Stjórnarfundur 9. júlí 2010

Stjórnarfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
Haldinn í Þjónustumiðstöð Bandalagsins 9. júlí 2010

Fundur settur kl. 15.00

Mætt: Þorgeir Tryggvason, Guðfinna Gunnarsdóttir, Halldór Sigurgeirsson, Ólöf Þórðardóttir, Hjalti Stefán Kristjánsson, Halla Rún Tryggvadóttir, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Vilborg Valgarðsdóttir og Ármann Guðmundsson.

1. Úthlutun styrkja Menntamálaráðuneytisins vegna leikársins 2009-2010.

Ákveðið að hafna umsókn Borgarbarna um sérstakt frumkvæði vegna Ævintýraprinsins og Maríu, asnans og gjaldkeranna.

Ákveðið að veita Halaleikhópnum frumkvæðisstyrk vegna umfangsmikillar tónlistar og hljóðmyndar í Sjöundá og Reköldin.

Ákveðið að veita Hugleik frumkvæðisstyrk vegna mikillar frumsaminnar tónlistar í Rokki.

Ákveðið að hafna umsókn Leikfélags Fljótsdalshérað um sérstakt frumkvæði fyrir Elvis – leiðin heim vegna breytinga á sýningarhúsnæði.

Ákveðið að hafna umsókn Leikfélags Hafnarfjarðar um sérstakt frumkvæði vegna spunasýningarinnar Hótel Paradís. Einnig er umsókn um styrk vegna námskeiðs hafnað þar sem leiksýningin var afrakstur þess og ekki er veittur styrkur fyrir námskeið sem enda með styrkhæfri sýningu.

Ákveðið að hafna umsókn Leikfélags Hólmavíkur um sérstakt frumkvæði vegna samstarfs við skóla.

Ákveðið að samþykkja umsókn Leikfélags Kópavogs um sérstakt frumkvæði fyrir Umbúðalaust vegna afar skemmtilega útfærðrar leikmyndar.

Ákveðið að samþykkja umsókn Leikfélags Mosfellssveitar um sérstakt frumkvæði fyrir Mjallhvít vegna frumsaminnar tónlistar.

Ákveðið að samþykkja umsókn Leikfélags Selfoss um sérstakt frumkvæði fyrir Birting vegna afar vel útfærðar og viðamikillar leikmyndar.

Ákveðið að hafna umsókn Leikfélags Seyðisfjarðar um frumflutning á Blúndum og blásýru þar sem breytingar á handriti veita ekki tilefni til þess. Leikmynd er heldur ekki nógu sérstök til að verðskulda frumkvæðisstyrk. Þátttakendalista fyrir förðunarnámskeið vantar.

Ákveðið að samþykkja umsókn Leikfélags Sólheima fyrir Þar sem sólin á heima um sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.

Ákveðið að samþykkja umsóknir Leikfélagsins Peðsins fyrir Grandlendingasögu og Komið og farið um sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.

Ákveðið að samþykkja umsókn Umf. Eflingar fyrir Ólafíu um sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.

Þátttakendalista vantar frá Umf. Skallagríms vegna námskeiðs.

Umsókn Leikfélags Ölfuss um styrk vegna útvarpsleikrita hafnað.

2. Starfsáætlun leikársins 2010-2011 yfirfarin:

1. Vilborg hefur ná samningi við leigusala um að leigja Suðurlandsbraut 16 fram til áramóta og lækkun á leigu um 100.000 kr. á mánuði. Fyrsta skólaár Leiklistarskóla Bandalagsins á nýjum stað að Húnavöllum tókst í alla staði vel. Hins vegar stóð skólinn ekki undir sér þar sem ýmsilegt var ekki innifalið í verðinu sem var það á Húsabakka og margt ófyrirséð þegar starfsemin er flutt á nýjan stað. Þetta leiddi til þess að skólinn var rekinn með rúmlega 300.000 kr. halla.

2. Vilborg var kölluð á fund með fulltrúa menntamálaráðuneytis, formanni Sjálfstæðra leikhópa og forseta Leiklistarsambands Íslands með það að markmiði að finna flöt á því að samnýta á einhvern hátt þær 11,5 milljónir sem þessum samtökum er samanlagt eyrnamerkt á fjárlögum ársins 2010. Ekki fannst sá flötur.

Þorgeir formaður, Vilborg framkvæmdastjóri og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður, fóru á fund með Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Karitas Gunnarsdóttur deildarstjóra menningarsviðs menntamálaráðuneytisins. Þau gerðu þeim grein fyrir starfsemi Bandalagsins og lögðu sérstaka áherslu á þátt Þjónustumiðstöðvarinnar í þeim tilgangi að reyna að hífa framlag ríkisins upp á næsta ári. Í framhaldi af hugmyndum menntamálaráðuneytisins um einhvers konar samnýtingu Bandalagsins og annarra listastofnanna á húsnæði o.þ.h., benti Þorgeir á að Íslenska tónverkamiðstöðin er með svipaða starfsemi og Bandalagið fyrir tónlistargeirann. Þorgeir telur einsýnt að halda verði áfram að beita fjárlaganefnd og þingmenn þrýstingi til að verja styrki til áhugaleiklistarstarfs í landinu.

3. Þorgeir greindi frá reynslu Hugleiks af sýningunni á Rokki í Þjóðleikhúsinu. Kvaðst ánægður með hana en Þjóðleikhúsið hefði verið mjög undirmannað sem hefði getað leitt til vandræða ef eitthvað hefði út af borið. Sem gerðist þó ekki.

NEATA-hátíð á Akureyri
Undirbúningur fyrir NEATA-hátíð á Akureyri 10.-15. ágúst í fullum gangi. Nú liggur mest á að vinna að kynningarmálum. Ármann og Þorgeir ætla að fara í þau í samvinnu við norðanmenn. Þorgeir ætlar að vera í sambandi við Rúnar Guðbrandsson leikstjóra varðandi opnunarathöfnina sem verður í Hofi.

Vilborg, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir umsjónarmaður þjónustumiðstöðvar hátíðarinnar og Benedikt Axelsson yfirtæknistjóri fara til Akureyrar í næstu viku og hitta norðanfólk og fara yfir stöðuna þar.

3. IATA-hátíðin í Tromsö 2011

Ísland hefur þegar sótt um sem þátttökuland. Nú þarf að auglýsa eftir sýningu og skipa til þess valnefnd ef sótt er um fyrir meira en eina sýningu. Niðurstaða þarf að liggja fyrir ekki seinna en 14. september en þá þarf að senda öll umbeðin gögn til Noregs.

4. Leikritasafn Bandalagsins

Ármann lagði fram drög að reglum Leikritasafnsins sem eru í raun þær verklagsreglur sem unnið hefur verið eftir á þjónustumiðstöðinni. Í þeim hefur ekki verið tekið á rafrænni dreifingu en ljóst er að hún yrði eingöngu á PDF-formati. Meðal þess sem nefndin leggur til er að rætt verði við réttindahafa um samþykki á miðlun handrita og samvinnu við öflun þeirra. Fundarmenn ekki á eitt sáttir um tillögurnar. Ákveðið að nefndin ræði til að byrja með óformlega við fulltrúa hlutaðeigandi aðila um einhvers konar samstarf.

5. Laun starfsmanna þjónustumiðstöðvar

Laun starfsfólks Þjónustumiðstöðvar eru skv. samningum endurskoðuð árlega. Ákveðið að formaður og varformaður kanni launaþróun og komi í framhaldinu með tillögur.

6. Boð á NAR-ráðstefnu í Osló 25. og 26. október 2010

Vilborg lagði fram boð frá Norðmönnum um NAR-ráðstefnu, svipaða og haldin var hér á landi fyrir tveimur árum. Þangað er boðið fjórum frá hverju Norðurlandanna. Beðið er upplýsinga um styrk frá Nordisk Kulturfond.

Fundargerð ritaði Ármann Guðmundsson

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 9. júlí 2010 413 28 júlí, 2010 Fundir júlí 28, 2010

Áskrift að Vikupósti

Karfa