Sumardaginn fyrsta frumsdýndi Sólheimaleikhúsið fjölskylduleikritið Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikstjórinn er Lilja Nótt Þórarinsdóttir leikkona sem útskrifaðist frá Leiklistarskólanum 2009 og hefur síðan starfað hjá Þjóðleikhúsinu og sett upp eigin sýningar, nú síðast leikstýrði hún leikritinu Þrek og Tár á Selfossi. Skilaboðaskjóðan er bráðskemmtilegt og líflegt barnaleikrit með fallegum boðskap.

Í leikritinu segir frá íbúum Ævintýraskógarins þar sem öll ævintýrin gerast. Þegar Náttröllið rænir Putta litla syni Möddumömmu og ætlar sér að breyta honum í tröllabrúðu þá taka allir höndum saman. Nú eru góð ráð dýr því það þarf að bjarga Putta áður en að sólin hverfur á bak við Sólarfjall. En eins og í öllum ævintýrum þá eru það nokkrir sem vilja ekki vera með, nornin og hennar illþýði, úlfurinn og vonda stjúpan. Án þeirra hjálpar þá opnast ekki hellir Nátttröllsins. Maddamamma, dvergarnir, Rauðhetta, Mjallhvít og Hans og Gréta ásamt dýrum Ævintýraskógarins eiga því mikið verk fyrir höndum og í leikritinu fáum við að sjá hvort þeim takist að bjarga Putta litla áður en það er of seint.

Það er árleg hefð hjá Sólheimaleikhúsinu að frumsýna leikrit sitt á Sumardaginn Fyrsta. Á meðan æfingar standa yfir og leiksýningar eru í gangi þá snýst allt samfélagið um framgang leikritsins. Það eru um 40 áhugaleikarar, íbúar Sólheima, sem skipta með sér hlutverkum. Einnig koma margar aðrar hendur að verki, sumir taka að sér að sauma búninga, aðrir sjá um að útbúa leikmynd, enn aðrir sjá um miðasölu og símsvörun. Svo eru þeir sem sjá um að aðstoða við sjálfa sýninguna svo sem sminkur, aðstoðarmenn með búninga og ljósa- og hljóðfólk.

Næstu sýningar verða
2. sýning, laugardaginn 27. apríl kl. 15.00
3. sýning, sunnudaginn 28. apríl kl. 15.00
4. sýning, miðvikudaginn 1. maí kl. 15.00
5. sýning, laugardaginn 4. maí kl. 17.00
6. sýning, sunnudaginn 5. maí kl. 15.00, lokasýning

Miðapantanir í síma 847 5323