Stjórnarfundur 17. nóvember 2006

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga
Fundur 17. nóvember 2006
Haldinn í þjónustumiðstöð Bandalagsins, Laugavegi 96.

Fundur settur kl. 18.00.
Mættir: Ingólfur Þórsson, Ármann Guðmundsson, Hrund Ólafsdóttir, Lárus Vilhjálmsson, Vilborg Valgarðsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Þorgeir Tryggvason.

Fundargerðir síðustu funda:
a. Stjórnarfundur 29. september 2006
b. Málþing 30. september 2006
c. Fundur stjórnar og skólanefndar 30. september
Ritari skrifstofu tók að sér að setja betur upp fyrir internetið.
d. Haustfundur 1. október 2006
Niðurstöður hópa ítarlegri en verið hefur, þar sem tækninni hefur fleygt fram þannig að nú er hægt að fá hugmyndirnar, í flestum tilfellum, úr tölvum manna á staðnum. Þykir það kostur þar sem aðalatriði er að halda utan um allar hugmyndir sem fram koma, en einhverjar gætu týnst í úrvinnslu hópstjóra eftir á.
e. Stjórnarfundur 1. október
Fundargerðir samþykktar með fyrirvara um betri prófarkalestur áður en þær verði settar á vefinn.

Starfsáætlun 2006-2007

2.a.2. Upplýsingar frá VÍS v/skemmda á húsnæði
VÍS vísar skemmdamálinu frá sér. Fyrirtækið Ístak (sem skemmdunum olli) er tryggt hjá Sjóvá. Maðurinn hjá VÍS mælti með því að fengnir yrðu skoðunarmenn til að meta skemmdir. VÍS ætlar hins vegar að gera við brotna gluggann á framhlið. Athuga þarf hvað skoðunarmaður kostar. Eða tala við Ístak og athuga hvort þeir vilja gera við þetta sjálfir.
Spurning hvort tvíverknaður væri að gera við þakið þar sem það lekur ekki þessa dagana og upp hafa komið hugmyndir um gera nýja viðbyggingu. Fólkið sem á íbúð á hæðinni fyrir ofan væri til í að byggja ofan á nýja viðbyggingu, og myndi það lækka kostað talsvert við slíka framkvæmd.
Ákveðið var að fá skoðunarmenn Reykjavíkurborgar til að meta tjónið og taka ákvörðun um næsta skref í framhaldi af því.

Embla Guðmundsdóttir mætir til fundar.

2.a.4. Tillaga frá skólanefnd um skoðun Eiða
Hægt er að flytja starfsemi skólans með stuttum fyrirvara, ef það er hagstætt, en það þarf ekki að ákveða fyrr en fyrir útkomu skólabæklings í vor. Rætt var um hvort þörf væri á að hraða málinu.
Gott tækifæri þykir til að öll stjórn fari ásamt skólanefnd að skoða aðstæður á Eiðum í tengslum við aðalfund sem halda á þar á svæðinu í vor. Rætt var um hvort þörf væri á að senda nefnd á svæðið til að taka út húsnæðið fyrr. Nokkrar umræður spunnust um kostnað við slíka sendinefnd og hverja ætti að senda. Ljóst þótti að Guðrún Halla gæti metið aðgengismál.
Ákveðið var að skólanefnd fundaði með staðarhaldara Eiða, Klöru Stephensen, í Reykjavík og yfirheyrði hana um aðstæður og hvaða fjárhæðir væri verið að tala um. Í framhaldi af því þætti hugsanlega ástæða til að taka út staðinn.

Þorgeir gerði athugasemd við framkvæmd á tillögunni sem upphaflega lá að baki skipunar húsnæðisnefndar, en hún hljóðaði upp á að athuga með kaup eða einhvers konar rekstraraðkomu á Húsabakka eða sambærilegu húsnæði.
Lárus sagðist einnig ósáttur við hvernig niðurstöður nefndarinnar væru að koma fram. Nefndin þurfi að skila af sér formlega og með nákvæmari niðurstöðum á næsta aðalfundi. Spurning hvort aðalfundur gerir sér grein fyrir valdi sínu.
Menn veltu fyrir sér hvort verið væri að kenna aðalfundarmönnum ábyrgðarleysi á samþykktum sínum.
Þorgeir spurði hvort hefði verið hringt í bæjarstjóra Dalvíkur og spurt hvað Húsabakki kostaði? Eða hvort hringt hefði verið í UMFÍ út af Laugum í Sælingdal?
Þó svo að tillagan hefði verið höfð opin að ásettu ráði þótti honum nefndin ekki hafa farið eftir því sem samþykktin sagði til um.

Skipunarbréf skólanefndar
Búið að gera skipunarbréf sem eftir er að undirrita af formanni.

2.a.5. www.leiklistarskoli.is. Erindi frá lénsherra
Tillaga frá haustfundi um að efla og endurvinna vefhluta leiklist.is sem snýr að leiklistarskóla Bandalagsins, hugsanlega á öðru léni, leiklistarskoli.is.
Drög sem bárust frá Herði Sigurðarsyni gerðu ráð fyrir því að skólavefurinn yrði áfram undir leiklist.is en að á honum yrði einnig að finna upplýsingar um leiklistarnám, hér á landi sem erlendis.
Mönnum þótti réttara að uppbygging þessa vefhluta væri þannig að fyrst kæmu upplýsingar um Leiklistarskóla BÍL en svo mætti gjarnan hafa hlekkjasafn um leiklistarnám undir honum. Menn spurðu sig þó hver hagur Bandalagsins væri í að fá fólk sem er að lesa sér til um leiklistarnám á vefnum. Vefnefnd mun velta fyrir sér frekari útfærslu. Ljóst er að það þarf að styrkja þennan hluta vefsins. Vefnefnd fundi sem fyrst.

Einnig var ítrekaður vilji til að setja inn umræðukerfi við hverja frétt.

Þorgeir vakti einnig máls á þörf á sérstökum hlekkjum af forsíðu á fréttir um námskeið og leiklistarhátíðir, þar sem inni yrðu fréttir um slíka viðburði á meðan umsóknarfrestir til þeirra stæðu yfir. Fram kom að þessi mál hefðu eitthvað verið rædd í vefnefnd og breytingar þessa efnis verða vonandi framkvæmdar fljótlega.

6. Leitað eftir hækkun opinberra styrkja.
Vilborg, Embla og Guðrún Halla fóru á fund fjárlaganefndar til að fara fram á hækkun fjárframlags til starfsemi leikfélaganna og reksturs skrifstofu. Þótti þeim erindinu vel tekið. Rætt var um hvort þyrfti nýja nálgun á málið og ákveðið að halda áfram að halda áfram að reyna að ná fundi menntamálaráðherra. Einnig var ítrekað að nota ætti kosningaveturinn og ræða mál leikfélaganna til að reyna að koma málefnum aðildarfélaga Bandalagsins inn á stefnuskrár flokkanna. Talað var um að stjórnarmenn skrifuðu bréf til þingmanna og frambjóðenda innan síns kjördæmis og bentu á öflugt starf áhugaleikhúsa á svæðinu. Einnig var rætt um að halda því á lofti sem merkilegt hefði gerst í hreyfingunni, svo sem viðurkenningu sem leikfélagið Hugleikur fékk á degi íslenskrar tungu. Vekja athygli á stórum sýningum sem ganga vel.

Embla sagði frá því að hún hefði sagt menningarmálanefnd í Borgarfirði frá skólanum. Einnig hefur hún farið fram á að fara með erindi á fund hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en erindið taldist ekki eiga heima á slíkum fundi. Spurning um að fara frekar í svæðisbundin sveitafélagasamtök.
Upplýsingapakki sem Guðrún Halla ætlar að útbúa verður m.a. ætlaður til kynningar fyrir slíkt. Landshlutaþing talin betri fyrir kynningar heldur en landsþing.
Rætt var um hvort reyna ætti að skipa erindreka þannig að sama fólkið sæi um kynningarnar til að þær væru markvissari?
Spurning um að þetta sé staðlað kraftbendilsefni. Einnig var rætt um að láta alla fundarmenn taka eina létta upphitunaræfingu, í upphafi kynninga, til dæmis zip-zap-boing.
Fram kom að opinberir aðilar væru mikið farnir að ætlast til að frjáls félagasamtök leiti annað eftir fjárframlögum. Kannski helst sóknarfæri að fá sérstök fjárframlög til skólans.
Hrund minnti á athugasemd frá Kára Halldóri um að hugsa fyrst hvað menn langar að gera, í stað þess hvað það myndi kosta.

8. Stuttverkahátíðin Margt smátt.
Undirbúningsnefnd Margs smás. Nefndinni hefur ekki enn tekist að funda en mun hittast í næstu viku. Fundað verður með Steinunni Knútsdóttur, listrænum ráðunauti Borgarleikhússins, í framhaldi af því. Skýrsla frá þessari nefnd verður á næsta stjórnarfundi. Ingólfur spyr út í þátttöku landsbyggðarfélaga á hátíðinni. Þótti lítill hátíðarbragur á hátíðinni í ár. Vantar tilfinningu fyrir því að þetta sé viðburður, en ekki bara venjuleg sýning.
Rætt var um hvort hátíðin þyrfti að vera lengri og hvort þessi hátíðarbragur fengist e.t.v. með því að dagskrá hátíðarinnar væri meira með nærveru í anddyri og væri þannig sýnilegri öðrum leikhúsgestum. Uppástunga um að reyna að hafa eitt samstarfsverkefni milli Bandalagsins og Leikfélags Reykjavíkur á sýningunni. Hugmynd kom fram um að nota verkin sem unnu til verðlauna í nýafstaðinni stuttverkakeppni Leiklistarvefjarins.
Rætt var um að leggja meira í fordrykk og setningu hátíðarinnar.
Nú hefur verið reynt að hafa hátíðir með og án forvalsnefnda sem velja sýningar á hátíðir eftir gæðum. Nú þarf að setjast niður og meta hvernig til hefur tekist í hverju tilfelli og ákveða hvernig best er að halda áfram.
Rætt var um að kalla eftir hugmyndum frá félögum sem hefðu tekið þátt í þessum þremur hátíðum sem haldnar hefðu verið. Þarf ekki að vera mikið mál. Bara senda einn tölvupóst og athuga hverjir svara.
Ármann taldi hátíðina hafa aukið áhuga á uppsetningum stuttverka meðal félaganna.

Sérverkefni
1. Stefna að útgáfu Sögu Bandalagsins 1950 – 2000 á árínu.
Sögunefnd hittist í næstu viku.
Söguritari, Bjarni Guðmarsson, hefur beðið stjórn um að áveða útgáfudagsetningu. Ákveðið var að stefna að því að bókin kæmi út fyrsta maí 2007.

2. Halda haustfund og málþing um Leiklistarskóla Bandalagsins.
Búið.

3.Athuga möguleika Bandalagsins á að gera leikritasafnið að formlegu safni.
Ekkert gerst síðan á síðasta stjórnarfundi.

4. Kannaður rekstrargrundvöllur búningasafns á grunni hugmynda Þjóðleikhússins.
Nefndin hefur fundað og málið er í farvegi.

5. Að skipuð verði nefnd sem kanni möguleika á því að Bandalagið kaupi eða taki að sér rekstur Húsabakka eða sambærilegrar eignar.
Stjórn telur að störfum nefndarinnar sé alls ekki lokið og óskað eftir því að hún skili skýrslu í samræmi við skipunarbréf á næsta aðalfundi.

Önnur mál

Undirbúningur vegna námskeiðs í stjórnun leikfélaga 18.11.
Dagskrá liggur fyrir.

Aðalfundur á Egilsstöðum 4.–6. maí 2007
Tímasetning samþykkt, 4.–6. maí. Rætt var um að hafa aftur námskeið í stjórnun leikfélaga. Ingólfi þótti tíminn á síðasta aðalfundi of knappur. Menn telja annars að einn og hálfur dagur sé yfirleitt nóg til hefðbundinna aðalfundarstarfa en það ber þó að hafa í huga að nokkrar nefndir eru starfandi í nokkuð stórum málum sem gæti kostað töluverðar umræður.

Úr fundargerð stjórnar frá 1. júlí 2006:
Tölvupóstur
Farið fram á stjórnarmeðlimir svari stjórnartölvupósti, hvort sem þeir hafi eitthvað um viðkomandi mál að segja eða ekki. Láta alla vega vita að menn hafi lesið póstinn.
Aðeins var rætt um umræður og afgreiðslu mála í tölvuósti. Ítrekað var við stjórnarmenn að láta vita að þeir hefðu séð tölvupóstinn og einnig ef þeir kæra sig ekki um að ræða málin skriflega, að óska þá eftir því að málið bíði afgreiðslu fram að næsta stjórnarfundi.

Umsókn nýs leikfélags.
Umsókn Leikfélagsins Peðsins samþykkt með fyrirvara um að félagið fái kennitölu og samþykki aðalfundar.

Næsta stjórnarfund þarf að halda í það minnsta mánuði fyrir aðalfund. Ákveðið var að taka frá helgina 23. – 25. mars fyrir stjórnarfund. Hvar hann verður haldinn og hve langur hann verður, verður ákveðið síðar.

Fundargerð ritaði Sigríður Lára Sigurjónsdóttir. 

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 17. nóvember 2006 448 21 desember, 2006 Fundir desember 21, 2006

Áskrift að Vikupósti

Karfa