Stjórnarfundur 15. október 2010

Stjórnarfundur haldinn að Suðurlandsbraut 16, þann 15. október 2010


Mætt:  Þorgeir Tryggvason, Guðfinna Gunnarsdóttir, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halldór Sigurgeirsson, Ólöf Þórðardóttir, Hjalti Stefán Kristjánsson, Bernarð Arnarson og Vilborg Valgarðsdóttir.  Ármann Guðmundsson kom kl. 18:00.

Dagskrá

1. Innbrotið á skrifstofuna og afleiðingar þess
Brotist var inn í Þjónustumiðstöð Bandalagsins aðfaranótt 20. september og öllum tölvum ásamt ýmsu smálegu stolið. Mestur hluti gagna, þ.m.t. handritasafnið, var til í afriti en Vilborg greindi frá því að ekkert af þeim gögnum sem af einhverjum ástæðum höfðu ekki afritast, hefðu fengist til baka, þ.m.t. gögn fyrir Ársritið, lokaskýrslu um NEATA-hátíðina og bókhaldsgögn frá september 2009 til innbrotsdags. Skipt hefur verið um bókhaldsforrit og bókhaldið er nú unnið í Netbókhaldi og er Vilborg að læra á það og komin nokkuð á veg með að slá inn bókhaldsgögnin sem glötuðust. Áskrift að Netbókhaldi kostar um 120.000 kr. á ári.

Gerður hefur verið samningur við Securitas um öryggisvörslu og er kostnaður um 120.000 kr. á ári. Einni eftirlitsvél hefur verið komið upp í Þjónustumiðstöðunni og á Hörður Sigurðarson hana. Ákveðið að hafa tvær vélar framvegis til að dekka móttökuna alveg. Hörður mun sjá um að kaupa vélarnar fyrir Bandalagið og setja þær upp.

Þetta tvennt og endurbætt afritunarkerfi ætti að duga til að fyrirbyggja samskonar tjón vegna innbrota og borgar það sig tvímælalaust að leggja út í þennan kostnað til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Stjórn Bandalagsins vill þakka Herði sérstaklega fyrir alla aðstoð í tengslum við þetta innbrotsmál.

2. NEATA-hátiðin 2010
Vilborg lagði fram bráðabirgðaruppgjör fyrir NEATA-hátíðina og er hún samkvæmt því réttu megin við núllið. Þó eru ekki öll kurl komin til grafar. Umræður urðu um að okkur hafi vantað leiðbeinandi tilmæli fyrir svona hátíðir, þannig að umsjónarlönd hátíða vissu nákvæmlega hvenær þyrfti að gera hvað. Þorgeir velti fyrir sér hvað við hefðum lært af því að halda þessa hátíð og hvort að við ættum að útbúa sjálf slíkar leiðbeiningar. 

Umræður einnig um það hvort að barna- og unglingahópar eigi erindi á svona hátíðir. Mikið var að gerast á kvöldin og þar urðu þau svolítið út úr – spurning um að setja 18 ára aldurstakmark á svona hátíðir. Fólk sammála að það hafi komið vel út að hafa ekki þá kvöð á leikhópunum að þeir væru með atriði á kvöldskemmtun eins og gjarnan hefur verið á svona hátíðum.

Rætt um að leiðinlegt hefði verið að Freyvangsleikhúsið og Leikfélag Selfoss skyldu ekki stytta sýningarnar niður í tilskilinn tíma. Á sumum hátíðum eru ljósin einfaldlega slökkt á sýningum ef þær fara fram yfir tímamörk.

Rætt um fyrirkomulag á miðaafhendingu á sýningum og það að þrátt fyrir að hætt hefði verið að afhenda miða á sýninguna á Vínlandi hafi heilar sætaraðir verið ónotaðar.

Ákveðið að senda fyrirtækjum sem að studdu okkur á hátíðinni jólakort.

Ása Hildur velti fyrir sér hvort ástæða hefði verið að gera leikfélagameðlimum sem ekki voru starfsmenn á hátíðinni kleift að tryggja sér miða á sýningar með kaupum á passa og þá einnig að þeir hefðu getað keypt sér mat með þátttakendum. Almenningur gat keypt sig inn á lokahófið.

3. Frumvarp til fjárlaga 2011
Meðal fundargagna var útprentað yfirlit yfir framlög ríkssjóðs frá árinu 2006 og var þróunin skoðuð og rædd. Árrið 2011 eru áætlaðar 3,6 milljónir fyrir  skrifstofuna og 17 milljónir til leikfélaganna, alls 20,6 milljónir.

Rætt um að andmæla þyrfti frekari lækkunum og senda menntamálaráðherra og fjárlaganefnd bréf þar sem fram kemur að við sýnum erfiðri fjárhagstöðu ríkissjóðs skilning en væntum þess framlög hækki aftur þegar fram líða stundir. Fylgjast þarf með því ef hækkun verður hjá sambærilegum aðilum og vekja athygli réttra aðila á því og að séð verði til þess að áhugaleikfélögin fái sambærilega hækkun. Þorgeir ætlar að skrifa bréfið f.h. stjórnar.

4. NAR-ráðstefnan í Osló 24.-26. október
Þorgeir og Vilborg fara bæði á Norrænt skrifstofumót í Osló. Rætt um dagskrá fundarins og hvar við stöndum gagnvart þeim flokkum sem ræða á um. Þarna verður þéttskipuð dagskrá í þrjá daga.

Umræður um skönnun handrita og dreifingu þeirra. Ármann hefur borið málið undir Hávar Sigurjónsson formann Félags handritshöfunda en hann sagði eins og vænta mátti að það þyrfti leyfi hvers og eins höfundar, eins og með alla aðra deifingu höfundarvarins efnis.  Í Danmörku er einhver safnsjóður, nokkurs konar stefgjöld, sem renna til höfunda. Mögulega fræðast Þorgeir og Vilborg eitthvað um það fyrirkomulag í Osló.  Þau munu á fundinum greina frá hvernig staðan er á handritamálum hérlendis.

Eitt af umræðuefnunum er menningarpólitík landanna. Eitthvað er óljóst um hvað er verið að ræða, stefnu Bandalagsins eða opinbera stefnu Íslands. Menningarstefnan er í raun okkar stefna en ekki vissi stjórn til að til sé opinber stefna.

Einnig átti að ræða um byggða/útileikhús og ætlar Þorgeir að fá skýrslu frá Guðbjörgu Árnadóttur sem sótti ráðstefnu um útileikhús í Danmörku fyrr á árinu.

5. Leikfélagið Skrugga, aðildarumsókn
Um er að ræða endureisn Leikfélagsins Skruggu í Reykhólasveit, félagið hefur ekki starfað síðan 1982. Aðildarumsókn samþykkt.

6. Önnur mál
a) NEATA YOUTH 
Beiðni hefur komið frá stjórn NEATA YOUTH um að Bandalagið aðstoði þau við að finna íslenskan fulltrúa í stjórn. Rætt um að setja frétt á heimasíðuna og auglýsa eftir áhugasömum fulltrúa. Starfsemi NUTU var komin í fastar skorður og farin að virka ágætlega en óvíst er hvað hvaða áhrif aðkoma baltnesku landanna hefur. Vilborg ætlar að senda stjórn NEATA YOUTH póst og athuga með kostnaðarhlið þess að eiga fulltrúa.

b)  Svein Svensson og Hilmar Joensen, formenn Bandalaga Noregs  og Færeyja hafa óskað eftir því við Þorgeir að hann bjóði sig fram sem varaformaður NEATA.  Hann hefur áhuga á að bjóða sig fram en þetta er útheimtir töluverð ferðalög með tilheyrandi kostnaði sem mundi falla á Bandalagið. Ákvörðun þarf að liggja fyrir á næsta fundi í stjórn NEATA eftir áramót. Stjórn er mjög jákvæð gagnvart þessu og íhugar þetta með fjárhagslegu hliðina í huga.

c) Stuttverkahátíð í Færeyjum verður ekki haldin næsta vor heldur að öllum líkindum næsta haust.

d) Aðalfundur Bandalagsins verður fyrstu helgi í maí (6.-8.) og mun Leikfélag Mosfellssveitar halda fundinn. Haldin verður verður einþáttungahátíð í tengslum við fundinn.

e) Þorgeir ræddi val á leiksýningu sem fulltrúa Bandalagsins á IATA-leiklistarhátíð í Tromsö 2011. Í greinargerð valnefndar var farið fram á skýrari reglur varðandi val á svona hátíðir. Hann taldi að ekki væri hægt að semja einhverjar einar reglur sem giltu fyrir allar dómnefndir í framtíðinni, þær þyrfti sennilega að gera í hvert skipti með mismunandi forsendur í huga. Ein leið væri að valnefnd sé álitsgjafi en lokaákvörðun væri síðan stjórnar en mikið þyrfti að koma til til þess að stjórn færi gegn áliti valnefndar. Það þyrftu hins vegar alltaf að vera mjög skýr fyrirmæli um til hvers er ætlast af nefndinni.

f) Umræða um leiklistarhátíð fyrir börn sem haldin verður norður-Noregi í ágúst á næsta ári og Bandalagið hefur verið beðið um að finna íslenska sýningu á. Spurning hvort sýning þarf að vera fullmótuð og frumsýnd áður en umsóknarfrestur rennur út eða hvort að nægjanlegt sé að geta hvaða sýningu á að setja upp. Flestir á því að það ylti svolítið á því hverjir stæðu að sýningunni en viðkvæmt sé að fara í slíkt manngreiningarálit.

Dagskrá tæmd klukkan 19:40.

Fundargerð rituðu Ólöf Þórðardóttir og Ármann Guðmundsson.

 

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 15. október 2010 571 22 október, 2010 Fundir október 22, 2010

Áskrift að Vikupósti

Karfa