Stjórnarfundur 27.-28. október 2012

 

 

Bandalag íslenskra leikfélaga
Stjórnarfundur haldinn á Grjóteyri í Borgarfirði
27.-28. október 2012

Mætt: Þorgeir Tryggvason, Guðfinna Gunnarsdóttir, Halldór Sigurgeirsson, Þráinn Sigvaldason, Bernharð Arnarson, Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Vilborg Valgarðsdóttir og Ármann Guðmundsson.

1. Laugarvegur 96 – Málalok

Bandalagið seldi húseign sína að Laugavegi 96 í Reykjavík í júní 2008. Komið var að töluverðu viðhaldi á eigninni, sérstaklega að utanverðu, og hefði Bandalagið þurft að taka lán til þeirra framkvæmda. Kaupandi var Continental á Íslandi ehf., fyrirtæki sem er í eigu Andreasar Roth sem einnig er eigandi efstu hæðarinnar í sama húsi, ásamt því að eiga fyrirtækið CHI Sparibíll ehf., Fiskislóð 16 í Reykjavík. Kaupverðið var 26,8 mkr. og voru 3,5 mkr. greiddar við undirskrift kaupsamnings. Eftirstöðvar áttu að greiðast við afhendingu sem var 1. september 2008. Það dróst hins vegar á langinn og svo kom bankahrunið og allt sat fast. Það var ekki fyrr en 1. september 2010 sem næsta greiðsla kom, hún var 14,1 mkr. og enn voru því eftirstöðvar af kaupverði 9,2 mkr. Og við það sat allar götur síðan.

Þann 26. september 2012 barst bréf frá sýslumanninum í Reykjavík þar sem okkur var tjáð að nauðungarsala á eigninni færi fram þann 16. október 2012. Eggert Páll Ólason lögfræðingur var okkur til aðstoðar í málinu en því lauk með því að eigandi láns sem á eigninni hvíldi (að upphæð rúmlega 20 mkr.) bauð 18 mkr. og var eignin slegin honum þar sem mótframboð urðu ekki hærri. Mestar líkur eru á því að þessar 9.2 mkr. séu okkur því tapaðar en lögfræðingurinn ætlar að gera þá kröfu á lánseiganda að selji hann eignina með hagnaði renni hann til okkar. Það er alveg í hans valdi hvort eftir því verður farið.

Ákveðið að Vilborg skrifi aðildarfélögunum og geri þeim grein fyrir gangi málsins og lyktum.

Stjórn Bandalagsins þakkar Eggerti Páli Ólasyni lögfræðingi kærlega fyrir aðstoð og ráðgjöf varðandi málið en hann gaf alla sína vinnu.

2. Starfsáætlun

a) Rekstur þjónustumiðstöðvar og fastir liðir

Vilborg segir stefna í að reksturinn verði a.m.k. 2 mkr. í mínus um áramót að óbreyttu. Í árslok 2011 var rekstrartapið 7,5 mkr. svo aðhaldsaðgerðir og aukin tekjuöflun hafa skilað nokkru. Síðasti aðalfundur benti á nokkrar leiðir og samþykkti m.a. að sótt yrði um 10 styrki til fyrirtækja og stofnana. Þegar hér er komið sögu hefur verið sótt um 5 styrki og er niðurstaðan þessi:
Landsvirkjun – við fengum 350.000.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið – við fengum 700.000.
Arion banki sagði nei.
KEA sagði nei.
Landsbanki svarar í desember.

Sala á Allt fyrir andann, sögu Bandalagsins, hefur skilað um 340 þkr. það sem af er árinu. Í ársbyrjun var tilboð sent til allra bókasafna á landinu og eftir aðalfundinn keyptu mörg aðildarfélaganna bókina, frá 5 og upp í 21 eintak hvert.

Samkvæmt nýju fyrirkomulagi hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu fær Bandalagið ekki fjárframlag til rekstar þjónustumiðstöðvar á fjárlögum eins og áður, heldur þarf að sækja um í nýjan safnliðasjóð sem ráðuneytið mun úthluta úr árlega. Auglýst verður eftir umsóknum í sjóðinn á næstu dögum. Styrkir til starfsemi leikfélaganna eru áfram inni á fjárlögum og er upphæðin 16,4 mkr. vegna ársins 2013. Stjórn er sammála um að mikilvægt sé að báðir þessir liðir séu sýnilegir á fjárlögum, öðruvísi verði ekki tryggt að Bandalagið fái þessa styrki.

Leiklistarskóli Bandalagsins gekk vel á Húnavöllum í sumar og stóð rekstur hans undir sér.

Leiklistarvefurinn hefur verið rekinn með lágmarkskostnaði, engar nýjar uppfærslur eða viðbætur keyptar en þó hefur verið unnið að undirbúningi netsölukerfis innanhúss. Óvíst er hvenær það kemst í gagnið.

Sérverkefni

Námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðssetningu var haldið í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ 29. september og tókst ágætlega. 26 manns frá 13 leikfélögum sóttu námskeiðið. Stjórn þakkar Leikfélagi Mosfellssveitar og Ólöfu Þórðardóttur kærlega fyrir lán á húsnæði og góðar mótttökur.

Ákveðið að stefna að því að halda aðalfund Bandalagsins í Logalandi í Borgarfirði helgina 3.-5. maí 2013. Einþáttungahátíðin yrði þá haldin á föstudeginum 3. maí.

3. Verkefni frá aðalfundi 2013

Tekin fyrir tillaga sem vísað var til stjórnar um að félög greiði sem nemur gjaldi fyrir einn fulltrúa á aðalfund, hvort sem þau senda hann eða ekki. Stjórn telur að ekki sé grundvöllur fyrir slíkri ákvörðun. Í framhaldi af þeirri umræðu var ákveðið nota fósturfélagakerfið til að hvetja félögin til að mæta á aðalfund og hátíð.

4. Nýtt frumvarp til Sviðslistalaga

Fyrir alþingi liggur nýtt frumvarp til sviðslistalaga, lagt fram af mennta- og menningarmálaráðherra þann 16. október sl. Það telst til nýmæla hvað áhugaleikhúsið varðar að það er ekki minnst á það einu orði í þessum nýju lögum.

Rök ráðherra fyrir því eru m.a. þau að lögin fjalli eingögu um leiklist atvinnufólks og að starfsemi áhugaleikfélaga ætti að vera styrkt í gegnum menningarsamningana sem ráðuneytið hefur gert við sveitarstjórnir víða um land. Vilborg sendi strax tölvupóst til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, fjárlaganefndar Alþingis, allra alþingismanna og aðildarfélaga í Leiklistarsambands Íslands og mótmælti þessu ákveðið. Svar kom strax frá tveimur alþingismönnum, þeim Björgvini Sigurðssyni og Þránni Bertelssyni sem sögðu báðir að þetta yrði skoðað mjög vandlega. Forseti Leiklistarsambandsins sendi einnig strax erindi til formanns allsherjar- og menntamálanefndar, Skúla Helgasonar, og bað hann liðsinnis við okkar málstað.

Stjórn Bandalagsins er sammála um að það sé glórulaust að hvergi sé minnst á áhugaleikhús í Sviðslistarlögum og áhugaleiklistin verði þannig háð duttlungum stjórnmála- og embættismanna.

Þorgeir sagði að formið á styrkjakerfinu sem hingað til hafi verið notað væri framúrskarandi og ætti stóran þátt í öflugu áhugaleikhústarfi í landi. Leikfélögin þurfa að hafa þennan stöðugleika sem glatast gæti við að verða háð menningarsamningum við sveitarfélögin. Þar hafa þau enga tryggingu fyrir styrkveitingum frá ári til árs.

Þorgeir hefur sótt aðal- og fulltrúaráðsfund í Leiklistarsambandsins og segir þar fullan stuðning við að áhugaleikfélögin verði áfram inni í sviðslistalögum. Leiklistarsambandið ætlar að andmæla þeim atriðum í frumvarpinu sem eru ekki ásættanleg fyrir aðildarfélög þess og stofnanir.

Þrjú mikilvæg verkefni þarf að vinna sem fyrst:
1. Sækja um rekstrarstyrk vegna þjónustumiðstöðvar í nýjan sjóð.
2. Herja á fjárlaganefnd um að hækka styrki til starfsemi leikfélaga.
3. Senda alþingi athugasemdir okkar við frumvarpi til nýrra Sviðslistalaga.

5. Erlent samstarf

Ekkert leikfélag sótti um að fara á IATA-hátíðina í Mónakó 2013.

Þorgeir rakti síðustu samskiptin innan NEATA en þar var rætt um framboð aðildarlandanna í stjórnarstöður í IATA á aðalfundinum í Mónakó. Danir bjóða Villy Dall fram sem gjaldkera og hefur það framboð víðtækan stuðning innan NEATA.

Rætt hefur verið um hvort auka eigi samstarf á milli Evrópu-sambandanna þriggja, NEATA, CEC og CIFTA. Fundur um það mál var fyrirhugaður í október, Hilmar Joensen formaður NEATA sækir hann.

Talsverður áhugi ku vera fyrir fjölþjóðlegri stuttverkahátíð hér á Íslandi sem er á starfsáætlun NEATA 2013-14. Þar munu verða íslenskar og færeyskar sýningar og mögulega norskar og jafnvel frá fleiri NEATA-löndum. Við ráðum tímasetningu hátíðarinnar.

6. Önnur mál

Halldór ræddi möguleika á að leikfélögin taki sig saman í innkaupum á ljósum og öðrum tæknibúnaði. Þorgeir taldi að þetta væri eitthvað sem leikfélögin ættu að hafa frumkvæði að þótt sjálfsagt væri að þjónustumiðstöðin yrði þeim innan handar eftir því sem þyrfti, t.d. með kynningu á verkefninu.

Rætt um hvort að halda eigi stóra innlenda leiklistarhátíð 2015 en slíkar hafa verið haldnar á 5 ára fresti frá árinu 1990, með erlendri þátttöku á stundum. Ákveðið að bera málið undir aðalfund 2013.

Rætt hvort ekki væri gráupplagt að skipuleggja væntanleg hátíðahöld þannig:
a) Einþáttungahátíð samhliða aðalfundi – maí 2013
b) NEATA stuttverkahátíð – vor 2014
c) Stór hátíð í tilefni 65 ára afmælis Bandalagsins sumar 2015

Ákveðið að stefna að því að halda næsta stjórnarfund þann 16. mars 2013 (23. mars til vara).

Fundargerð rituðu Ármann Guðmundsson og Vilborg Valgarðsdóttir.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 27.-28. október 2012 482 26 nóvember, 2012 Fundir nóvember 26, 2012

Áskrift að Vikupósti

Karfa