Stjórnarfundur 24. mars 2012

Haldinn í þjónustumiðstöðinni að Kleppsmýrarvegi 8, Reykjavík

Mætt: Þorgeir Tryggvason, Guðfinna Gunnarsdóttir, Halldór Sigurgeirsson, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Ólöf Þórðardóttir, Þrúður Sigurðar, Vilborg Valgarðsdóttir og Ármann Guðmundsson

Fundur settur kl. 9.00

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar
Fundargerð síðasta fundar yfirfarin og samþykkt. Ekkert hefur gerst í afborgunum af húsnæðinu á Laugarveginum frá síðasta fundi og grípa þarf til aðgerða ef ekkert gerist á næstu dögum. Ekkert varð af samstarfi um varðveislu á íslenskum leikritum á erlendum málum þar sem Félag handritshöfunda ákvað að ganga heldur til samstarfs við danskan leikritabanka.

2. Starfsáætlun BÍL 2010-11

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Rekstur þjónustumiðstöðvar í járnum að venju. Bókanir í Leiklistarskólann ganga ágætlega og útlit fyrir góða aðsókn í sumar. Leiklistarvefurinn hefur haldið sínu striki og vill stjórn þakka Herði Sigurðarsyni fyrir mikið og óeigingjarnt starf við rekstur vefsins og tölvukerfis Bandalagsins.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Beiðni hefur verið send á menntamálaráðuneyti um hækkun framlaga á árinu 2013. Ákveðið að panta tíma hjá menntamálaráðherra til að fylgja henni eftir.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Samstarfið er í miklum blóma.

3. Aðalfundur 2012 undirbúinn:

a) Ársreikningur yfirfarinn og áritaður
Vilborg kynnti ársreikninginn fyrir árið 2011 fyrir stjórn. Engar athugasemdir gerðar og stjórn samþykkti reikninginn með undirskrift sinni.

b) Aðstaða og verð á Ísafirði
Tilboð bárust frá Hótel Ísafirði og Edinborgarhúsinu. Tilboði hótelsins tekið varðandi gistingu og morgunverð en fundurinn og allar aðrar máltíðir verða í Edinborgarhúsinu. Verðið verður samtals 26.000 kr. á manninn í tveggja manna herbergjum.
Hugmyndir eru um að safna fólki saman í rútur fyrir norðan og sunnan, sem myndu svo sameinast í eina í Staðarskála. Halldór Sigurgeirsson vinnur í málinu. Ekki verður skipulögð dagskrá á föstudagskvöldinu þar sem fólk verður líklega að rennan í bæinn fram eftir kvöldi.

c) Dagskrá aðalfundar
Ákveðið að leggja til að lagabreytingatillögur verði afgreiddar sem liður 6 á dagskrá aðalfundar og fari þar fram fyrir skýrslu stjórnar og reikninga á fundinum.

d) Stjórnarkjör
Guðfinna, Halldór og Ása Hildur eiga að ganga úr stjórn. Ætla öll að gefa kost á sér aftur. Halla Rún og Bernarð eiga að ganga úr varastjórn. Þau voru ekki á stjórnarfundinum en kjörnefnd mun kanna hug þeirra til framboðs fyrir aðalfund.

e) Lagabreytingar
Stjórn leggur fram nokkrar minniháttar lagabreytingatillögur sem miða að því að færa lögin í áttina að því sem þegar er framfylgt í raun og taka út úrelt ákvæði.

f) Starfsáætlun 2012-13
Ákveðið að leggja til að liðir 1-3 verði óbreyttir frá yfirstandandi leikári en bætt verði við liðum undir sérverkefni:

1. Að haldin verði einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund.

2. Að haldið verði námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðsetningu haustið 2012.

4. Erlent samstarf
a) Fulltrúi BÍL á ársfundum NEATA og NAR í Sönderborg 31.7.–6.8. 2012.
Ákveðið að Þorgeir og Vilborg sæki aðalfund NEATA og deili kostnaði umfram það sem hátíðin greiðir. Bandalagið greiði helming ferðakostnaðar Þorgeirs.

b) Fulltrúar Íslands í NEATA Youth 22.7.–6.8. á sama stað.
María Björt Ármannsdóttir, NEATA Youth-fulltrúi, hefur valið Grímu Kristjánsdóttur og Guðrúnu Sóley Sigurðardóttur til að sækja með sér leiksmiðju sem haldin er á undan hátíðinni og sýnir afrakstur sinn á henni.

c) Hulda Hákonardóttir gerir grein fyrir fundi hjá Nordisk kulturfond 2.3. 2012:
Samráðsfundur Norrænu Ráðherranefndarinnar (N.R.) / Dialog med amatør- og frivilligsektoren, haldinn í Kaupmannahöfn 2. mars 2012, með áhugafólki og sjálfboðaliðum frá hinum ýmsu menningar- og listasviðum á Norðurlöndum. Hulda Hákonardóttir sótti fundinn fyrir hönd Bandalagsins. Hún kom á stjórnarfundinn og flutti skýrslu:

Boðað var til fundarins vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í styrkveitingamálum þessara aðila.  Um var að ræða óformlegan vinnu- og hugarflugsfund.

Við skipulagsbreytingar  í styrkjamálum N.R.  árið 2007 varð útilokað fyrir áhugafólk og sjálfboðaliða að sækja um  styrki vegna starfsemi sinnar.  Fljótlega varð ljóst að við svo búið mátti ekki una og frá 1. janúar 2010 var úr þessu bætt með því að koma á laggirnar Menningar- og listaprógrammi (Kultur- og kunstprogrammet) sem gat úthlutað styrkjum til allrar menningar- og listastarfsemi, bæði til atvinnumanna sem og áhugafólks/sjálfboðaliða.

Eftir tveggja ára reynslutíma hefur þótt nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulagið enn frekar og þá með áherslu á að koma betur til móts við starfsemi áhugafólks/ sjálfboðaliða.

Þar sem N.R.  vill leggja sérstaka áherslu á Norræna velferðarmódelið og þróun þess, er mikilvægt að styðja við starfsemi áhugafólks/sjálfboðaliða í samfélaginu. Sterk samfélög einkennast ekki hvað síst af  samvinnu og trausti, þar sem ólíkar starfsstéttir og ólíkir þjóðfélagshópar vinna saman að ákveðnum verkefnum.

Með þetta m.a. í huga varð niðurstaða fundarins sú að til að styrkja starfsemi áhugafólks / sjálfboðaliða væri æskilegt að N.R. endurskoðaði styrkveitingamálaflokk sinn og afmarkaði sérstakan styrkjaflokk fyrir áhugafólk/sjálfboðaliða á menningar- og listasviðinu.

Huldu þakkað fyrir að sækja fundinn fyrir hönd Bandalagsins.

5. Önnur mál

a) Dagsetning úthlutunarfundar
Úthlutunarfundur áætlaður laugardaginn 7. júlí.

b) Allt fyrir andann
Átak var gert í að selja Allt fyrir andann (sögu Bandalagsins) til bókasafna og seldust 14 eintök. Einnig var hún sett á bókamarkaðinn í Perlunni en þar seldist aðeins 1 eintak.

c) Samstarfsverkefni
Ólöf varpaði fram spurningunni hvað þyrfti til til þess að sýning gæti kallast samstarfsverkefni leikfélags og annarra aðila í sambandi við styrkina. Fundarmenn töldu það matsatriði í hvert skipti en þó er skilyrði að það komi fram í gögnum (t.d. leikskrá) að leikfélagið komi að uppsetningunni.

d) Höfundaréttarmál
Ákveðið að ræða réttindamál á aðalfundinum og leggja fyrir fundinn tillögu um að sýningar sem ekki hafa fengið leyfi höfundarrétthafa verði ekki styrktar. Færst hefur í vöxt að leikfélög sæki ekki um leyfi fyrir uppsetningum leikverka.

e) Höfundagreiðslur
Vilborg greindi frá því að framkvæmdastjóri Rithöfundasambandsins hefði bent á að uppfæra hefði átt samning um höfundar- og þýðendalaun á ári hverju síðan samningurinn var undirritaður 2003 en það hafi ekki verið gert og krónutala pr. sýningu því sú sama í dag og upphaflega var samið um. Eftir viðræður milli framkvæmdastjóra Bandalagsins, framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins og formanns Félags handritshöfunda var ákveðið að uppreiknaðir taxtar tækju gildi 1. júní 2012 eða í upphafi næsta leikárs.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 13.30.

Fundargerð ritaði
Ármann Guðmundsson

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 24. mars 2012 419 03 apríl, 2012 Fundir apríl 3, 2012

Áskrift að Vikupósti

Karfa