Stjórnarfundur 27. nóvember 2004

Stjórnarfundur Bandalags ísl. leikfélaga 27. nóvember 2004, haldinn í Þjónustumiðstöðinni að Laugavegi 96.

Mættir:
Einar Rafn Haraldsson, Guðrún Halla Jónsdóttir, Lárus Vilhjálmsson, Guðrún Esther Árnadóttir, Ármann Guðmundsson, Vilborg Valgarðsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Hörður Sigurðarson.
Fjarverandi: Júlíus Júlíusson, Sigríður Karlsdóttir, Embla Guðmundsdóttir og Margrét Tryggvadóttir

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar og haustfundar kynnt og samþykkt.

2. Starfsáætlun 2004-2005.

Rekstur og viðhald húseigna:  
Ekki hefur verið gerð fjárhagsáætlun vegna framkvæmda. Ekki hefur verið formlegur fundur í húsfélagi en viðhaldsmat hefur verið gert. Gera þarf við þakið en það er mál alls hússins þar sem þök teljast jafnan til sameignar.
Ljóst er að það þarf að halda fund í húsfélaginu, forgangsraða og meta kostnað. Í síðustu viðhaldsáætlun er talað um að leita tilboða í ákveðin verk. Bandalagið hefur nánast greitt húsnæðið að Laugavegi að fullu og gæti þess vegna tekið lán til að fjármagna framkvæmdir. Menn hafa áhyggjur af handritasafninu því mesta tjónið yrði þar ef alvarlegur leki kæmi. Einu tækin sem vantar í bili er það þarf að kaupa nýjan laser prentara.

Ársritið:
Heldur meiri kostnaður við ársritið en áður. Ljósritun þurfti að fara fram annars staðar vegna takmörkunar ljósritunarvélar.

Námskeiðaáætlun leiklistarskólans:  
Á síðasta fundi var rætt um að þörf væri á að gera drög að langtímaáætlun fyrir skólans. Það væri á hendi skólanefndar að gera drög sem stjórn síðan fengi til skoðunar.

Rætt um að beina til skólanefndar að gera grófa þriggja ára áætlun sem síðan yrði endurskoðuð árlega. Ákveðið skipulag hefur verið í gangi, 3 námskeið í röð fyrir leikara og leikstjóra, en kannski hefur það ekki skilað sér til félaganna. Sumir vilja  meina að hinn almenni félagi í leikfélögunum viti varla að skólinn sé til og þess vegna mætti gera skipulagið sýnilegra.

Ýmislegt hefur gerst í málum Húsabakkaskóla en þar er fyrirhugað að leggja niður grunnskólann. Rætt hvort stjórnin ætti ekki að fara að skoða möguleika með aðra staðsetningu. Athuga t.d. Skógaskóla. Bandalagsfólk á pantað viðtal við menntamálaráðherra, þar væri hægt að spyrjast fyrir hvort möguleiki sé að vera með skóla þar fyrir lítið. Líka mætti athuga Eiðar fyrir austan.

Ef flytja ætti skólann þarf fyrst og fremst að hugsa um aðgengi. Svo þarf að hugsa um hvað er mest miðsvæðis.

Vefsíðan:  
Veffyrirtækið sem BÍL skiptir við virðist algjörlega hætt að gera það sem það segist ætla. Rætt um aðra kosti. Þarna var líka spurning um NAR vefinn sem BÍL hefur boðist til að athuga með að taka að sér. NAR þarf svar í mars um hvort við höfum aðstöðu til að taka yfir þeirra vef. Ákveðið að gefa veffyrirtækinu lokafrest til 15. desember. Ef ekki verður gerð bragarbót á þjónustunni fyrir þann tíma fer Bandalagið með sín vefmál annað.

Hækkuð framlög:  
Viðborg og Lárus fóru á fund fjárlaganefndar og var vel tekið. Ekki hafa framlög þó verið hækkuð. Sendur var tölvupóstur á alla nefndarmenn fjárlaganefndar og farið fram á að framlagið mætti raunhækkun rekstrarkostnaðar félaganna og skrifstofunnar.
Það þarf að koma á fundi með menntamálaráðherra til að koma hækkun inni í fjárhagsáætlun ráðuneytisins.
Menntamálaráðherra hafnaði umsókn um styrk vegna leiklistarhátíðar.

Þjóðleikhússýningin:  Stefán hefur ekki svarað erindi sem Vilborg sendi um framhald á vali leikhússins á sýningu ársins. Samkvæmt upplýsingum frá leikhúsritara Þjóðleikhússins verður valnefnd starfandi í vetur og keppnin haldin. En opinberlega hefur ekki komið fram yfirlýsing þess efnis. Staðan gagnvart Þjóðleikhúsinu er óskýr og verður í rauninni ekki skýr fyrr en Tinna verður tekin við. Enn er spurning hvað á að segja félögunum, hvort umsóknareyðublað á að vera á vefnum, eða hvað. Vilborgu falið að tala við Stefán.

Haustfundur:  
Var haldinn og gekk vel.

Einar Rafn Haraldsson mætir til fundar.

Stuttverkahátíð:  
Var haldin. Ýmsir voru ósáttir við ýmis framkvæmdaratriði. Hvers vegna að hafa þetta í samstarfi við Borgarleikhús þegar húsið virðist ekki hafa áhuga á dæminu. Nokkrar umræður spunnust um hvort betra hefði verið að hafa hana styttri. Aðrir vildu hafa hana lengri. Rætt var um hvort betra væri að hafa hátíðina annað hvort ár og þá jafnvel að vori í stað hausts. Einnig var rætt um hvort að nægur áhugi væri meðal aðildarfélaganna til þess að hún ætti rétt á sér.
Spurning hvort að annað form hentaði betur. Rætt var um gagnrýni á valnefnd og þótti flestum stjórnarmönnum hún ómakleg.  Ákveðið að kalla fólk úr Borgaleikhúsinu til viðræðna um þetta mál. Stinga upp á vorinu 2006 og hugsanlega í sambandi við aðalfund.

Framhald umræðna um hækkuð framlög:  
Umræður um hvort að reyna eigi að minna fjárlaganefndarmenn á Bandalagið á milli annarrar og þriðju umræðu fjárlaga. Sumir töldu að mestar líkur á því að þessi peningar náist í gegnum menntamálaráðherra. Aðrir ekki sammála og að ekki myndi saka að tala við ákveðna aðila í nefndinni. Ákveðið að skipta meirihluta fjárlaganefndarinnar á milli stjórnarmanna og skrifa þeim og hringja í þau.

Leikum núna 2005:  
Einn fundur hefur verið haldinn í undirbúningsnefnd hátíðar frá síðasta stjórnarfundi. Halla og Júlíus komu þar formlega inn í nefndina. Guðrún Lára kynnti Lalla leikhúsrottu sem hugsanlegt minjagripsefni. Nafn hátíðarinnar á að vera Leikum núna 2005. (Act now, 2005) Júlíus verður í forsvari fyrir kynningarnefnd, kemur með tillögur að öðrum. Hörður ætlar að tala við Einar Samúelsson og fá hann í lið með sér í vefsíðu og leikskrá. Umræður um mögulega styrki, erlendu hópana og framboð á aðstoðarmönnum.

Útgáfa á sögu BÍL:  
Næstsíðasti kaflinn er kominn og sá síðasti verður kominn fyrir áramót. Svo á eftir að fínpússa og vinna myndvinnslu. Sögu-
ritari er á launum til áramóta. Ekki er reiknað með því að útgáfan náist á þessu leikári.

3. Myndbandsspólur og meðferð þeirra vegna Bandalags-Grímunnar:
Einar sagði frá reynslu sinni og sagði hafa verið gaman að skoða verkið sem hann var búinn að horfa á með þessu hugarfari.
Vilborg lét stjórnarmenn fá möppur og kynnti verklag varðandi það. Rætt um hvernig eigi að hafa kosningu í akademíu.

4. Skýrsla vegna skrifstofumóts í Færeyjum og fundar NAR.
Fulltrúar Bandalagsins lýstu yfir á fundinum að við gætum hýst síðu NAR og hugsanlega látið gera hana. Leiklistarvefurinn var sýndur og rætt um mögulegt innihald vefsíðu. Rætt var um styrkjamál. Fátt kom fram sem ekki var vitað áður, Norð-vestur svæðið nýtur hylli núna og menn vilja gjarnan styrkja menningarstarfsemi þar. Fulltrúar sáu einnig á myndbandi götuleikhúshátíð frá Ólafsvöku. Mjög flott og fullt af hugmyndum fyrir opnunarhátíð Leikum núna. Þeir úr NAR stjórn sem á staðnum voru héldu fundi um hvernig fulltrúar NAR væru skipaðir. NUTU fulltrúi okkar, Árni Grétar, var á fundi NUTU sem haldinn var samhliða. Æskilegt að hann mæti á aðalfund og geri grein fyrir því starfi.

5. Önnur mál.
a) Dagsetning aðalfundar í Stykkishólmi 2005, 2 nætur. 6.-8. maí. Námskeið í stjórnun haldið í tengslum við haustfund.
b) Bréf barst frá Hugleik varðandi atvik sem varð á skólanum 2003.
Umræður urðu um ábyrgð stjórnar og stjórnarmanna í málinu. Sumum þótti að skólanefnd bæri einnig nokkra ábyrgð.  
Formaður vildi bóka að hann er tilbúinn til að funda með stjórn Hugleiks um málið hvenær sem þeim hentar, þar sem hann samþykkir ekki að öllu leyti þá röð atvika sem fram kemur í bréfinu.
Það var skilningur sumra stjórnarmanna að þrátt fyrir bókun sem gerð var á stjórnarfundi í vor að málið væri trúnaðarmál. Stjórn er fullkomlega sammála um að ýmislegt fór aflaga í þessu máli. Rifjaðar upp ákvarðanir sem teknar voru í lið 7. í fundargerð frá 9.-10. júlí um samskipti innan stjórnar sem gerð var í beinu framhaldi af þessu máli.

Rætt var um að meiri tíma þyrfti í frjálslegri umræður í kringum stjórnarfundi. Rýmri tímaramma þyrfti að hafa í kringum fundina til slíks og myndi það sennilega laga samskiptamál stjórnar að nokkru.

Fundi slitið.
Lárus Vilhjálmsson ritari

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 27. nóvember 2004 832 07 september, 2005 Fundir september 7, 2005

Áskrift að Vikupósti

Karfa