Sviðslistahópurinn Spegilbrot býður leikhúsgestum í ferðalag um króka og kima Tjarnarbíós í sýningunni Spegilbrot, sem frumsýnd verður 16. apríl.

Hér er á ferðinni óhefðbundið upplifunarleikhús þar sem ólíkum listformum, svo sem leiklist, myndlist, tónlist, vídjólist og gjörningalist, er blandað saman. Gestir upplifa leikhústöfra jafnt á stóra sviði Tjarnarbíós, í stigagöngum þess sem og í óvæntum rýmum.

Viðfangsefni sýningarinnar eru speglar og sjálfið. Litið er inn í hugarheima ólíkra einstaklinga og eru speglar skoðaðir í öllum sínum birtingarmyndum. Speglar hafa áhrif á nánast allar hliðar okkar daglega lífs, allt frá mótun sjálfsmyndar okkar og miðlun hennar gegnum samskiptamiðla Internetsins yfir í flóknustu tækninýjungar vísindanna.

Höfundar, stjórnendur og flytjendur sýningarinnar eru meðlimir sviðslistahópsins Spegilbrots. Hópinn skipa þau Auður Friðriksdóttir, Guðmundur Felixson, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir og Þorvaldur Sigurbjörn Helgason. Þau eru nemar við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands og samþætta við gerð sýningarinnar menntun sína og reynslu á sviði leiklistar, sálfræði, listsköpunar, bókmennta og skrifa.

Leikmynda- og búningahönnuður er Hallveig Kristín Eiríksdóttir en hönnun hennar fyrir Spegilbrot er útskriftarverkefni hennar úr leikmyndahönnun frá Escuela TAI í Madríd. Aðrir listamenn sem koma að sýningunni eru meðal annars Auðunn Lúthersson, Samaris og Ugla Stefanía Jónsdóttir.

Hljómsveitin Samaris frumflytur nýtt lag í sýningunni, sem samið var fyrir Spegilbrot, og Ugla Stefanía Jónsdóttir segir frá reynslu sinni sem transkona í fyrsta sinn á leiksviði

Sviðslistahópurinn sýndi verkið Upplifunarferð á listahátíðinni Pólar Festival í júlí 2013. Sú sýning var verk í vinnslu fyrir sýninguna Spegilbrot. Hópurinn hefur einnig í tengslum við sýninguna límt skilaboðin „Ath. Spegillinn er bilaður“ á baðherbergisspegla ýmissa kaffihúsa og stóð á dögunum fyrir landssöfnun á hinum vinsælu „selfie“-myndum á Instagram.

Tekið skal fram að sýningin er göngutúr um Tjarnarbíó og áhorfendur sitja aðeins hluta hennar. Sýningar verða fjórar talsins og einungis eru þrjátíu miðar í boði á hverja sýningu. Miðasala er á midi.is, tjarnarbio.is og í síma 527-2100.

Sýningar verða:
miðvikudaginn 16. apríl 2014 kl. 20 Frumsýning – (UPPSELT)
laugardaginn 19. apríl kl. 20
föstudaginn 25. apríl kl. 20
sunnudaginn 27. apríl kl. 17

Frekari upplýsingar:
facebook.com/spegilbrot
instagram.com/spegilbrot
tjarnarbio.is