Stjórnarfundur 21. nóvember 2008

Haldinn að Suðurlandsbraut 16 kl. 20.00.

Mætt eru: Þorgeir Tryggvason, Ingólfur Þórsson, Guðfinna Gunnarsdóttir, Hörður Sigurðarson, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Halla Rún Tryggvadóttir, Elva Dögg Gunnarsdóttir, Vilborg Valgarðsdóttir og Ármann Guðmundsson.

1) Fundargerð síðasta fundar samþykkt.

2) Farið yfir liði á starfsáætlun:

a) Skólamál. Vilborg og Hrefna fóru á Hallormsstað og ræddu við rekstraraðila. Þeir munu gera tilboð en það hefur ekki borist ennþá. Þorgeir sagði það sem hefði mest áhrif á hvort við flyttum skólann væri, aðgengi fyrir fatlaða, möguleiki á stækkun skólans (ef vilji væri til þess) og betri kennsluaðstaða (í það minnsta ekki lakari). Auk þess skiptir verð miklu máli. Ef eitthvað af þessu vantaði væri ekki endilega fýsilegt að flytja skólann.

b) Vefurinn.
Hörður greindi frá því að netþjónustuaðili Bandalagsins, Hugsa sér!, hefði skipt um hýsingaraðila sem ætti að tryggja að vefur dytti síður niður eins og borið hafði aðeins á. Einnig hefur verið unnið í að betrumbæta skráningarmöguleika í handritasafninu. Þorgeir greindi frá því að hann hefði fengið aðgang að NEATA-vefnum. Hann og Hörður ætla að skoða það mál.

c) Margt smátt. Borgarleikhúsið hefur gefið okkur frjálsar hendur með að velja á milli 16. og 23. maí. Ákveðið að halda Margt smátt 23. maí. Rætt um að fá færeyskar sýningar á hátíðina.

d) Handritasafnsnefnd.
Ármann lagði fram tillögu að skipunarbréfi nefndarinnar. Hún samþykkt. Sjá fylgiskjal 1.

e) Gagnrýni.
Hörður lagði fram hugmyndir um umfjöllun á leiksýningum. Samþykkt að leggja þær fyrir haustfund.

3) Suðurlandsbraut 16. Lítið verið gert af fyrirhuguðum endurbótum á nýja húsnæðinu, fyrst og fremst vegna efnahagsástandsins. Rætt um hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir frekari innbrot.

4) Saga Bandalagins, Allt fyrir andann, er komin út og sala hafin.

5) Skipulagning haustfundar. Á haustfundi eru þessi mál helst og þeir sem hafa framsögu um þau eru:

– Úthlutunarreglur – Þorgeir
– Hugmyndir um gagnrýni – Hörður
– NEATA-hátíð – Lárus
– Margt smátt – Ármann

Ákveðið að Þorgeir verði fundarstjóri á haustfundi.

6) Aðildarumsókn.
Fjallað um umsókn Draumasmiðjunnar DÖFF-RÆTUR um aðild að Bandalaginu. Stjórn jákvæð en ákveðið að bíða með að samþykkja inntöku þar til félagið hefur haldið aðalfund og samþykkt lög.

7) Norræn barnaleikrit.
Vilborg greindi frá því að stjórn NAR hefði ákveðið að öll Norðurlöndin fái hver sinn höfundinn til að skrifa 30-60 mínútna leikrit fyrir börn sem síðan verði þýdd á öll Norðurlandatungumálin og gefin út saman í hefti. Rætt um að halda samkeppni ef það er hægt innan þess tímaramma sem gefinn er (fyrir áramót). Þorgeir ætlar að fá á hreint hvort algjört sé skilyrði að ganga frá samningi við höfund fyrir þann tíma. Ef svo er þá verður að handvelja höfund.

Fleira ekki gert.

Fundarritari Ármann Guðmundsson.


Fylgiskjal 1:

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga skipar þriggja manna handritasafnsnefnd.

Verkefni:
Að móta tillögur að framtíðarskipulagi  og hlutverki handritasafns Bandalagsins.

Nefndina skipa:
Ármann Guðmundsson
Hrefna Friðriksdóttir
Örn Alexandersson

Nefndin skili greinargerð um störf sín fyrir aðalfund 2009.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 21. nóvember 2008 492 23 janúar, 2009 Fundir janúar 23, 2009

Áskrift að Vikupósti

Karfa