Stjórnarfundur 16. mars 2013

Bandalag íslenskra leikfélaga
Stjórnarfundur haldinn 16. mars 2013
í þjónustumiðstöðinni að Kleppsmýrarvegi 8 í Reykjavík

Mætt: Þorgeir Tryggvason, Guðfinna Gunnarsdóttir, Ólöf Þórðardóttir, Halldór Sigurgeirsson, Bernharð Arnarson, Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Vilborg Valgarðsdóttir og Ármann Guðmundsson.

Fundur settur kl. 9.00

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar:

Fundargerðin yfirfarin og samþykkt athugasemdalaust.

2. Starfsáætlun leikárið 2012-13:

a. Skráning í Leiklistarskólann fór mjög vel af stað og bókaðist í u.þ.b. helming plássa á fyrsta sólarhringnum.

b. Leiklistarvefurinn hefur verið rekinn með lágmarkskostnaði á leikárinu.

c. Rekstur þjónustumiðstöðvar.
Reksturinn var mjög erfiður síðustu 2 mánuði ársins 2012 og alveg fram í febrúar sl. þegar loksins fékst niðurstaða varðandi opinbera styrki fyrir árið 2013. Ekki var hægt að greiða reikninga vegna innflutnings vöru í verslun og smátt og smátt varð vöruúrvalið heldur ræfilslegt. Hægt var að standa í skilum með flesta aðra rekstrarliði utan laun starfsmanna. Í byrjun febrúar kom í ljós að þjónustumiðstöð Bandalagsins fær 5 milljónir á ári næstu 3 árin frá menntamálaráðuneytinu og var undirritaður samningur þar um 12.  febrúar. Það duga þó því miður ekki til og er ljóst að leita þarf leiða til að tryggja meira fjármagn ef halda á óbreyttu þjónustustigi. Vilborg sendi styrkumsókn til Reykjavíkurborgar sem nemur launum hálfs starfsmanns en hefur ekki fengið svör. Hún ætlar að leitast við að fá viðtal við menningarfulltrúa borgarinnar fyrir aðalfund.

Halldór velti upp spurningunni um hvort hægt væri að leita til menningarráða landshlutanna um að styrkja starfsemi Bandalagsins þar sem það þjónustar öll svæðin. Vilborg taldi það ólíklegt, hún átti fund með fulltrúum þeirra í lok febrúar og sagði að þau væru óörugg vegna ummæla menntamálaráðherra þegar hún sagði að áhugleikfélögin ættu að leita eftir styrkjum til menningarráða lándbyggðarinnar víðs vegar um landið. Forsvarsmenn menningarráðanna lýstu stuðningi við okkar málstað á allan máta nema kannski fjárhagslegan.

Guðfinna stakk upp á gerð yrði áætlun um hvað við þurfum mikið fjármagn til að halda óbreyttum rekstri og hvað hægt er að gera fyrir núverandi fjármagn.

Vilborg lagði til að aðalfundur yrði nýttur til að þarfagreiningar þar sem félögin væru látin forgangsraða þeirri þjónustu sem þau telja mikilvægasta hjá Bandalaginu.

Fólk var sammála um að við óbreytt ástand verði varla hjá því komist að segja upp starfsmanni eða minnka starfshlutföll starfsmanna.

Ákveðið að Þorgeir, Guðfinna og Ólöf skipi nefnd sem fer yfir málin og skili tillögum fyrir mánaðarmótin mars/apríl.

d. Síðasti aðalfundur setti stjórn fyrir það verkefni að sækja um styrki til 10 fyrirtækja og stofnanna og hefur þegar verið sótt um til 9 aðila. Styrkir hafa fengist frá Samfélagssjóði Landsvirkjunar, Samfélagssjóði Landsbankans og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til skönnunar og varðveislu handritasafnsins, alls 1.550.000 kr. Haldið verður áfram að sækja um til fleiri fyrirtækja.

e. Kynning á einþáttungahátíð í Logalandi samhliða aðalfundi 2013 á að fara á fullt eftir helgi. Ákveðið að fá hæft fólk til að fjalla um sýningarnar á henni án greiðslu. Ármann og Embla halda utan um hátíðina.

3. Aðalfundur 2013 undirbúinn:

a. Ársreikningur yfirfarinn og undirritaður.
Vilborg lagði fram ársreikning ársins 2012 og kynnti. Vegna gjaldþrots kaupanda að Laugavegi 96 og stórfelldra birgðabreytinga vegna verðlækkunar á bókalager er tap á rekstrarreikningi 13.581.875.- Tap af reglulegum rekstri er þó ekki nema 2.503.298.- að þessum liðum frátöldum en það var 7.590.993.- í árslok 2011. Það hefur því náðst umtalsverður árangur í hagræðingu með ítrasta niðurskurði á flestum liðum í rekstrinum og öflun styrkja frá einkaaðilum.
Ársreikningur undirritaður.

b. Aðstaða og verð í Reykholti.
Embla leggur til að einþáttungahátíð, fundur og matur verði í Logalandi, einungis gisting og morgunmatur verði keypt af hótelinu. Ákveðið að hún athugi líka með verð á hátíðarkvöldverð þar. Hún verður tilbúin með verð á pakkanum um mánaðarmótin.

c. Dagskrá fundar og einþáttungahátíð.
Dagskrár aðalfundar verður með hefðbundnum hætti en gefa þarf tíma fyrir þarfagreiningu og umræður um starfsemi þjónustumiðstöðvar í hópastarfi.

d. Stjórnarkjör.
Þorgeir og Ólöf eiga að ganga úr aðalstjórn. Úr varastjórn eiga að ganga Magnús, Þrúður og Embla. Þau hafa ekki ákveðið hvort þau gefa kost á sér til áframhaldandi setu.

e. Lagabreytingar.
Stjórn leggur ekki fram neinar lagabreytingar.

f. Starfsáætlun 2013-14
NEATA stuttverkahátíð verður haldin á Íslandi í apríl 2014. Vilborg stakk upp á að halda hana í Mosfellsbæ, ákveðið að fara þess á leit við Leikfélag Mosfellsveitar að fá Bæjarleikhúsið undir hátíðina.

4. Önnur mál:

NEATA-stjórnarfundur verður haldinn í Finnlandi í apríl nk. Ákveðið að senda ekki fulltrúa á hann þar sem flug þangað er dýrt en senda þess í stað fulltrúa á einn fund seinna á árinu sem ódýrara verður að sækja. Fundarmenn sammála um að skera erlent samstarf niður eins og hægt er á árinu.

Það þýðir að ekki verður sendur fulltrúi á aðalfund IATA í Monaco í sumar. Fela þarf einhverri Norðurlandaþjóð að fara með atkvæði Íslands á fundinum, mögulega Danmörku.

Bernharð lagði til að fósturfélagakerfið yrði virkjað til að hvetja félög til að mæta á aðalfund. Ákveðið að það verði gert í byrjun apríl þegar búið er að senda út fundarboð.

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 13.00.

Fundargerð ritaði Ármann Guðmundsson
(Viðbætur Vilborg Valgarðsdóttir)

0 Comments Off on Stjórnarfundur 16. mars 2013 601 25 March, 2013 Fundir March 25, 2013

Áskrift að Vikupósti

Karfa