Þjóðleikhúsið frumsýnir, í samvinnu við Fígúru – leikhús Bernds Ogrodniks, brúðuleiksýninguna Klókur ertu, Einar Áskell nk. laugardag, 30. ágúst. Gestaleikur þessi er verk brúðugerðarmannsins Bernds Ogrodniks sem byggir á heimsþekktum sögum Gunillu Bergström um þennan uppátækjasama snáða. Sýnt verður í Kúlunni, barnasviði Þjóðleikhússins á Lindargötu 7 og hefst sýningin kl. 15.

Einar Áskell veit fátt skemmtilegra en þegar pabbi hans tekur sér tíma og leikur við hann. Það næst skemmtilegasta er að fá að leika sér með verkfærakassann, en það er stranglega bannað og stórhættulegt að leika sér með sögina! Nokkrar gamlar spýtur og verkfæri geta leitt ungan mann inn í ævintýraheim. En allir skemmtilegir dagar taka enda og þá þarf maður að hátta sig og fara að sofa. En það getur verið erfitt að festa blund þegar hugurinn er enn uppfullur af ævintýrum dagsins.
 
Brúðugerðarmeistarinn Bernd Ogrodnik hefur sett upp sýningar víða um heim en auk þess að semja og sýna brúðusýningar þá býr hann til brúður, gerir leikmynd og semur og flytur tónlist. Bernd hefur gert brúður af ýmsu tagi, bæði fyrir leikhús og kvikmyndir. Í Þjóðleikhúsinu hefur hann meðal annars sett upp sýningarnar Pétur og úlfinn og Umbreytingu – ljóð á hreyfingu.

Rithöfundurinn Gunilla Bergström hafði samband við Bernd og hafði áhuga á að vinna með honum að skemmtilegu verkefni tengdu Einari Áskeli. Afraksturinn er sýningin Klókur ertu, Einar Áskell en sýningin er byggð á bókunum Svei-attan, Einar Áskell og Góða nótt, Einar Áskell. Bernd hannar og stýrir brúðum í sýningunni auk þess að gera leikmynd hennar, leikstjóri er Kristján Ingimarsson en búninga hannar Helga Björt Möller.

Sýningin er styrkt af Menntamálaráðuneytinu, Menningarsjóði Eyþings, Barnamenningarsjóði og Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur.

{mos_fb_discuss:2}