Stjórnarfundur 22. október 2016

Stjórnarfundur BÍL 

haldinn 22. október 2016 að Kleppsmýrarvegi 8 í Reykjavík.

Mætt eru: Guðfinna Gunnarsdóttir, Embla Guðmundsdóttir, Bernharð Arnarson, Gísli Björn Heimisson, Þráinn Sigvaldason, Sigríður Hafsteinsdóttir og Vilborg Valgarðsdóttir framkvæmdarstýra.

Þráinn og Bernharð eru á Skype.

Fundur settur klukkan 9:10.

 1. Guðfinna fór yfir fundargerð síðasta fundar. Engar athugasemdir hafa komið varðandi úthlutun styrkja. Engar athugasemdir gerðar varðandi fundargerðina.
 1. Starfsáætlun:
  a) Rekstur skrifstofu er með hefbundnu sniði. Ármann Guðmundsson leysti framkvæmdarstýru af í viku nú á haustdögum. Ekki er enn búið að skrifa undir samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið en vonandi verður það gert sem fyrst.

  b) Skólanefnd: Fyrir fundinum liggja tvær fundargerðir. Tvö tilboð hafa borist frá staðarhaldara á Húnavöllum næsta sumar, annars vegar í vikuna frá 3.-11. Júní og hins vegar vikuna 10.-18. júní. Mikill munur er á tilboðunum og um mikla hækkun að ræða í þeim báðum frá síðasta sumri þannig að hækka verður skólagjöld verulega ef tilboði verður tekið.

  Rætt var um hvort annar staður kæmi til greina og kom þá upp hugmynd um Reykjaskóla í Hrútafirði. Stjórn felur skólanefnd að skoða Reykjaskóla og jafnvel aðra staði með það að leiðarljósi að finna góðan stað á sanngjörnu verði. Ganga verði hratt í þá vinnu. Stjórnarmenn munu einnig líta í kringum sig.

  Stjórn líst vel á það sem skólanefnd setur upp sem hugmyndir um námskeið næsta árs. Einnig er stjórn BÍL spennt fyrir hugmyndum sem komu  upp varðandi afmæli skólans. Gott væri að skólanefnd setti upp kostnaðaráætlun. Skráning á viðburðinn þyrfti að vera fyrirfram.

  c) Vefmál: Verið er að vinna í því að laga galla á vefumsóknarkerfinu og gengur það vel. Leiklistarvefurinn er í stanslausri jákvæðri þróun.

  d) Rætt var um stöðu BÍL gagnvart hinu opinbera. Við þurfum alltaf að vera á tánum og láta vita af okkur.

  e)Sérverkefni: Afmælishátíðin er næsta verkefni og hefur hún verið ákveðin um miðjan mars 2017. Nauðsynlegt fyrir stjórn að funda samhliða henni. Einnig verður þá hægt að undirbúa aðalfund 2017.

  Stjórn mælir með að Hörður Sigurðarson kynni vef Leikfélags Kópavogs fyrir öðrum leikfélögum á námskeiði í stjórnun leikfélaga samhliða aðalfundi 2017.

 1. Stuttverkahátíð NAETA í Færeyjum 2016: Guðfinna sagði frá hátíðinni sem tókst frábærlega vel. Leikfélag Hafnarfjarðar var þar með leiksýningu og var okkur til sóma. Af óviðráðanlegum ástæðum datt Hugleikshópurinn út, það gerðist með stuttum fyrirvara þannig að ekki náðist að fylla upp í plássið þeirra.
 1. Guðfinna fór yfir aðalfund NEATA sem haldinn var samhliða hátíðinni. Mest var þar rætt um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá alþjóðaáhugaleikhúsráðsins IATA/AITA en kosið verður um breytingarnar á fundi í Monaco á næsta ári. Einnig talaði hún um leiklistarhátíð sem ætluð er leikfélögum eldri borgara og vef sem tileinkaður er hátíðinni. Við fáum nánari upplýsingar frá hátíðarhöldurum síðar.
 1. Önnur mál:
  a) Vilborg sagði frá því að hún hafi heyrt að mögulega sé verið að vinna að því að halda IATA/AITA hátíð 2019 hér á Íslandi.

  b) Bernharð spurði út í næsta aðalfund og hvort búið væri að tryggja staðsetningu. Leikfélag Ölfuss og Leikfélag Selfoss eru að vinna í málinu. Stjórn mælir með að það sé gengið í að tryggja staðsetningu sem fyrst.

Fleira ekki gert, fundi slitið klukkan 11:20.

Fundarritari Þráinn Sigvaldason.

 

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 22. október 2016 735 30 nóvember, 2016 Fundir nóvember 30, 2016

Áskrift að Vikupósti

Karfa