Stjórnarfundur 12. mars 2011

Stjórnarfundur haldinn að Suðurlandsbraut 16, Reykjavík, 12. mars 2011

Mætt: Þorgeir Tryggvason, Guðfinna Gunnarsdóttir, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halldór Sigurgeirsson, Ólöf Þórðardóttir, Vilborg Valgarðsdóttir og Ármann Guðmundsson.

1.  Fundargerð síðasta fundar

Fundargerðin samþykkt.

2. Starfsáætlun 2010-11

a. Leiklistarskólinn.

Skólabæklingurinn fór út í sl. viku. Þrjú námskeið verða í boði auk höfunda í heimsókn. Verð hefur hækkað upp í 59.500.

Sigríður Karlsdóttir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í skólanefnd en nefndinn stingur upp á Hrund Ólafsdóttur í hennar stað. Stjórn samþykkir tillöguna. Sigríði eru þökkuð frábær störf í þau 16 ár sem hún hefur setið í skólanefnd.

Ákveðið að skipunartími skólanefndarfólks verði áfram 2 ár í senn.

b. Leiklistarvefurinn.

Vefurinn heldur sínu striki.

Mismikil ánægja hjá leikfélögum með gagnrýnendafyrirkomulag, bæði með kostnað og að gagnrýni berist seint inn á vefinn. Þetta eru vonandi bara byrjunarörðugleikar sem félögin sem standa að þessu leysa úr.

c. Þjónustumiðstöðin.

Starfsemi þjónustumiðstöðvar komin í alveg eðlilegt horf eftir innbrot.

Því fer fjarri að rekstur standi undir sér en þó hefur sala verið góð það sem af er ári.

Þorgeir telur að fyrr eða síðar þurfum við að taka ákvörðun um framtíðarhúsnæði þar sem við höfum ekki efni á áframhaldandi veru á Suðurlandsbrautinni. Rætt um að setja jafnvel ýmislegt sem ekki er í daglegri notkun í geymslu ef ódýrt húsnæði fæst sem er of lítið fyrir núverandi starfsemi. Ákveðið að skipa nefnd til að leita að nýju húsnæði undir þjónustumiðstöð. Ása Hildur og Ólöf skipaðar í nefndina með Vilborgu.

Vilborg segir að fyrir liggi að gera átak í að selja Sögu Bandalagsins á bókasöfn. Á næsta ári má setja hana á bókamarkaðinn í Perlunni og bjóða meðlimum leikfélaganna og jafnvel öðrum leiklistartengdum samtökum hana með afslætti, það sé betra en að sitja uppi með lager upp á 600 bækur.

Ármann tekur að sér að sjá til þess að merkingar verði fjarlægðar af Laugaveginum.

d. Leitað eftir auknum framlögum.

Varnarbaráttan heldur áfram, engar líkur taldar á að það fáist auknir styrkir neinstaðar frá á þessu ári.

e. Þjóðleikhússýningin

Heldur áfram eins og áður.

f. NEATA-hátíðin

Hátíðin var haldin með glans. Rætt um hvort og þá hver og hvernig eigi að taka saman skýrslu um hvernig framkvæmd hennar tókst. Ákveðið að Vilborg hafi yfirumsjón með því þar sem hún var framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

3. Aðalfundur 2011 undirbúinn

Vilborg segist vera óánægð með þjónustu endurskoðanda Bandalagsins og vill skipta um. Stjórn samþykkir og felur henni að finna annan endurskoðanda. Engar athugasemdir gerðar við ársreikning og hann samþykkur af stjórn.

Hilmar Joensen formaður MÁF í Færeyjum hefur lýst áhuga á að koma á aðalfund Bandalagsins. Þorgeir leggur til að Bandalagið borgi gistingu undir hann ef af verður. Stjórn samþykkir.

Þorgeir hyggst gefa kost á sér áfram sem formaður. Óljóst með að aðra stjórnar- og varastjórnarmenn.

Rædd tillaga að starfsáætlun. Almenn starfsemi óbreytt. Lagt til að Stuttverkaverkahátíð í Færeyjum verði gert að sérverkefni. Það samþykkt sem eina tillaga stjórnar að sérverkefni næsta leikárs.

Ármann ætlar að gera Facebook viðburð fyrir einþáttungahátíð. Ákveðið að fá Bandalagsfólk til að fjalla um sýningarnar á hátíðinni, „félagslega skoðunarmenn leiksýninga“.

4.  Lög Leikdeildar Umf. Gnúpverja

Yfirfarin lög Leikfélags Gnúpverja sem sótt hefur um inngöngu í Bandalagið. Þau eru nú í góðu lagi og samþykkt. Ása Hildur var þeim innan handar við að semja þau.

5. Verkefnið Paunk

Tekið fyrir erindi frá menningarverkefninu Paunk sem verið er að hrinda í gang á Húsavík og á að gefa ungu fólki tækifæri á að kynnast og vinna með ólíkum listmiðlum. Þar er fyrst og fremst verið að falast eftir ráðgjöf, t.d. varðandi leiklistartengd námskeið. Vel tekið í erindið.

6. Erlent samstarf

María Björt Ármannsdóttir samþykkt sem fulltrúi Bandalagsins í NEATA-Youth sem kom í stað NUTU á síðasta ári.

Tekið fyrir erindi frá AMATEO sem er einhvers konar regnhlífasamtök menningartengdra áhugasamtaka. Ákveðið að ganga ekki í samtökin þar sem við höfum lítið sem ekkert þangað að sækja.

Lög NAR. Eftir að starfsemi NAR var breytt var ljóst að breyta þyrfti lögum þess til að laga að nýjum forsendum. Tekin fyrir tillaga frá Normönn að nýjum lögum. Þorgeir hyggst gera athugasemd við að í lögunum sé verið að blanda saman lögum og starfsáætlun.

Ætlunin er að halda NAR-ráðstefnu í Tana í Norður-Noregi viku eftir að IATA/NEATA/NAR-fundir verða haldnir í Tromsö í júlí. Ákveðið að senda einn fulltrúa (Þorgeir) til Tromsö en engan til Tana, fyrst og fremst af fjárhagslegum ástæðum. Þetta má endurskoða ef það fer íslenskur hópur á barnaleiklistarhátíðina í Tana, þá mætti mögulega skipa fulltrúa úr hópnum.

7. Önnur mál

Tekið fyrir erindi frá Leiklistasambandinu um Kynningarmiðstöð sviðslista. Varpað fram þeirri spurningu hvaða hugmyndir við hefðum um starfsemi slíkrar miðstöðvar. Engar hugmyndir komu fram. Vilborg svarar erindinu með því að við viljum fylgjast með framgöngu málsins og líta á okkur sem aðila að þessu batteríi.

Ákveðið að stefna að því að dagsetning úthlutunarfundar verði 1.-3. júlí.

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerð ritaði Ármann Guðmundsson

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 12. mars 2011 514 24 mars, 2011 Fundir mars 24, 2011

Áskrift að Vikupósti

Karfa