Stjórnarfundur 21. nóvember 2015

Stjórnarfundur 21. nóvember 2015

 Haldinn að Kleppsmýrarvegi 8 þann 21. nóvember 2015

Fundur settur kl. 11.00

Mættir: Gísli Björn Heimisson, Ólöf Arnbjörg Þórðardóttir, Guðfinna Gunnarsdóttir, Ágúst Torfi Magnússon, Þrúður Sigurðardóttir, Þráinn Sigvaldason og Vilborg Árný Valgarðsdóttir.
Hörður Sigurðarson mætti undir lið 5 í dagskránni.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar

– Formaður fór yfir fundargerð síðasta fundar. Búið er að koma langflestu í verk og hvatti formaður stjórnarmenn í að klára það sem út af stendur. Stjórnarmenn þurfa að vera búnir að hafa samband við fósturfélögin sín fyrir 15. janúar 2016.

2. Starfsáætlun 2015-16 yfirfarin

a) Rekstur þjónustumiðstöðvar.

– BÍL hefur fengið fundi með ráðuneytinu og svo ráðherra og bíðum við enn eftir niðurstöðu úr þessum fundum en miðað við frumvarp fjárlaganefndar er gert ráð fyrir að framlag ríkisins til áhugaleikfélaga verði það sama og í fyrra. Ráðherra lofaði að gerður yrði gerður samningur um rekstur skrifstofunnar.

– Góð sala var á vörum samhliða hrekkjavöku.

b) Sérverkefni ársins.

– Skipuleggja stuttverkahátíð á leikárinu: Skipulagning er í höndum Seyðfirðinga og er þegar búið að bóka hús fyrir hátíðina. Verið er að vinna í að finna gistingu og ætti það að liggja fyrir fljótlega. Hátíðin er hugsuð samhliða aðalfundi BÍL 6.-8. maí 2016.

3. 65 ára afmæli Bandalagsins + bréf með athugasemdum frá Örnólfi Guðmundssyni.

– Nokkur félög BÍL eru að vinna með þau þrjú verk sem valin voru til að vera afmælisverk Bandalagsins. Stjórn er sammála því að þetta sé skemmtilegt form sem hægt væri að nota aftur.

– Stjórn barst athugasemd vegna framkvæmdar á vali á verkunum þremur vegna stuttverkasamkeppni samhliða 65 ára afmæli Bandalags íslenskra leikfélaga. Í bréfinu komu fram alvarlegar ásakanir um klíkuvinnubrögð vegna vals á leikritum og einnig við styrkúthlutanir BÍL til leikfélaga. Stjórn BÍL tekur fram í svarbréfi til viðkomandi að ásakanir þessar séu algerlega úr lausu lofti gripnar og leiðréttir misskiling sem fram kemur vegna styrkveitinga til aðildarfélaga BÍL.

4. 20 ára afmæli Leiklistarskólans

– Vangaveltur eru um það hvort afmælið sé 2016 eða 2017. Skólinn verður settur í 20. skiptið næsta sumar. Rætt var um að gera eitthvað sérstakt samhliða setningu eða slitum á skólanum þá en afmælinu sem slíku verði haldið utan við skólatímann. Afmælið verði síðan haldið með pompi og prakti haustið 2016 en skólinn var fyrst formlega settur 31. maí 1997.

5. Rafrænar styrkumsóknir – Hörður Sigurðarson kynnir

– Hörður kynnti fyrir stjórn hvernig staðan væri á rafrænum umsóknum vegna styrkumsókna félaga BÍL til bandalagsins. Hugmyndin er að félögin kaupi sér aðgang að umsóknarkerfinu. Kerfið er notað núna fyrir þá sem vilja sækja rafrænt um Athyglisverðustu áhugasýningu ársins og virkar það vel. Hörður talaði um að hann vildi fá einhver félög til þess að prufukeyra kerfið fyrir styrkumsóknir og er það þegar komið í gang. Stjórn ákvað að hvert félag borgi 10.000 krónur fyrir aðgang að kerfinu. Einn hluti af peningnum færi í að greiða fyrir vinnuna við uppsetningu á kerfinu og annar hluti fari í sérstakann vefsjóð. Gert er ráð fyrir að með tímanum verði allar umsóknir sendar inn til Bandalagsins með rafrænum hætti. Stjórn BÍL þakkar Herði kærlega fyrir óeigingjarnt frumkvöðlastarf í þágu BÍL.

6. NEATA stuttverkahátíðin í Færeyjum 2016

– Hátíðin verður 7.-8. október 2016. BÍL mun velja íslensku sýningarnar sem taka þátt í hátíðinni. Félögin mega reikna með að þurfa að greiða ferðakostnaðinn sjálf. Umsóknarfrestur félaga til BÍL er 15. mars 2016.

7. EDERED

– Litlum hópi 13-14 ára unglinga býðst að taka þátt í námskeiði í Toulouse í Frakklandi 10.-22. júlí 2018. BÍL samþykkir að taka þátt í verkefninu EDERED 2018.

8. Önnur mál

– Næsti fundur ákveðinn 1.-3. apríl 2016.

Fundargerð ritaði Þráinn Sigvaldason
Fundi slitið klukkan 13:05.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 21. nóvember 2015 927 26 nóvember, 2015 Fundir, Vikupóstur nóvember 26, 2015

Áskrift að Vikupósti

Karfa