Stjórnarfundur 21. október 2011

Fundur í stjórn Bandalags ísl. leikfélaga,
Haldinn 21. október 2011 að Kleppsmýrarvegi 8, Reykjavík.

Mættir: Vilborg Valgarðsdóttir, Þorgeir Tryggvason, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halldór Sigurgeirsson, Embla Guðmundsdóttir og Guðfinna Gunnarsdóttir.

Þorgeir setur fundinn kl. 16.00.

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar.
Viðbót við fundargerð rædd, þar koma fram breytingar á úthlutun vegna villna í úthlutunargrunni.

2. Starfsáætlun leikárið 2011-12.
Vilborg ræddi um tillögur að fjárlögum næsta árs. Skrifstofan fær samkvæmt þeim um 100.000 krónu lækkun á framlagi. Fjármál næsta árs í sama farvegi, nema nú hefur verið kallað eftir greiðsluáætlun frá kaupanda Laugarvegs 96. Kaupandi lofar að hafa hana tilbúna 14. nóvember.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur borist erindi frá Jakobi S. Jónssyni, leikstjóra, þar sem hann vill koma á samningum aftur milli Bandalagsins og leikstjóra. Ráðuneytið hafði samband við framkvæmdastjóra vegna málsins og mun svara fyrirspurninni á þann veg að ráðuneytið hlutist ekki til um þesskonar mál.
Rætt um nýjustu fundargerð skólanefndar. Almenn ánægja með það sem þar kemur fram.
Þorgeir sagði frá stuttverkahátíð í Færeyjum. Ferðakostnaður var mjög hár og var lengi vel vafamál hvort af þessu yrði. En farið var og Hugleikur fór með 3 þætti og Seltirningar fóru með einn. Hátíðin bar þess aðeins merki að ýmislegt hafði gengið á, veikindi og tafir á ferðum. Allt gekk vel að lokum. Fulltrúar Bandalagsins voru til sóma. Möguleiki á áframhaldandi samstarfi milli Færeyja og Íslands og fleiri lönd hafa áhuga á að taka þátt, en ekkert hefur verið ákveðið.

3. a) Umsókn um aðild frá Leikfélagi Bolungavíkur.
Samþykkt.
b) Umsókn um aðild frá Leikfélagi A-Eyfellinga.
Samþykkt.

4. Safn íslenskra leikrita í erlendum þýðingum.
Búið er að funda með vefhönnuðum Bandalagsins um hvað hans vinna myndi kosta, en erfitt að gera sér grein fyrir verðlagningu af hendi skrifstofu Bandalagsins. Búa þyrfti til sér gagnagrunn fyrir þetta verkefni. Beðið frekari upplýsinga frá Melkorku Teklu, leiklistaráðunaut Þjóðleikhússins, um hverjir vilja borga fyrir þessa vinnu og þá hvað mikið.

5. Nýtt frumvarp til sviðslistalaga.
Búið að taka út lið um að sveitastjórnir geti veitt styrki til áhugaleikfélaga. Bandalagið nefnt á nafn í 6. grein og 18. grein.
Ekki þykir nægilega skýrt kveðið á í frumvarpinu hvort að sviðslistasjóður eða Alþingi sjái um að ákveða fjármagn til Bandalagsins. Ákveðið að senda athugasemd með tillögu að breytingu til að skýra málið. Vilborg kannar málið áður en tillagan verður send.

6. Ársrit BÍL 2010-11.
Drög lögð fram til kynningar.  Ársritið er seint á ferðinni og ekki tilbúið, en mun koma út í næsta mánuði. Ármann Guðmundsson sér um uppsetningu.

7.  a) NEATA hátíð 2012, val á sýningum. Þarf að skipa valnefnd, en frestur til að sækja um rennur út 15. janúar.
Hugleikur hefur óskað eftir því að frestur til að skila inn umsóknum verði framlengdur a.m.k. til 5. febrúar. Ákveðið að senda stjórnendum hátíðarinnar fyrirspurn um hvort mögulegt sér að lengja í umsóknarfresti um einhverja daga, mögulega mánuð.
b) NEATA youth 2012. Danir boða til NEATA YOUTH ráðstefnu samhliða hátíðinni í sumar og ætla að greiða fyrir 3 aðila frá hverju landi. María Björt Ármannsdóttir er fulltrúi Íslands í NEATA youth og hún ætlar að fara. 2 pláss verða í boði til viðbótar. Lagt til að María búi til kynningarbréf sem sent verði á aðildarfélögin með umsóknarfresti.
c) DigiDeLight 2012 – ein umsókn borist og er hún frá Litla Leikklúbbnum. Vilborg kemur félaginu í samband við forsvarsmenn verkefnisins.

8. NAR ráðstefna í Osló 14. nóv 2011.
Þorgeir fer á fund. Vilborg leggur til að sett verði á dagskrá fundarins að NAR berjist fyrir því að fá aftur ferðastyrkina sem felldir voru út úr nýjum reglum Norrænu ráðherranefndarinnar en það er núna enga styrki að hafa fyrir félög sem vilja ferðast með sýningar milli Norðurlandanna eða á hátíðir sem haldnar eru á norrænum vettvangi.

9. Önnur mál
a) Næsti aðalfundur.
Vilborg sagði því að undirbúningur stendur nú sem hæst hjá Litla leikklúbbnum  vegna næsta aðalfundar sem haldinn verður á Ísafirði, eða mögulega á Núpi í Dýrafirði. Vilborg var beðin að ræða aðgengismál við skipuleggjendur fundarins. Áætluð dagsetning er 4.-6. maí 2012.
b) Tímasetning næsta stjórnarfundar rædd, bráðabirgðadagsetningar 23. mars eða 30. mars 2012.

Fundi slitið kl.18.15.

Fundarritari var Guðfinna Gunnarsdóttir.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 21. október 2011 458 24 október, 2011 Fundir október 24, 2011

Áskrift að Vikupósti

Karfa