Stjórnarfundur 26. mars 2008

Fundur stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga, haldinn að Laugavegi 96 miðvikudaginn 26. mars kl. 18.00.

Mætt: Þorgeir Tryggvason, Lárus Vilhjálmsson, Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ármann Guðmundsson, Guðfinna Gunnarsdóttir og Vilborg Á. Valgarðsdóttir.

Fjarverandi: Ingólfur Þórsson, Hrund Ólafsdóttir, Ólöf Þórðardóttir og Hjalti Stefán Kristjánsson.

Dagskrá:

1. Snöggt yfirlit um fasta liði og einstakar nefndir
– Fundargerð síðasta stjórnarfundar
Engar athugasemdir gerðar. Fundargerð samþykkt.

  – Fasteignamál
Sölumat hefur verið fengið frá Fasteignasölunni Miðborg og er upp á 30,3 milljónir. Nefnd skipuð til að sjá um húsnæðismálin, í henni sitja Vilborg, formaður nefndarinnar og Þorgeir og Lárus með henni. Þorgeir skrifar skipunarbréf.

– Leiklistarskólinn
Skráning gengur vel í skólann að Húsabakka og útlit fyrir að öll námskeið verði vel mönnuð. Fyrirhugað námskeið í samvinnu við Þjóðleikhúsið um Baðstofuna eftir Hugleik Dagsson var hins vegar fellt niður vegna ónógrar þátttöku.

– Handritanefnd
Nefndin hefur ekki náð að funda frá síðasta fundi.

– Saga Bíl
Sögunefnd hefur verið að velta fyrir sér hönnun á kápu og hefur komist að niðurstöðu um útlitið í stórum dráttum. Einnig hefur verið unnið í káputexta og er áætlað að byrja fljótlega að selja bókin í forsölu. Bjarni söguritari mun ráðfæra sig við aðila sem sér um að leita eftir tilboðum í prentun.

– Riga – möguleikar á hópferð
Hjalta hefur ekki tekist að finna leið til að koma á hópferð í flug þar sem ljóst er að ferðaplön fólks verða mismunandi. Vilborg ætlar að athuga hvort hátíðin getur tekið við fólki sem ekki er beinlínis að taka þátt í hátíðinni og jafnvel útvegað því gistihúsnæði. Hún ætlar líka reyna að finna út kostnað.

2. Undirbúningur aðalfundar 2008
– Fundur

Bandalagsþingið verður í umsjón Leikfélags Sauðárkróks dagana 1.–4. maí.
Gist verður á Bakkaflöt og í Steinstaðarskóla í Skagafirði. Tilboð uppá 22.250 kr. pr. mann samþykkt. Að auki þarf að greiða fyrir afnot af Félagsheimilinu Árgarði. Tilkynningafrestur fyrir fund og hátíð er 18. apríl. Fundarboð verður sent út 1. apríl. Farið yfir ársreikninga og þeir undirritaðir athugasemdalaust.
–  Einþáttungahátíð
Einþáttungahátíðin verður í Félagsheimilinu Árgarði, en þessi þrjú hús eru á sama túninu í Skagafirði, stutt frá Varmahlíð. Reiknað er með að hátíðin verði sett á  fimmtudagskvöldi, nema sýningar verði þeim mun færri.
– Aðgengi
Aðgengi fyrir hjólastóla er viðunandi að sögn. Þroskahjálp hefur haldið þarna samkomur og á bæði gisti- og fundaraðstaða að vera í lagi. Leikfélag Sauðárkróks ætlar að bjóða fundargestum 50% afslátt af miðaverði á gamanleikinn Viltu finna milljón? í Bifröst á Sauðárkróki á föstudagskvöldið. Þar er aðgengi slæmt en þó hægt að koma fyrir hjólastólum í salnum en þá þarf að bera þangað upp.

3. Lagabreytingatillögur yfirfarnar

Farið yfir tillögurnar frá síðasta fundi. Engar efnislegar breytingar gerðar.

4. Skýrsla frá aðgengisráðstefnu í Svíþjóð
Þorgeir flytur skýrslu frá ráðstefnunni. Hann var beðinn um að sitja í panel gegn því að ferðin yrði borguð fyrir hann sem hann samþykkti. Hann sagði að ráðstefnan hefði verið vitagagnslaus, illa skipulögð og nýttist okkur ekki neitt. Áhersla hefði verið á heyrnalausa og sérþarfir þeirra. Fyrir utan Þorgeir var eingöngu atvinnufólk á ráðstefnunni.

5. NEATA 2010

Undirbúningsnefndin ætlar að vera tilbúin með uppröðun atriða á hátíðinni á aðalfundinum. Vinna þarf að fara af stað um næstu áramót við að sækja um styrki, bæði í norræna sjóði og til Evrópusambandsins.

6. Skrifstofumót NAR á Íslandi 2008
Norðmenn hafa óskað eftir að skrifstofumótið verði ekki fyrr en í nóvember. Þeir hafa ásamt Svíum óskað eftir að þetta verði í miðri viku. Vilborg stingur uppá að Sigrún Valbergsdóttir verði fengin til að halda erindi sem hún hélt í Færeyjum um hvernig íslensk leikfélög geta verið sjálfbær.

7. Önnur mál

– Starfsáætlun fyrir næsta árið rædd og mótuð. Þorgeir tekur að sér að gera uppkast að tillögu stjórnar að starfsáætlun.

– NAR-fundur í Osló. Þorgeir á leiðinni á fund í Osló um miðjan apríl. Aðalumræðuefni er breytingar á styrkjum til NAR.

Fundarritari: Ármann Guðmundsson

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 26. mars 2008 544 04 apríl, 2008 Fundir apríl 4, 2008

Áskrift að Vikupósti

Karfa