Stjórnarfundur 14. mars 2007

Bandalags íslenskra leikfélaga miðvikudaginn 14. mars kl. 17.30.
Haldinn að Laugavegi 96, 101 Reykjavík.

Mættir: Guðrún Halla Jónsdóttir, Lárus Vilhjálmsson, Þorgeir Tryggvason, Ingólfur Þórsson, Ármann Guðmundsson, Guðfinna Gunnarsdóttir, Vilborg Valgarðsdóttir.
Fundarritari: Sigríður Lára Sigurjónsdóttir.

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar
Síðasta fundargerð samþykkt.
Vilborg sagði frá því að Leikfélagið Peðið hefur fengið kennitölu og annað sem vantaði í umsókn þeirra á síðasta stjórnarfundi.

2. Starfsáætlun 2006-2007 yfirfarin

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar
Allt við það sama. Fjárhagur kemur betur fram í ársreikningi sem verður skoðaður í dagskrárlið um undirbúning aðalfundar.

2. Viðhald fasteignar.
Framkvæmdastjóri sagðist ekki farinn að útvega skoðunarmann, sem hann tók að sér á síðasta stjórnarfundi. VÍS er ekki búið að laga gluggann, eins og þeir voru þó búnir að lofa að gera. Eigendur á neðstu hæð vilja fara að funda um framvæmdir sem þarf að fara að gera á húsinu að utan, þar sem byggingaframkvæmdir við hliðina eru búnar að mestu. (En viðhaldi á okkar húsi var frestað vegna þeirra á sínum tíma.)
Leki hefur gert vart við sig á efri hæð undanfarið, en erfiðlega hefur gengið að fá iðnaðarmenn til starfa.
Lárus spurði hversu miklar fjárhæðir þetta gætu orðið fyrir Bandalagið.
Svar: Verktaki þyrfti að taka verkið út og gera tilboð. Meira verður vitað eftir fund með öðrum eigendum.
Þorgeir taldi að um þrjár aðskildar framkvæmdir væri að ræða:
– Skoðunarmenn á tjón sem framkvæmdir í næsta húsi hefðu valdið.
– Endurbygging á handritasafnsálmu
– Framkvæmdir utan á húsinu, á framhlið og bakhlið, sem var frestað á sínum tíma.

Rætt var um að setja eignina á sölu til að komast að því hvaða verð myndi hugsanlega fást fyrir hana. Síðan yrði fjárfest í öðru húsnæði sem:
a) Væri minna miðsvæðis og þar með ódýrara.
b) Væri á jarðhæð eða í lyftuhúsi og þar með væri aðgengismálum kippt í lag.
c) Væri ekki fyrirsjáanlegt að leggja þyrfti í viðlíka viðhaldskostnað á næstunni.
d) Hefði hugsanlega þá kosti að hægt væri að loka búðinni þó verið væri að funda eða vinna á skrifstofunni, og hefði hugsanlega einhvers konar kennslustofu þar sem mætti hugsa sér að halda fundi, fyrirlestra og námskeið.

Talið er að fermetraþörf þjónustumiðstöðvar myndi einnig minnka með rafrænu handritasafni.

Ákveðið var að þreifa á málinu á aðalfundi.

3. Ársritið kom út í september.

4. Leiklistarskóli Bandalagsins
Almenn ánægja ríkti með námskeiðaframboð ársins. Halaleikhópnum var sendur tölvupóstur vegna staðsetningar förðunarnámskeiða þar sem tekið var fram að hægur vandi væri að halda námskeiðið í húsnæði Halaleikhópsins er einhver ætlaði á það sem kallaði á aðgengi fyrir fatlaða.

5. Leiklistarvefurinn
Lið um vefmál frestað þar sem Lénsherra mætir síðar á fundinn.

6. Hækkuð framlög úr opinberum sjóðum
Vilborg, Halla og Lárus voru á fundi í Menntamálaráðuneyti fyrr um daginn. Ráðuneytisfólk boðaði fundinn. Þær voru aðallega að spyrjast fyrir um starfsemina en þótti þeim ólíklegt að meiri hækkana á framlagi til Bandalagsins væri að vænta. En óljóst var um tilgang fundarins af hálfu ráðuneytisins. Hugsanlega er verið að vinna einhverjar skýrslur. Spurningar sneru mikið að landbyggðinni.

Rætt um upplýsingapakka og hvort er ráðlegt að gera aðgerðaáætlun um að stjórnarmenn ræði við þingmenn og frambjóðendur í aðdraganda kosninga. Stjórn á fulltrúa í öllum kjördæmum. Tala þarf við efstu menn á öllum listum allsstaðar.

Halla lagði til að allir fengju einhverja með sér í öllum kjördæmum til að ræða við frambjóðendur um málefni Bandalagsins og leikfélaganna. Einnig þarf að leggja að leikfélögum að bjóða frambjóðendum á sýningar.

Þorgeir lagði til að sendur yrði tölvupóstur á leikfélög og stjórnir hvattar til að bjóða frambjóðendum stjórnmálaflokka á sýningar í vor. Einnig væri hægt að útbúa dreifimiða um starfsemi Bandalagsins til að afhenda frambjóðendum sem mæta á sýningar.
Lárus og Þorgeir tóku þetta að gera þetta og töldu að þetta þyrfti að vinnast hratt, ef einhver árangur ætti að nást af kosningavorinu.

Þorgeir taldi að skrifa þyrfti greinar í blöð og ýta jafnvel við gömlum formönnum og öðrum Bandalagssinnum til að gera slíkt.

Halla sagðist skulu tala við Kristján Hjartarson og einhvern annan fyrir norðan.

Vilborg talar við Einar Njálsson og Sigrúnu Valbergs.

Áskorun um greinaskrif almennt fylgi með áskorun um að bjóða mönnum á sýningar.

Guðfinna talar við Guðna Ágústsson og Margréti Frímannsdóttur.

7. Samstarf við Þjóðleikhúsið
Skrifstofan mun setja sig í samband við Þjóðleikhúsfólk fyrir aðalfund og komast að því hvort einhver úr nefndinni mæti á aðalfund.

8. Margt smátt
Í nefnd um málið sitja Ármann Guðmundsson, Hrund Ólafsdóttir og Ólöf Þórðardóttir. Nefnd fór seint af stað. Ármann náði loks í Steinunni Knútsdóttur fyrir skömmu og bað um dagsetninguna 19. maí. Taldi hún öll tormerki á þessu.
Hugmyndir nefndarinnar voru að hafa hátíðina á laugardegi og taka daginn í hana. En að aðstandendur hittust annars staðar um kvöldið. Þetta þyrfti þess vegna ekki ekki að rekast á við aðrar sýningar. Ákveðið var að Ármann reyndi að ná betra sambandi við Steinunni og útskýra þessar hugmyndir. Þetta þyrfti að gerast sem fyrst varðandi kynningar út í félögin.

Ingólfur tók fram að hann vildi heldur láta halda einþáttungahátíðir í tengslum við aðalfundi vegna ferðakostnaðar.
Halla spurði hvort menn hefðu tilfinningu fyrir þátttöku.
Þorgeir: 20% af virkum félögum tóku þátt síðast. Sum félög þurfa að ferðast styttra en önnur. En þau félög sem styst þurfa að fara eru líka aðilar að Bandalaginu. Ef einhverjir senda aldrei fulltrúa bæði á aðalfund eða hátíð, er ekki hægt að nota sömu rök um skólann?
Lárus minnti á niðurstöðu síðasta aðalfundar, að halda Margt Smátt annað hvert ár í Borgarleikhúsinu og þess á milli í tengslum við aðalfund. Hann taldi víst að félögum sem sæktu þessar hátíðir færi ekki fjölgandi.
Ármann benti á að hátíðir úti á landi hafi líka verið best sóttar af leikfélögum frá höfuðborgarsvæðinu.
Þorgeir taldi ljóst að víkka þyrfti þátttökuskilyrði á Margt smátt og opna möguleika á að koma með hálftímaleikrit. Núverandi lengdarmörk miði við vinnulag þriggja félaga, allra á höfuðborgarsvæðinu.
Guðfinna taldi stuttverkaformið vera að breiðast út.
Þorgeir vildi hvetja félög sem væru að vinna með formið til að koma með verkin á hátíðirnar. Síðast var vitað af félögum sem höfðu verið með einþáttungasýningar um veturinn, en mættu samt ekki á hátíð.
Guðfinna minnti á fósturfélög. Sagði þurfa að kynna hátíðina betur fyrir þeim betur og hringja í formenn, enn einu sinni.
Ármann festir dagsetningu í haust ef ekki næst samkomulag um 19. maí.

Embla Guðmundsdóttir mætir til fundarins.

Sérverkefni


1. Saga Bandalagsins

Sigrún Valbergsdóttir er að gera lista yfir fólk til að bjóða til að vera með í Tabúla gratorum. Hönnuður hjá Hvíta húsinu ætlar að hanna kápu.
Halla spurði hvenær hægt yrði að handfjatla gripinn?
Þorgeir sá ekkert því til fyrirstöðu að það yrði í maí. Bjarna Guðmarssyni, ritstjóra, þótti dagsetningin 1. maí alls ekki ómöguleg sem útgáfudagsetning. Nú á eftir að finna nokkrar myndir og lesa endanlega próförk.
Vilborg sagði ekkert hafa heyrst frá Bjarna síðan á síðasta fundi. Þegar kápan er tilbúin þá verður farið að selja í forsölu.
Þorgeiri þótti líklegt að sala bókarinnar færi langt með að borga kostnað við útgáfu, allt nema ritlaun.
Guðrún Halla lagði til að 3 fengju bókina gefins: Forseti Íslands, forseti alþingis og menntamálaráðherra. (?)

Hörður Sigurðarson og Hrund Ólafsdóttir mæta til fundarins.

Fjórða lið á fundardagskrá skotið inn, þar sem mikilvægt er að Hörður segi frá nýjustu þróun í því máli.

4. Gagnrýni Morgunblaðsins
Hörður skýrði frá fundi sem hann, Ármann og Vilborg sátu fyrr um daginn með Ingvari vefstjóra Morgunblaðsins og Fríðu Björk, ritstjóra menningarmála.
Þau lögðu til að við Bandalagið stofnaði Moggablogg og ætti þar með möguleika á að fréttir yrðu teknar af því inn í blaðið og fengju að hafa hlekk inni á mbl.is í einhvern tíma. Hörður spurði sig til hvers það væri. Þarna væri vissulega mikil umferð og gæti hugsanlega skilað einhverju inn á Leiklistarvefinn. Hörður sagði það mögulega vinnunnar virði að prófa það.

Rætt var um hvaða kosti svona blogg hefði umfram okkar eigin vef og hvort það myndi auka eða minnka vinnuna við hann.
Lénsherra taldi að efnið yrði nokkurn veginn það sama, við myndum nota fréttir af Leiklistarvefnum á bloggið.
Vitað var um dæmi þess að þessi blogg og bloggvinakerfi mbl.is hafi verið notað til að auglýsa sýningar.
Þorgeir spurði hvað Mogginn væri í rauninni að bjóða.
Vilborg sagði það vera kynningu á forsíðu mbl.is í ákveðinn tíma.
Hörður sagðist einmitt hafa spurt að þessu sama, en fengið loðin svör. Það sem stæði eftir væri umferðin sem hugsanlega gæti skilað umferð inn á Leiklistarvefinn. Einfaldasta formið á blogginu væri að taka hausa úr fréttunum á Leiklistarvefnum og setja á bloggið.
Þorgeir taldi þetta eingöngu vettvang fyrir fréttir, ekki greinar.
Halla velti upp möguleika á að fá greinar úr Morgunblaðinu til að birta á okkar vef sem hluta af einhverju samstarfi.
Þorgeir taldi að ekkert gerði til að prófa þetta. Gerði þó athugasemd við að Morgunblaðsmenn settu þetta fram sem tilboð, sem það væri ekki.
Hörður: Hugsanlega væri eitthvað sett inn á forsíðuna á mbl.is. Sársaukalaust að prófa.

Heyrst hefur að Morgunblaðsmenn ætli að skrifa umfjallanir um uppsetningar á nýjum íslenskum leikverkum.

Annað sem myndi bætast við væri kosturinn að hafa umræður við fréttir. Hörður sagði reyndar að til stæði að gera svoleiðis á leikist.is. Auk fleiri fréttaflokka.

Hrund: Hefur aldrei séð Þjóðleikhústengilinn þrátt fyrir að fara oft á mbl-vefinn. Mun fólk sjá þetta blogg? Henni þótti menn á Morgunblaðinu vera að firra sig skömminni að hafa klúðrað gagnrýnimálum.
Hörður sagðist halda að áherslan hjá Moggamönnum væri að gera sinn vef eins sterkan og mögulegt væri.
Þorgeir sagðist sjá þetta sem gagntilboð við gagnrýnimálunum, sem væri þó alveg óskylt.
Lárus sagði þetta ekki snúast um gagnrýnimálin.
Hörður sagði að þarna gilti sama hugsun og á bakvið fjöldasendingar. Í krafti magnsins sem fer um mbl.is er verið að ímynda sér að einhver umferð "leki" inn á Leiklistarvefinn.
Lárus taldi Morgunblaðsmenn vera að kynna þennan möguleika. Auk þess sem hann væri að fá sér ókeypis menningartengt efni. Tenging við gagnrýnina er engin. Við vorum beðin að finna gagnrýnendur í héraði. Nú er búið að slá það af. Á að hringja í Styrmi?

Hvers vegna var fjallað um Nemendamót Verzlunarskólans en ekki aðrar frumuppfærslur áhugaleikhúsa á leikárinu?

Þorgeir taldi klókt að prófa þetta. Setja inn fréttir af leiklist.is, en ekki tilkynningar frá atvinnuleikhúsum. En leit ekki svo á að gagnrýnimálum sé lokið. Vill að Morgunblaðsmenn standi við stóru orðin varðandi ný íslensk verk.
Halla: Hvernig væri að tala við önnur blöð? Morgunblaðið er ekki lengur stórveldi á dagblaðamarkaðnum sem það var.
Hörður taldi ólíklegt að aðrir hafi fjárhagslegt bolmagn til að standa undir þessari umfjöllun.
Þorgeiri þótti mikilvægt að haldið yrði áfram að halda uppi þrýstingi um málið?
Ármann sagði frá því að Fríða Björk, ritstjóri menningarefnis segðist vera að leita að einhverjum til að skrifa um sýningu Halaleikhópsins.
Hrund þótti rétt að benda Morgunblaðsmönnum á að hugsanlega myndu nokkuð margir segja blaðinu upp ef ekkert yrði gert í þessu. Henni þótti einnig umhugsunarefni að nú vinnuálag á skrifstofu myndi aukast við að búa til blogg.
Þorgeir sagði þetta spurning um að setja hausana á fréttunum inn á bloggið, en síðan hlekki inn á Leiklistarvefinn.

Hrund velti upp spurningu um að nýta leikstjóra sem þrýstihóp. Spurning um að senda tölvupósta á leikara- og leikstjórafélagið.
Þorgeir taldi þurfa að senda félögum fréttir af því hvernig mál standa. Senda í formannapósti upplýsingar um að Mogginn muni gagnrýna frumflutt verk. Spurning um nýjar þýðingar eða leikgerðir. Um að gera að ganga eftir því líka. Kannski á þetta ekki einu sinni að bíða eftir formannapósti. Líka senda á leikara- og leikstjórafélög. Leggja áherslu á að þeir beiti áhrifum sínum.

Haft var eftir innanbúðarmönnum hjá Morgunblaðinu að hugsanlega mætti ná árangri með því að hóta því að segja upp blaðinu.
Ljóst er að þar þarf að gagnrýna er fleira og þetta er dýrt í ferðakostnaði. En hugsanlega myndu nokkur harðorð bréf myndu örugglega skila einhverjum árangri.

Hörður og Vilborg kynntu tillögu um að Leiklistarvefurinn finndi leið til að greiða fyrir faglega umfjöllun um sýningar á leiklistarvefnum. Spurning um að setja milljón á ári í það verkefni. Hugsanlegt að hvert félag gæfi eftir 20.000 kall á ári af styrknum og í staðinn yrði greitt fyrir umfjallanir á vefnum

Aftur að starfsáætlun.
5. Rekstur leiklist.is
(Liður úr aðalverkefnum starfsáætlunar sem frestað var áður og beðið eftir Herði lénsherra.)
Hörður sagðist hafa ýmsar hugmyndir. Spjallkerfið er lítið sem ekkert notað. Spurning um að setja hlekki inn á það beint við ákveðnar greinar. Eins væri gaman að hafa fleiri undirflokka í fréttunum. Umferð um vefinn er alltaf að aukast. Engin mikil stökk enn eykst hægt og sígandi. Allt í þokkalegu standi með vefinn. Hann var alltaf að detta út fyrir ári, en allt í lagi núna. Græja komin sem tékkar á honum á klukkutíma fresti. Hörður sagðist ánægður með þá sem þjónusta okkur núna.
Þorgeir spurði um örverkasamkeppnina, áform um uppsetningar og um að hala inn peninga fyrir verðlaunum.
Hörðursagði ekkert hafa gerst og spurði hvort einhver væri til í að leggjast í auglýsingasöfnun.
Þorgeir lagði til að gerður yrði listi yfir auglýsendur sem sæju hag sinn í að auglýsa á vefnum. Vefnefnd þyrfti að ganga í málið.
Halla spurði Hvað borði eins og Exton var með kostaði.
Hörður: 100.000 kall á ári. En minni og ódýrari borðar væru einnig vel þegnir.
Hörður tók að sér að taka saman tölulegar upplýsingar.

Þorgeir sagðist ekki viss um að það þyrfti að klípa af styrknum til að menn skrifuðu umfjallanir fyrir Leiklistarvefinn. Margir hefðu skrifað fyrir 5000 kall, eða bara frítt. Samt væri snyrtilegra að borga eitthvað.
Vilborg sagði að áætlaður kostnaður væri miðaður við mesta mögulega kostnað.
Þorgeiri þótti betra að tala frekar við þá sem færu á sýningar hvort sem er. Líklegra að menn vildu gera þetta fyrir 5000 kall á dóm. Þetta eru um 50 sýningar á ári, 5000 krónur á umfjöllun, 250.000 krónur í heildarkostnað.
Guðfinna velti upp hugmynd um landshlutapotta. Félög yrðu rukkuð um fyrir gagnrýni.
Vilborgu þótti líklegra að samþykkt yrði að styrkur lækkaði aðeins. Gagnrýnipottur upp á 500,000 sé tekinn af stóra pottinum til að setja að fá umfjallanir um öll verk á leiklist.is.
Höllu þótti kostur að allir fengju gagnrýni.

Lárus lagði til að tillaga um að greiða mönnum fyrir umfjallanir á leiklist.is verði lagt fyrir aðalfund undir starfsáætlunarlið um vefinn. Hægt að leggja fram tillögu og setja umræðuna inn í hópastarf.

2. Málþing í tilefni að 10 ára afmæli skólans
Haustþingi með málfundi um skólann er lokið.

3. Handritasafn
Ekkert hefur gerst í safnalagamálum.

4. Búningasafnið.
Ekkert hefur gerst.
Rætt var hvort ekki þyrfti að fara að gefa Þjóðleikhúsmönnum einhver svör. Rekstrargrundvöllur safnsins var ræddur. Komið hefur fram að Bifrastarmenn hafa ekki áhuga á dæminu sem verkefni fyrir nemendur. En síðan hefur reyndar verið komið á menningartengdu námi þar, svo ef til vill hefur staðan breyst. Einnig var rætt um samstarfsmöguleika við aðra skóla. Einnig var spurt hvort ekki væri hægt að gera eitthvað annað í málinu og hvort Bandalagsfólk þyrfti ekki meiri upplýsingar um reksturinn eins og hann var.

Hörður og Lárus sátu fund um málið á sínum tíma og töluðu við Tinnu Gunnlaugsdóttur og Hlín Agnarsdóttur. Málið er að safnið nýtist Þjóðleikhúsinu ekki nógu vel. En það vill hafa aðgang að safninu áfram. Það sem rætt var, var að þau væru tilbúin til að skoða samstarf og rekstrargrundvöll þar sem þau hefðu ekki ráð á starfsfólki til að afgreiða úr safninu. Spurning um að við tækjum yfir rekstur þeirrar eignar sem þetta búningasafn er.
Þorgeir: Spurning um hversu mikið okkar félög, eða aðrir, voru að nota þetta safn.
Hann lagði til að gert yrði gagntilboð. Þjóðleikhúsið megi eiga safnið. En Bandalagið útvegi starfsmann í útkallsvinnu hvers laun eru greidd með leigutekjum af búningum.

Rætt var um fjárhagslegan grundvöll, hvort okkar félög myndu nýta sér þetta, nú þegar fleiri og fleiri eru farnir að hanna nýja búninga, hver áhættan yrði af því að ráða starfsmann í safnið. Áhættan ætti ekki að vera nein, miðað við tillögu Togga.

Hægt að sækja um styrk til fjárlaganefndar stofnkostnað á safni.

Spurt verður hvort eitthvað liggi á svari eða um nánari hugmyndir af hálfu Þjóðleikhússins þegar haft verður samband vegna Athygliverðustu áhugasýningar ársins á næstunni.

5. Húsnæðisnefnd skólans.
Gréta er formaður þessarar nefndar. Reiknað er með að nefndin skili skýrslu á aðalfundi.

3. Aðalfundur 2007 undirbúinn

Aðalfundur verður haldinn á Hallormsstað. Fundarstjóri og ritari verði fundnir á staðnum.
Verðtilboð hefur borist að austan og þótti mjög gott. Fólk þyrfti reyndar sjálft að borga í rútu.

Talað hefur verið um að hefja fund á föstudagskvöldi ef vill.
Rætt var um hvort hefja ætti hefðbundin aðalfundarstörf strax á föstudagskvöldi eða gera eitthvað annað við þann tíma. Nokkuð hefur verið í umræðunni að aðalfundir séu fastir í forminu og lítill tími gefist til að ræða önnur mál sem hvíla á félögunum. Einnig var rætt um ágæti hópastarfs og hvort tími væri kominn til að endurskipuleggja það eitthvað. Einnig var rætt um ánægju manna á haustfundi með opnar umræður um allt mörgulegt sem félögin voru að glíma við.
Þorgeir sagði sjaldan tíma til að ræða stór og mikil mál sem hvergi væri pláss fyrir undir liðnum önnur mál. Þessi liður væri iðlulega á milli 10 og 12 á sunnudagsmorgni og aldrei væri nógur tími.

Ákveðið var að halda opinn umræðufund á föstudagskvöldi. Spennandi útgangspunktar verði settir í fundarboð. Möguleiki á að út úr þeim fundi komi tillögur fyrir aðalfund.
Guðfinna mælti með því að stjórn yrði öll mætt og sýnileg á fundinum.

Ársreikningar
Lárus spurði hvort væri lengur þörf á að senda félögum greiðsluseðla, nú þegar flest félaganna eru komin með heimabanka.
Vilborg sagði árið 2006 vera meðalár í sölu. Sala á farða jókst, en salan var óvenjulítil árið 2005.
Búið er að segja vatnsvélinni upp, en af henni þótti of mikill kostnaður.
Liður sem heitir handritakostnaður er kostnaður við ljósritunarvél.
Skammtímaskuldir eru óviðunandi háar. Yfirdrátturinn er mismunandi eftir því hvenær árs er. Staðan er í raun alltaf slæm um áramót.
Spurt var hvort einhver leið væri út úr yrirdrættinum, til dæmis með því að taka veðlán út á húsnæðið, en ákveðið var að bíða með að skoða það, sérstaklega ef ætti að fara að selja.
Þorgeir spurði um möguleika á niðurfellingu fasteignagjalda? Hugleikur sótti einhverntíma um, fékk reyndar synjun, en hann taldi þennan möguleika samt athugandi. Í umsókn væri hægt að höfða til Borgarinnar varðandi þjónustu við grunnskóla og fleira.
Reikningar samþykktir og undirritaður af stjórn.

Tillaga að starfsáætlun 2007-2008
Aðalverkefni verði þau sömu og síðasta leikár, fyrir utan áttunda lið, liðinn um Margt smátt. Hann fellur út.

Sérverkefni verði einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2008 og undirbúningur NEATA hátíðar 2010. Önnur sérverkefni gætu komið á aðalfundi.

Þorgeir spurði hvort menn í stjórnarkjöri ætluðu að bjóða sig fram til endurkjörs.
Varamenn sem voru á staðnum sögðu svo vera. Aðalmenn í kjöri kváðust ekki hafa tekið ákvörðun enn.

Viborg sagðist munu ræða við Þráinn Sigvaldason á Egilsstöðum um að finna fundarstjóra í héraði. Hún talar einnig við kjörstjórn.


4. liður í áður auglýstri dagskrá, gagnrýnimál Morgunblaðsins, hafði þegar verið afgreiddur.

5. Önnur mál

Breytt styrkjakerfi frá Norrænu ráðherranefndinni
Lárus vakti máls á ástandinu í málum Nordisk Amateur Teaterraad. Nú er verið að breyta reglum um úthlutun styrkja frá Norrænu ráðherranefndinnni.
Halla var á leið til Lettlands á fund með stjórnum NAR og NEATA. Bæði NAR og NEATA þurfa að skoða þetta nýja kerfi þar sem fastir styrkir til stjórnunarhluta samtakanna falla út. Allir þurfa í framtíðinni að sækja um styrk í verkefnasjóð, árlega. Stjórnunarhlutinn er innifalinn í hverju verkefni fyrir sig. Rekstrargrundvöllur NAR og NEATA er þar með ekki lengur til.
Þorgeir spurði hvort þetta þýddi að við þyrftum að við að haga undirbúningi Leiklistarhátíðar NEATA 2010 með einhverjum öðrum hætti en áður hefur verið gert.
Halla sagði erfitt hafa verið að fá skýr svör um málið.
Lárus sagði þetta þegar hafa gerst í öðrum norrænum samstarfsstofunum. Núna væru peningarnir í potti og enginn vissi hvernig ætti að nálgast þá. Málin væru öll í þróun og ekki virtist búið að semja reglurnar. Þannig að NEATA-hátíðin okkar gæti verið í hættu.
Halla kom með hugmynd um að ráða fólk í u.þ.b. tveggja mánaða vinnu við að vinna umsókn til Evrópusambandsins. Það tekur tíma að útbúa svoleiðis og mikla nákvæmni þarf í vinnubrögðum.
Vilborg sagði vera til skrifstofur tækju að sér að fara yfir slíkar umsóknir.
Halla stakk upp á að einhver yrði sendur á námskeið í því.
Lárus sagði einhvern hjá NAR þurfa að kunna þetta. Skrifstofa NAR getur haldið áfram starfsemi leggi hún meiri áherslu á að kunna að sækja um styrki.
Halla taldi sniðugt væri að eitthvert norræna bandalagið tæki þetta að sér. Halla hefur farið á svona námskeið. Hún sagði þetta kost mikla og nákvæmni. En nái umsóknin í gegn fái umsækjandi hins vegar fullt af peningum. Eftir á þarf síðan að vinna skýrslu um málið.

Aðgengi á Eiðum
Skólanefnd og Guðrún Halla koma til með að skoða húsakynni á Eiðum, fyrst og fremst með aðgengi í huga annað hvort síðdegis á föstudegi eða sunnudegi um aðalfundarhelgi. Hafa þarf samband við staðarhaldara og skólanefnd og fastsetja tímann.

Fulltrúi á IATA-hátíð
Spurning er hvort Bandalagið ætlar að senda fulltrúa á IATA-hátíð í Suður-Kóreu á aðalfund IATA. Það kostar um 130.000 kr. að fara þangað. Fyrir 15. apríl þarf að vera búið að tilkynna hvort fulltrúi frá Bandalaginu verði á fundinum. Árgjald þarf að borga fyrir marslok ef við ætlum að hafa atkvæðisrétt.
Þorgeir stakk upp á að fulltrúi yrði ekki sendur, eða allavega ekki styrktur til fulls. Menn væru öðrum þræði að fara á leiklistarhátíð.
Lárusi þótti brýnna að einhver, eða einhverjir, færu á hátíð í Lettlandi á næsta ári, þar sem fjárhagsstaðan væri slæm. Han benti einnig á að fulltrúar frá Íslandi yrðu á svæðinu, þó þeir yrðu ekki á fundinum.
Halla sagði Íslendinga þá verða einu Norðurlandaþjóðina sem ekki ætti fulltrúa á fundinum.
Spurt var hvernig atkvæðamálum væri háttað.
Vilborg: Við eigum 6 atkvæði. Gert er ráð fyrir að stjórn og framkvæmdastjóri hafi atkvæði. Hún sendir stjórn upplýsingar um dagskrá um leið og hún berst. Ákvörðun verður tekin í tölvupósti.

Fósturfélög
Guðfinna mæltist til þess að stjórnarmenn hringdu í sín fósturfélög fyrir aðalfund. Til að tala um aðalfundinn og e.t.v. skólann. Og heyra ofan í menn um hvað væri að gerast hjá félaginu. Það kæmi alltaf eitthvað út úr því.

Undirbúningur NEATA-hátíðar
Þorgeir sagði frá fundi sem þeir Lárus héldu um undirbúning NEATA-hátíðar. Fyrsta mál á dagskrá þótti þeim að hanna spurningalista til að senda þeim sem hafa haldið síðustu tvær NEATA-hátíð þar sem ástæðulaust væri að finna hjólið upp oft.
Lárus taldi einnig brýnt að hefja strax leitina að kostunaraðila. Koma upp góðu PR-plaggi um hvað hátíðin þýðir fyrir Bandalagið og fyrir hugsanlega kostunaraðila. Hann hefur reynt þetta og það hefur skilað árangri. Þetta gefur til kynna ákveðna fagmennsku.
Sýna þarf fram á að Bandalagið ráði við svona stórt verkefni.
Akureyri er ekki geirnegld sem staður, en hentar vel.

Fundi slitið.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 14. mars 2007 524 13 apríl, 2007 Fundir apríl 13, 2007

Áskrift að Vikupósti

Karfa