Leikfélagið Sómi þjóðar frumsýnir í Þjóðleikhúskjallararnum sunnudaginn 29. janúar Ég er vindurinn, nýtt verk eftir Jon Fosse. Leikstjóri er Ingibjörg Huld Haraldsdóttir en leikhópinn mynda Hannes Óli Ágústsson og Hilmir Jensson, sem einnig þýðir verkið. Ég er Vindurinn frá árinu 2007 er nýjasta verk Fosse og gæti jafnframt verið það síðasta en Fosse gaf nýlega út þá yfirlýsingu að hann væri alfarið hættur að skrifa fyrir leikhús.

Sjórinn, kaldur og hættulegur, rólegur og víðáttumikill. 2 menn á ferðalagi án áfangastaðar.

„Allt er svo sýnilegt
það er hægt að sjá allt
það sem fólk reynir að fela með því sem það segir
hlutir sem það vissi ekki einu sinni um sjálft sig
ég sé það allt“

Jon Fosse (f. 1959) er einn af ástsælustu rithöfundum Noregs og eitt vinsælasta núlifandi leikskáld í heiminum í dag. Settar hafa verið upp yfir 900 uppfærslur á verkum Fosse á 40 tungumálum og hefur hann hlotið fjöldamörg verðlaun fyrir verk sín. Fosse var meðal annars sæmdur orðunni Chevalier de l’Ordre National du Mérite árið 2007 en einnig hefur hann unnið Norrænu leikskáldaverðlaunin og Ibsenverðlaunin árið 2010. Ég er vindurinn er annað verk Fosse sem sviðsett er af íslensku atvinnuleikhúsi en Þjóðleikhúsið sýndi verkið Sumardagur vorið 2006 í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar. Einnig hafa verk Fosse verið flutt í Útvarpsleikhúsinu.

Leikmynd og búningar eru í höndum Önnu Maríu Tómasdóttur og tónlist og hljóðmynd í höndum Völu Gestsdóttur. Um ljósahönnun sér Karl Sigurðsson.

{mos_fb_discuss:2}