumsaminnar tónlistar.

Umsókn Leikfélags Selfoss um frumkvæðisstyrk vegna Þuríðar og kambsránsins samþykkt vegna glæsilegrar umgjörðar.

Umsókn Leikfélags Ölfuss um frumkvæðisstyrks vegna endurreisnar leikfélagsins samþykkt.

Jafnframt ákveðið að veita Leikfélaginu Kröflu í Hrísey sambærilegan frumkvæðisstyrk vegna endurreisnar félagsins og ákveðið að gera það að vinnureglu að veita ávallt frumkvæðisstyrk til fyrsta verkefnis nýstofnaðra eða endurreistra félaga.

b. Samvinnuverkefni

Nokkur félög sóttu um styrki vegna verkefna sem unnin eru í samvinnu við önnur félög eða stofnanir á borð við grunn- og framhaldsskóla. Stjórn var sammála um að verkefni af þessu tagi eru mikilvæg og víða er slík samvinna nauðsynleg til að leiklist þrífist á viðkomandi stað. Jafnframt er mikilvægt að styrkjakerfið sé ekki misnotað, eða félög „láni nafnið sitt“ til að óskyldir aðilar fái aðgang að styrkjunum.

Farið var yfir hverja umsókn um samvinnuverkefni fyrir sig og ákveðið að veita þeim öllum styrki til jafns við önnur sambærileg verkefni leikfélaganna að þessu sinni.

Jafnframt ákveðið að útbúa spurningalista eða eyðublað fyrir samvinnuverkefni. Þorgeir tekur að sér að gera tillögu að slíku blaði.

Laugardagur 1. júlí.

Mætt:
Halla, Lárus, Þorgeir, Margrét, Ármann og Guðfinna.

Byrjað á að fara yfir vafaatriði gærdagsins og úrskurðað í þeim eftir tillögum Ármanns og Höllu.

2. Rekstur þjónustumiðstöðvar
Fjárhagstaða ekki nógu góð en fer væntanlega skánandi á árinu þegar halli frá leiklistarhátíð hefur verið greiddur og með hækkuðu árgjaldi.

3. Rekstur fasteigna
Viðhald á húsnæði enn á bið vegna framkvæmda við hliðina. Rætt um að fá viftu í brotna Laugavegsgluggann þegar skipt verður um hann.

4. Ársrit
Efnisöflun stendur yfir og vinnsla hefst um leið og sumarleyfum líkur. Hugleikur ætlar að leggja til ferðasögur frá Mónakó og Rússlandi. Rætt um að skoða gömul Leiklistarblöð og finna greinar sem gætu nýst leikfélögum, fyrir ársritið eða þá vefinn. Lárus tekur að sér að skrifa leiðara.

5. Leiklistarskólinn
Skólanefnd ætlar að funda í ágúst og koma sér saman um hver tekur við formennsku í skólanefnd. Drög að næsta skólaári verða mótuð með haustinu.

6. Vefurinn
Stuttverkasamkeppni fyrirhuguð á næstunni. Rætt um dauða spjallsins og hvað er til ráða. Allir sammála um að stór þáttur í vandamálinu sé viðmót spjallsins. Einn möguleiki er að tengja spjall við greinar/fréttir á forsíðu. Ræddar þær hugmyndir sem komu fram á aðalfundi.

7. Leitað eftir hækkuðum framlögum
Ítreka þarf fund með menntamálaráðherra. Ákveðið herja á þingmenn í fjárlagnefnd. Gera þyrfti upplýsingablað sem stjórnarmenn geti nýtt sér í baráttunni við stjórnmálamenn. Halla tekur það að sér. Hvetja á leikfélög til að bjóða stjórnmálamönnum í leikhús. Benda stjórnmálamönnum á grasrótarstarfið sem fer fram og hve miklu skiptir fyrir sveitarfélög að þar sé öflugt menningarlíf.

8. Athygliverðasta áhugaleiksýningin
Vilborg hefur fundað með Tinnu og þær hafa komið sér saman um hugmyndir að fyrirkomulagi. Með umsókn verði undantekningalaust send upptaka af sýningu og ef Þjóðleikhúsnefnd telur að sýningin komi til greina fer öll nefndin að sjá hana. Vinnuplagg sem þær útbjuggu samþykkt. Umræða um hvort Bandalagið á að eiga fulltrúa í valnefndinni. Meiri hluti andvígur því.

9. Samstarf við Borgarleikhús
Ræddar ýmsar mögulegar birtingarmyndir. t.d. að hafa hana annað hvert ár, opna hana fyrir fjölbreyttari atriðum (tónlist, uppistand o.fl). Ákveðið að hafa Margt smátt árið 2007 og skipa undirbúningsnefnd á næsta stjórnarfundi.

10. Saga Bandalagsins
Ekki virðist mikið hafa gerst varðandi bókina frá síðasta fundi. Vilborgu og Bjarna hefur ekki tekist að semja um greiðslur fyrir lokafrágang á verkinu. Rætt um fjármögnun, hvort eigi að vera Tabula gratulorum (allir á því) og safna áskriftum. Einnig rætt hvort Bandalagið ætli að gefa bókina út eða reyna að fá einhverja bókaútgáfu til þess. Toggi tekur að sér að komast að því hvar málið er statt.

11. Haustfundur
Guðfinna lýsir yfir vilja Leikfélags Selfoss til að halda haustfund. Ákveðið að þiggja boðið og halda fundinn 29. sept. – 1. okt. Ákveðið að halda námskeið í stjórnun leikfélaga meðfram málþingi um skólann. Ólöf tekur að sér að halda utan um stjórnunarnámskeið. Nauðsynlegt að fara í gegnum þætti sem eru sértækir fyrir leikfélög. Næsti stjórnarfundur kl. 16.00 föstudaginn 29. sept.

12. Handritasafn
Ármann og Hrefna Friðriksdóttir eru búin að funda og töldu einsýnt að láta ætti reyna á hvort við getum talist lögformlegt safn. Ef svo er ekki, finna út hvaða leið er best að fara til að fjármagna tækjakaup og rekstur á meðan safnið er fært í tölvutækt form. T.d. má sækja um í sjálfstæða menningasjóði fyrirtækja og einstaklinga. Lárus tekur að sér að vera 3. maður í nefndinni.

13. Búningasafn
Fyrir næsta stjórnarfund þarf Embla að vera búin að fullskipa nefndina og funda með henni.

14. Kaup á húsnæði undir skólann
Þorgeir telur nauðsynlegt að ná umræðunni um húsnæðismál skólans út úr þeim farvegi sem hún hefur verið í og byrja að gera eitthvað í málinu. Margrét tekur að sér að vera í nefnd. Markmið nefndarinnar er að leysa húsnæðisvanda skólans á varanlega hátt. Þorgeir skrifar skipunarbréf. Áhersla á að leysa aðgengismál. Ákveðið að biðja aðra hvora fráfarandi skólastýru að sitja í nefndinni og Júlíus Júlíusson. Lárus sagði frá heimsókn sinni á Eiða þar sem hann sagði að aðstaða væri öll hin besta. Hins vegar væri þar inn í myndinni að leigja Hótel Eddu húsnæðið.

15. Tölvupóstur
Farið fram á stjórnarmeðlimir svari stjórnartölvupósti, hvort sem þeir hafi eitthvað um viðkomandi mál að segja eða ekki. Láta alla vega vita að menn hafi lesið póstinn.

16. Gagnrýni Morgunblaðsins
Staða málsins óljós. Þorgeir telur einsýnt að þetta verður ekki í óbreyttri mynd. Helst uppá borðinu að leysa þetta með gagnrýnanda í heimahéraði. Ákveðið að Vilborg og Ólöf ræði betur við Fríðu Björk menningarritstjóra Moggans.

17. Gagnrýni Leiklistarvefsins
Drífa í því að hafa samband við héraðsfréttablöð og leita eftir leyfi til að fá að birta umfjallanir um sýningar. Einnig fara að tala við okkar fólk víðsvegar um landið og biðja það um að skrifa.

18. Kynningarmál
Hugmynd Júlíusar Júlíussonar frá aðalfundi um kynningarblað og bækling sem dreift yrði sem víðast. Lárus telur að allt slíkt þurfi að íhuga vandlega, hver væri tilgangur þess og hvort þetta næði honum. Þorgeir hafði ekki athugað hvort sjóðurinn AUGA styrkti svona átök en lofaði að gera það á næstunni. Umræða um nafn Bandalagsins, hvort það sé ástæða sé til að breyta því. Að sumra mati hefur gamla nafnið ekki verið okkur til mikils framdráttar sem slíkt.

19. NAR-styrkir
Ármann spyr hvor það sé vilji stjórnar Bandalagsins að reyna að fá breytt þeim vinnureglum sem Norræna ráðherranefndinn vinnur eftir varðandi styrki. Halla segist hafa rætt þetta óformlega á NAR-fundum en sé tilbúin að gera það formlega. Þorgeir spyr hvers vegna við séum á móti þessu. Lárus segir að þeir sem njóti forgangs samkvæmt núverandi kerfi, fái jafnframt peninga eftir öðrum leiðum. Ármann bendir á að það að helmingur allra styrkja sem veittur er til leiklistar á vegum Norrænu ráðherranefdarinnar sé eyrnamerkt hvers kyns minnihlutahópum og það sé bara alltof hátt hlutfall. Þorgeir segir að aldurskipting sé í íslensku áhugaleikhúsi, hún sé bara að mestu bundin við framhaldsskólana.

20. Dagur áhugaleikhússins
Rætt um hvort ástæða sé til að reyna að halda hann hátíðlegan. Rætt um að tengja hann mögulega Mörgu smáu eða aðalfundi. Lítill áhugi á meðal stjórnarmanna að gera eitthað í málinu að svo stöddu, leiklistardagatalið sé einfaldlega of þéttskipað og tíma og orku sé betur varið í annað.

21. Næsti aðalfundur
Ákveðið að þyggja gott boð Leikfélags Fljótsdalshéraðs um að halda aðalfund 2007.

22. NEATA-hátíð 2010
Rætt um mögulega staðsetningar, þeir staðir sem koma til greina eru, upp á leiksvið að gera, Reykjavík, Akureyri, Egilsstaðir, Vestmannaeyjar, Keflavík og Ísafjörður. Ákveðið að Halla athugi hversu tímasetningin á hátíðinni er heilög. Þorgeir bendir á að þegar Hugleikur fór til Harstad 1998 hafi hann þurft að greiða fyrir innanlandsflug þannig að sennilega ber okkur ekki skylda til að borga transport fyrir hópana innanlands. Ákveðið að Halla fari á fund Bæjarstjóra Akureyrar og athugi hvort enn sé jafnmikill áhugi á að halda hátíðina þar á bæ. Ef svo er verður Akureyri væntanlega fyrir valinu.

Fundi slitið.

Fundargerð 30. júní ritaði Þorgeir Tryggvason
Fundargerð 1. júlí ritaði Ármann Guðmundsson

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 30. júní og 1. júlí 2006 621 24 október, 2006 Fundir október 24, 2006

Áskrift að Vikupósti

Karfa