Stjórnarfundur 29. september 2006

Stjórnarfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
Hótel Selfossi
29.09.2006

Mættir: Ármann Guðmundsson, Embla Guðmundsdóttir, Guðfinna Gunnarsdóttir, Guðrún Halla Jónsdóttir, Hrund Ólafsdóttir, Ingólfur Þórsson, Lárus Vilhjálmsson, Ólöf Þórðardóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Vilborg Valgarðsdóttir og Þorgeir Tryggvason

Fundur settur.

Haustfundur undirbúinn
Ólöf kynnti námskeið í stjórnun leikfélaga sem var á dagskrá fundarins um kvöldið.
Lárus tók að sér að tala um Bandalagið, m.a. útskýra skammstafanir í alþjóðastarfi og fleira.

Námskeið þótti gott, almenn fyrir félög, en ákveðið var að halda fljótlega fyrirlestrahelgi eða námskeið um verkefni sem sértæk eru fyrir leikfélög. Ákveðið var að Lárus tæki það fram í sínum hluta námskeiðisins.

Dagskrá málþings um Leiklistarskóla Bandalagsins rædd.

Ákveðið var að aðalstjórnarmenn yrðu hópstjórar í umræðuhópum. Margrét tók að sér að koma í stað Ingólfs sem yrði farinn af svæðinu.

Almenn ánægja með dagskrá málþings

NEATA-hátíð á Akureyri 2010
Fram kom að skipa þyrfti undirbúningsnefnd um helgina.
Halla hitti bæjarstjóra Akureyrarbæjar og kanna hug hans til þess að Leiklistarhátíð NEATA yrði haldin í bænum árið 2010. Bæjarstjóri var jákvæður gagnvart þessum áætlunum en benti þó á að 2010 yrði kjörtímabilinu lokið og ólíklegt að hann yrði enn bæjarstjóri. Menningarfulltrúar á Akureyri eru almennt jákvæðir gagnvart hátíðinni, þó þeir viti ekki hvernig landslagið verður í menningarmálum Akureyrar. En ljóst er að búið verður að byggja menningarhús, og teknir hafa verið í notkun nýir salir víða þannig að ekki ætti að vera vandamál að hýsa sýningar þessarar hátíðar á Akureyri.

Samningar við leikstjóra
Rætt var um að félög vissu ekki hvert þau ættu að snúa sér í samningagerð við leikstjóra. Samningar sem fást hjá Leikstjóra- og leikarafélagi standast að öllum líkindum ekki lög þar sem þeir eru verktakasamningar sem gera samt ráð fyrir að félagið skili gjöldum viðkomandi. Eru þannig blanda af verktaka- og launþegasamningi sem er ólöglegt. Best væri að fá skriflega staðfestingu á því frá ríkisskattstjóra að svona samningagerð sé ólögleg. Lárus tekur að sér að útvega slíkt. Einnig er vitað um að leikstjórar séu að hafa með sér verðsamráð. Það er líka ólöglegt. Vilborg reiknaði út meðallaun leikstjóra hjá félögum Bandalagsins frá síðasta ári. Þau eru um 550.000.
Guðrún Halla hefur gert módel af leikstjórasamningi sem hægt er að breyta eftir því sem hverju félagi hentar.

Fundargerðir
Fundargerðir síðustu tveggja stjórnarfunda samþykktar með smávægilegrum breytingum.

Starfsáætlun
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar í samræmi við lög BÍL:
Rekstur gengur sæmilega. Hækkuð árgjöld skila sér.
2. Rekstur fasteigna skv. Viðhaldsáætlun:
Allt við það sama. Spurning um að fara að sækja um bætur vegna framkvæmda í næsta húsi sem hafa valdið leka í hluta af húsnæði skrifstofu.
3. Útgáfa Ársrits fyrir leikárið 2005-2006
Ársrit kemur út í næstu viku. Skil á ársskýrslum alltaf við það sama. Yfirleitt sömu félögin sem skila inn skýrslum og þau eru alls ekki nógu mörg.
4. Starfsemi Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga skv. námskeiðsáætlun.
Ekkert er komið frá nefnd, funda þarf sérstaklega með henni einhverntíma um helgina. Förðunarnámskeið í október alveg pakkuppseld.
5. Rekstur vefsins leiklist.is skv. Tillögum vefnefndar. Stuttverkasamkeppni er farin af stað. Hvetja þarf leikfélög til að kaupa auglýsingaborða á vefinn undir liðnum Önnur mál á sunnudag. Einnig þarf að hvetja félög til að vera duglegri að senda inn fréttir. Spjallkerfið var rætt Athuga þarf með að setja inn kerfi þar sem hægt er að tjá sig við hverja frétt, líkt og gerist á bloggsíðum.
6. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum til starfsemi áhugaleikfélaganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og Leiklistarskóla þess.
Fara þarf á fund fjárlaganefndar. Ekkert hefur gengið að fá fund með menntamálaráðherra. Vilborg tekur að sér að panta tíma hjá fjárlaganefnd. Ákveðið að senda lista með nöfnum allra í fjárlaganefnd til formanna allra leikfélaga og athuga hvort menn hafa tök á að ræða við þá sem þeir þekkja til, eða t.d. þingmenn síns kjördæmis.
7. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athygliverðustu áhugaleiksýningu ársins. Reglunum hefur verið breytt aðeins. Þú þurfa öll félög að skila upptökum.
8. Ákveðið hefur verið að halda hátíðina Margt smátt í Borgarleikhúsinu árið 2007 Rætt var um að halda hátíðina í kringum páska. Ákveðið að viðra málið undir öðrum málum á sunnudag. Ármann og Hrund og Ólöf tóku að sér að vera í undirbúningsnefnd. Þorgeir tók að sér að skrifa skipunarbréf.

Sérverkefni.
1. Saga Bandalagsins.
Bjarni Guðmarsson er eiginlega búinn að vinna hana, vantar samt enn örfáar myndir. Kanna þarf útgáfukostnað, prentun og þessháttar. Kalla þarf nefndina saman til að ræða þessi mál. Spurt var um um eintakafjölda. Rætt var um að kanna hversu mörg eintök eru venja að gera á sögu félagasamtaka. Verið getur að borgi sig að láta prenta í útlöndum.
2. Halda haustþing um málefni Leiklistarskólans í tilefni 10 ára afmælis hans. Haustþing sett með námskeiði í stjórnun leikfélaga í kvöld, málþing á morgun. Önnur mál á sunnudag.
3. Athuga möguleika Bandalagsins á því að gera leikritasafnið að formlegu safni skv. safnalögum.
Næsta mál á dagskrá í því máli er að fá framkvæmdastjóra safnaráðs í heimsókn til að meta hvernig safnið stendur. Reynt verður að gera það fyrir 1. nóv.
4. Að kannaður verði rekstrargrundvöllur búningasafns á grunni hugmynda Þjóðleikhússins.
Embla Guðmundsdóttir hefur verið í þessu máli. Talið er að þetta henti sem verkefni fyrir viðskiptanema á Bifröst. Reyndar verið að skrifa mastersverkefni um skylt verkefni. Embla heldur áfram að kanna málin. Hafa í huga allt húsnæðið sem er að dælast inn í þjóðarbúið í fyrrverandi herstöð. Kanna þarf bráðabirgðasamstarf við Þjóðleikhúsið um að fá að leigja úr safninu.
5. Húsnæðisnefnd skólans. Ekki er hægt að lofa neinu um aðgengi á Húsabakka að svo stöddu. Margrét reyndi að ná sambandi við Sigurjón Sighvatsson. Klara Stephensen, húsráðandi á Eiðum, vildi fá upplýsingar um Bandalagið. Vantar upplýsingabækling um Bandalagið. Eiðar standa til boða fyrir lítinn sem engan pening, en aðeins með dýnugistingu. Hugsanlegt væri að þeir sem vildu gætu leigt gistingu af Hóteli Eddu. Kostnaður að öðru leyti yrði lítill. Spurning um að bjóða upp á mismunandi gistimöguleika. Möguleikar á fleiri plássum á skólann. Skólanefnd þarf að fara á staðinn og skoða aðstæður. Erindi verður um þetta á málþinginu. Rætt um að skoða líka aðra möguleika, Reykjanes, Lauga í Sælingsdal, herstöðina á Miðnesheiði. Verið var að selja Skógaskóla og er talið að hann sé út úr myndinni.

Erlent samstarf
Guðrún Halla og Vilborg mættu á stjórnarfund NEATA í Færeyjum.

60-70% styrkfjár í úthlutun NAR fer til jaðarhópa. Staðsetningarmál NUTU-skólans hafa verið leyst. Norræna ráðherranefndin ætlar að hætta að styrkja NAR eftir 2008. Eftir það þarf að finna annað form á að sækja um styrki. Það verður að heita nýtt verkefni hvert ár. Embættismenn ráðherranefndarinnar vilja væntanlega fá að vita meira um hvernig styrknum er varið. Framkvæmdanefnd NAR ætlar að hittast í október og reyna að ná sambandi við menn í nefndina til að fá meiri upplýsingar. Lárus taldi þetta vera að gerast víða. Allsstaðar verið að stofna sjóði sem stjórnað verður af embættismönnum þar sem styrkir verða verkefnatengdir.

Innskot frá Lárusi sem situr í stjórn Menningarsjóðs félagsheimila. Til stendur að leggja sjóðinn niður í núverandi mynd. Peningum sem áður komu í hann verður trúlega skipt upp á milli þeirra sem nota hann mest. Nú eru það tónlistarmenn sem nota hann mest. Þurfum að hvetja leikfélög til að muna að sækja um styrki til sjóðsins vegna leikferða, t.d. þá sem komu með sýningar á Margt smátt.

Næsti NAR og NEATA fundur verður í Riga og skoðuð verður aðstaða fyrir leiklistarhátíð 2008.

Á NEATA-fundi var sagt frá fimm landa samstarfsverkefni sem átti að ljúka með hátíð í Rússlandi. Þar tókst ekki betur til en svo að hóparnir frá Finnlandi og Noregi afboðuðu með allt of skömmum fyrirvara, af ókunnum ástæðum.

NAR ákvað að styrkja Vilborgu og Guðrúnu Höllu til farar á Leiklistarhátíð sem þeim hefur verið boðið á í Litháen um sem nemur flugfari frá Keflavík til Vilnius. Taka þarf saman annan kostnað vegna ferðarinnar og síðan þarf stjórn að taka ákvörðum og hvort eða hvernig Bandalagið myndi styrkja þær til fararinnar. Annar kostnaður yrði gistikostnaður og far Höllu frá Akureyri til Reykjavíkur. Málið verður afgreitt í tölvupósti.

Sagt var frá því að Hvítrússar fengu ekki vegabréfsáritun til að koma á NEATA-hátíðina Færeyja.

Færeyingar stóðu sig mjög vel allri skipulagningu NEATA-hátíðar. Aðstaðan, þar sem gist var og haldinn hátíðaklkúbbur og fleira, frábær í Kennaraháskólanum.

Þorgeir og Ármann sögðu frá heimsókn sinni á rússnesku bandalagsskrifstofuna. Þar snýst starfsemin víst aðallega um að ráðleggja mönnum varðandi leiklistarhátíðir. Þar er einn og hálfur starfsmaður, eins og hjá okkur, en heili starfsmaðurinn brúkar ekki tölvu.

Fyrir liggur að Danute, sem verið hefur formaður NEATA er að hætta. Bandalagið styður framboð Line Hauger til embættisins.

Önnur mál
a) Haustfundur hefur verið undirbúinn.
b) Bréf frá Halaleikhópnum. Byrjendanámskeið í förðun hefur verið flutt í húsnæði Halaleikhópsins þar sem aðili í ljólastól hefur áhuga á að sækja það.
c) Erindi frá NUTU þar sem óskað er eftir að skóli NUTU verði haldinn á Íslandi: Málið hefur verið leyst í Noregi.
d) Erindi frá NEATA: Óskað eftir framlagi í ferðasjóð forseta NEATA. Vilborg hefur sagt þeim að við styrkjum ekki meira á þessu ári. Spurning um að koma Danute á Leiklistarhátíð IATA í Kóreu. Ákveðið að styrkja ferðastjóð forseta NEATA um 2000 kr. Dkr. Í janúar.

Nokkrar umræður spunnust um þá ákvörðun NEATA að halda stjórnarfund NEATA verður á IATA-hátíð í Kóreu. Ljóst er að þetta þvingar öll landssamtök í NEATA til að senda formenn sína til Kóreu. Þorgeir lagði til að til að Ísland berðist fyrir því að þessari ákvörðun yrði breytt. Einn fundur er áður, í Ríga. Málið verði tekið upp þar.

e) Skólanefnd endurskoðuð. Skólanefnd langtímanefnd. Bréf frá Gunnhildi. Rætt um þörf á varamanni í skólanefnd. Ákveðið að ræða við skólanefnd um að fella niður varamann í skólanefnd. Þær sem sótt hafa um að verða skólastýrur eru með hugmyndir um hvernig þær ætla að starfa. Málinu frestað til framhaldsfundar þegar skólanefndin getur mætt, um helgina.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 29. september 2006 573 08 desember, 2006 Fundir desember 8, 2006

Áskrift að Vikupósti

Karfa