Stjórnarfundur 1. júlí 2011

Haldinn í Þjónustumiðstöðinni að Kleppsmýrarvegi 8, Reykjavík.

Mætt: Þorgeir Tryggvason, Guðfinna Gunnarsdóttir, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Ólöf Þórðardóttir, Þrúður Sigurðar, Vilborg Valgarðsdóttir og Ármann Guðmundsson.

Þorgeir setur fundinn.

1. Úthlutun styrkja vegna leikárs 2010-2011

Umsóknir um frumflutningssyrki og sérstakt frumkvæði ásamt vafaatriðum tekið fyrir sérstaklega að venju:

Borgarbörn
Umsókn um sérstakt frumkvæði vegna Leikfangalífs hafnað og umsókn um námskeið hafnað þar sem það var hluti af æfingaferli sýningar.

Freyvangsleikhúsið
Bannað börnum – umsókn um frumkvæði hafnað.
Svjek – Sérstakt frumkvæði veitt vegna frumsaminnar tónlistar.

Hugleikur
Hin einkar hörmulega ópera… – Sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.
Beljur – Styrkveitingu hafnað þar sem um útvarpsleikrit var að ræða.

Leikdeild Umf. Gnúpverjahrepps
Gaukssaga – Sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.

Leikfélag Húsavíkur
Að eilífu – Sérstöku frumkvæði hafnað.

Leikfélag Kópavogs
Beðið eftir græna kallinum – Sérstöku frumkvæði hafnað.
Bót og betrun – Sérstöku frumkvæði hafnað.

Leikfélag Mosfellssveitar
Þorri og Þura – Sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.
Lísa í Undralandi – Sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.
Auglýsingar – Styrkveitingu hafnað.

Leikfélag Reyðarfjarðar
Stríðið okkar – Rætt hvort um heildstætt leikverk eða skemmtidagskrá sé um að ræða. Verkið metið sem heilstætt leikverk og veittur frumflutningsstyrkur.

Leikfélag Selfoss
Hið dularfulla hvarf hollvinafélagsins – Sérstöku frumkvæði hafnað.
Á heimilinu – Umsókn um frumflutningsstyrk hafnað.
Hefndin er sæt – Umsókn um frumflutningsstyrk hafnað.
Love me tender – Umsókn um frumflutningsstyrk hafnað.

Leikfélag Vestmannaeyja
Mamma mía, Sjens á skrens – Sérstöku frumkvæði hafnað.

Leikfélag Ölfuss
Stútungasaga – Sérstöku frumkvæði hafnað.

Leikfélagið Peðið
Sögur af mannlífsklakanum – Sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.
Hlátur – Sérstöku frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar hafnað.

Leikfélagið Skrugga
Skemmtikvöld Leikfélagsins Skruggu – Eftir nokkra umræðu um hvort um leiksýningu eða skemmtidagskrá að ræða var ákveðið að veita styrk en ekki frumflutningsálag.

Leikfélagið Sýnir
Allir komu þeir aftur – Sérstöku frumkvæði hafnað.

Litli leikklúbburinn
Á skíðum skemmti ég mér – Eftir nokkra umræðu um hvort um leiksýningu eða skemmtidagskrá að ræða var ákveðið að veita styrk en ekki frumflutningsálag.

Stúdentaleikhúsið
Réttarhöldin – Sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.
DNA – Sérstakt frumkvæði vegna frumsaminnar tónlistar.

Ákveðið að styrkja ekki Höfunda í heimsókn í Leiklistarskóla Bandalagsins.

Umræða varð töluverð um sýningar sem settar eru upp án þess að leyfi frá rétthafa sé fengið. Rætt hvort að leggja ætti fyrir aðalfund tillögu um að slíkar sýningar fái ekki styrk þar sem þetta athæfi er lögbrot sem varpar skugga á orðspor allra aðildarfélaga Bandalagsins. Ekkert ákveðið að svo stöddu.

Alls bárust umsóknir frá 39 félögum vegna 91 leiksýningar og leikþátta,  11 námskeiða og 27 nemenda Leiklistarskóla Bandalags ísl. leikfélaga. Til úthlutunar voru 17 milljónir króna.
Niðurstaða úthlutunar er að styrkurinn verður 3,387 kr. pr. mín. eða 270,980 fyrir leikrit 80 mín. eða lengra. Frumflutningsálag (30%) er 81,294 og álag fyrir sérstakt frumkvæði (20%) er 54,196. Veitt var til 89 leikrita og leikþátta, 8 námskeiða og 27 nemenda í Leiklistarskóla BÍL.

2. Starfsáætlun 2011-2012
Flutningar á Kleppsmýrarveg 8 eru yfirstaðnir og gengu vel. Allt kemst fyrir á nýja staðnum og almenn er ánægja með húsnæðið. Erlenda leikritasafnið, sem var mest í kiljum, var við flutninga fært bókasafni leiklistardeildar Listaháskóla íslands að gjöf og það þegið með þökkum, þó með þeim fyrirvara að það sem talið er að ekki nýtist safninu verði boðið nemendum til eignar.

Stuttverkahátíðin Margt smátt verður haldin 15. október á þessu ári í Þórshöfn í Færeyjum. Færeyjar, Ísland og Noregur taka þátt og er hverju landi úthlutað 75 minútna sýningartíma sem það ráðstafar að vild. Þó má einstök sýning ekki fara yfir 15 mínútur að lengd. Ef eitthvert landanna fyllir ekki tímakvótann sinn, getur annað land nýtt sér hann eftir samkomulagi. Einleikir verða ekki leyfðir. Frestur til að sækja um þátttöku til Bandalagsins er 15. ágúst og 1. september mun liggja fyrir hvaða sýningar fara.

Lestarhestaverkefnið er að fara af stað. Ármann greindi frá því að þegar sé búið að senda handrit á nokkra hesta en endurskrá þurfi í lestrahestahópinn þar sem póstlistinn glataðist í síðasta innbroti.

3. Breyting á úthlutun styrkja hins opinbera
Alþingismenn urðu sammála um að hætta að úthluta sjálfir alls konar smástyrkjum til góðra mála, eins og venjan hefur verið lengi og hefur fjárlaganefnd nú ákveðið að færa þessa úthlutun frá þinginu og í hendur sjóða, sveitarfélaga og ráðuneyta.

Þorgeir lagði til að farið verði í herferð til að vekja athygli á málstað Bandalagsins. Til þess þurfi að stofna öflugan hóp til að skrifa greinar og vinna skipulega að kynningu Bandalagsins út á við. Nýta mætti velgegni einstakra sýninga aðildarfélaganna, Þjóðleikhússýninguna og fleira þess háttar atriði til kynningar. Líka væri æskilegt að fá raddir utan hreyfingarinnar til að tala okkar máli, t.d. um skólann. Nota má tölfræði ársins um leið og hún liggur fyrir. Þorgeir lagði til að hann sjálfur, Vilborg og Guðfinna verði í aðgerðahóp sem stýrir þessari vinnu. Þorgeir er formaður hópsins.

4. Umsókn frá Leikdeild Íþróttafélagsins Höfrungs á Þingeyri
Tekin fyrir umsókn um aðild að Bandalaginu frá Íþróttafélaginu Höfrungi á Þingeyri. Gerð athugasemd við grein 10 í lögum félagsins. Breyta …til eflingar á íþrótta- og menningarlífs…, taka út íþróttir. Samþykkt með fyrirvara um að frekari gögn og að kennitala berist.

5. Erindi frá Lénsherra
Stjórn barst erindi frá Lénsherra Leiklistarvefsins þar sem hann minnti á beiðni sína í árskýrslu vefnefndar um að starf og stefna nefndarinnar verði mótuð nánar og skipunarbréf gert fyrir hana líkt og fyrir aðrar nefndir Bandalagsins.

Stjórn telur að reynsla og yfirsýn Lénsherra sé ómissandi til að vinna þetta verk. Ákveðið að fela Lénsherra í samráði við vefnefnd að gera tillögu að ramma og starfssviði embættisins og nefndarinnar. Gott væri að fá fyrstu drög til stjórnar fyrir næsta stjórnarfund. Í framhaldinu myndi stjórnin vinna úr tillögunum í samráði við Lénsherra og ganga frá skipunarbréfi hans og vefnefndar í framhaldinu.

6. Fósturfélög stjórnarmanna
Fósturfélagakerfið hefur lítið verið notað að undanförnu en allir stjórnarmenn eru sammála um að þetta sé gott kerfi. Ákveðið að halda áfram að úthluta stjórnar- og varastjórnarfólki fósturfélögum, Vilborg sér um að skipta aðildarfélögum niður á þá.

7. Launamál starfsmanna
Formaður og varaformaður tóku að sér endurskoðun á launamálum starfsmanna eins og venja er á þessum árstíma.

8. Önnur mál
Þorgeir sagðist hafa ákveðið að biðjast undan því að verða varaformaður NEATA eins og þrýst hefur verið á hann að gera.

Fleira ekki gert.
Fundargerð ritaði Ármann Guðmundsson

_____________________________

Athugasemd vegna úthlutunar, sett inn 8. ágúst af Vilborg Valgarðsdóttur:

Komið hafa í ljós alvarlegar villur í úthlutunargrunninum sem notaður var við skiptingu styrkjanna sem gerðu það að verkum að allar upphæðir voru rangar.
Álag var alls staðar of lágt reiknað þar sem sýningartími fór niður fyrir 80 mín. Það þýðir að heildarniðurstaðan breytist hjá öllum og var ekki um annað að ræða en að rukka þá sem fengu of mikið og borga þeim sem fengu of lítið.

Við þessa endurútreikninga varð niðurstaðan þessi:
Fullur styrkur vegna 80 mín. eða lengri verka er kr. 258,590.- ekki kr. 270,980.-.
30% frumflutningsálag er því kr. 77,577.- og 20% álag vegna sérstaks frumkvæðis kr. 51,718.-

Hlutaðeigandi leikfélög hafa verið beðin afsökunnar og látin vita um inneignir eða skuldir hvers og eins vegna þessa.

0 Slökkt á athugasemdum við Stjórnarfundur 1. júlí 2011 406 26 júlí, 2011 Fundir júlí 26, 2011

Áskrift að Vikupósti

Karfa