Stjórnarfundur 9. janúar 2010

Haldinn í þjónustumiðstöðinni að Suðurlandsbraut 16 laugardaginn 9. janúar 2010 og settur kl. 10.00.

Mættir: Þorgeir Tryggvason, Hörður Sigurðarson, Guðfinna Gunnarsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Hjalti Stefán Kristjánsson, Vilborg Valgarðsdóttir og Ármann Guðmundsson.

Starfsáætlun 2009-2010

Farið sérstaklega yfir:
1.     Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni með tilliti til fjárveitinga ríkisins 2010.

Fjárveitingar ríkisins fyrir árið 2010 til skrifstofu Bandalagsins og verkefna aðildarfélaganna voru samþykkt svohljóðandi í fjárlögum:
* Til skrifstofunnar kr. 4.0 milljónir
* Til verkefna aðildarfélaganna kr. 20.0 milljónir
Upphæðin til verkefna félaganna var hækkuð verulega frá fyrstu tillögum en stóð í stað til skrifstofunnar miðað við þær. Lækkunin er 5,9 milljónir til verkefna og 3,5 milljónir til skrifstofunnar miðað við styrki fyrir árið 2009.
Vilborg lagði fram útreikninga sem sýndu rekstrartekjur- og kostnað á mánuði fyrir árið 2009. Tekjurnar voru að meðaltali 1,615,000 en kostnaðurinn 1,810,000 þannig að rekstrartap var um 195 þúsund á mánuði eða rúmlega 2,3 milljónir yfir árið. Þannig að ljóst er að þegar ríkisstyrkurinn lækkar úr 7,5 milljónum í 4 verður tapið enn meira og stefnir í allt að 6 milljónir samtals fyrir árið 2010. Þó er gert ráð fyrir tölverðum niðurskurði á t.d. erlendu samstarfi og fleiru sem rætt var um á haustfundinum.

Hvað er þá til ráða í húsnæðismálunum?
Við erum bundin af leigusamningi á Suðurlandsbrautinni til 15. ágúst en húsaleiga ásamt launakostnaði eru stærstu kostnaðarliðirnir.
Þrír kostir virðast vera í stöðunni varðandi húsnæðismálin:
* að leigja áfram á Suðurlandsbrautinni og reyn að semja um lægri leigu eftir 15. ágúst.
* að láta reyna á hvort hægt sé að rifta samningum við kaupanda Laugarvegsins og fara þangað aftur.
* að finna nýtt húsnæði og kaupa það.
Vilborg ætlar að tala við fasteignasalann sem sá um söluna á Laugarveginn um hvort mögulegt er að láta söluna ganga til baka og hvað það muni kosta okkur og við leigusalann á Suðurlandsbrautinni um möguleikann á lægra leiguverði, Guðfinna talar við fasteignasala um að finna nýtt húsnæði.

Leiklistarskólinn
Öllum sveitarfélögum á landinu var sent bréf með fyrirspurn um húsnæði fyrir Leiklistarskólann. Skólanefndin fór yfir svörin á fundi sínum þann 7. janúar.

Svör hafa borist frá 19 sveitarfélögum og er verið að skoða fjóra möguleika:
* Hafralækjaskóli í Aðaldal. Verður þó ekki í ár.
* Bíldudalur. Aðstaðan sem boðið er uppá er dreifð um allan bæinn en beðið hefur verið um verðtilboð.
* Hallormsstaður. Áhugi þar virðist fara dvínandi en fyrirspurn var send rekstraraðila til að taka af allan vafa.
* Húnavellir. Þar verður aðstaðan skoðuð þann 30. janúar en verðtilboð og staðarlýsing er mjög viðunandi.

2. Halda áfram undirbúningi NEATA-leiklistarhátíðar á Akureyri í ágúst 2010.

Þráinn Sigvaldason, Ólöf Þórðardóttir, Vilborg Valgarðsdóttir, Ingólfur Þórsson og Hörður Sigurðarson eru skipuð í framkvæmdanefnd svona til að byrja með. Þau fá síðan til liðs við sig fleira fólk eftir því sem verkefnin segja til um.
Hjalti Stefán Kristjánsson mun t.d. starfa með Herði að kynningarmálum og Þorgeir Tryggvason að vefmálum en Bandalagið mun taka yfir NEATA-vefinn fram yfir hátíð. Halldór Sigurgeirsson mun starfa með Ingólfi fyrir norðan og munu þeir í sameiningu safna saman fleira fólki til starfa.
Fyrirhugaður er fundur með norðanmönnum í janúar eða febrúar.
Hörður tók að sér að skrifa Dönum vegna yfirtöku á NEATA-vefnum.

Ákveðið var að umsóknarfrestur íslensku sýninganna yrði til 15. febrúar og endanlegt val staðfest fyrir 1. mars. Þá er hægt að kynna allar sýningarnar sem sýndar verða á hátíðinni samtímis í byrjun mars.
Nefnd til að velja íslensku sýningarnar á hátíðina verður skipuð þegar ljóst er hvaða sýningar sækja um.

Ákveðið var að bjóða dr. Danute Vaigauskaite, formanni Bandalagsins í Litháen, að vera annar af tveimur gagnrýnendum hátíðarinnar. Þetta var rætt við hana í Monaco í sumar og tók hún því mjög vel en hún hefur áður verið gestur á leiklistarhátíðunum á Akureyri. Stungið var uppá því að Þorgeir tæki að sér að vera hinn gagnrýnandinn, hann tók því vel en ekkert var þó ákveðið.

Ákveðið var að skrifa forseta Íslands og biðja hann að vera verndara hátíðarinnar.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 15.30.

Fundagerð ritaði Ármann Guðmundsson.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 9. janúar 2010 397 20 janúar, 2010 Fundir janúar 20, 2010

Áskrift að Vikupósti

Karfa