OLIVER! er einn vinsælasti söngleikur allra tíma og byggir hann á sígildri skáldsögu Charles Dickens um munaðarlausa drenginn Oliver Twist – sem dirfðist að biðja um meira að borða! Eins og áratuga hefð er fyrir í Þjóðleikhúsinu er frumsýning á annan í jólum og er í engu til sparað að gera uppfærsluna að glæsilegri fjölskyldusýningu. Alls eru 45 leikarar og börn á sviði, níu manna hljómsveit og að auki einn hundur!

Sögusviðið er Lundúnaborg um miðja 19. öld og við sögu koma margar litríkar persónur; götustrákar, smáþjófar og stórþjófar, fátæklingar og ríkisbubbar, götudrósir, harðsvíruð illmenni og hjartahlý góðmenni. Söngleikurinn um Oliver hefur verið sýndur við gífurlegar vinsældir víða um heim, og fékk frábærar viðtökur í Þjóðleikhúsinu fyrir tuttugu árum. Jafnframt var hann sýndur sýndur hjá Leikfélagi Akureyrar árið 2004 við miklar vinsældir.

Höfundur söngleiksins Oliver! er Lionel Bart. Þórarinn Eldjárn þýddi verkið og Jóhann G. Jóhannsson þýddi söngtexta ásamt því að sjá um tónlistarstjórn. Tónlistin er útsett af William David Brohn Leikstjórn er í höndum Selmu Björnsdóttur og Aletta Collins samdi dansa. Leikmynd er eftir Vytautas Narbutas og María Ólafsdóttir hannaði búninga. Lýsing er á forræði Lárusar Björnssonar og Ólafs Ágústs Stefánssonar og um hljóðstjórn sjá Ísleifur Birgisson og Tómas Freyr Hjaltason

Tveir ungir drengir skiptast á að fara með titilhlutverkið, þeir Ari Ólafsson og Sigurbergur Hákonarson. Með hlutverk Fagins fer Eggert Þorleifsson, Þórir Sæmundsson leikur Bill Sikes og Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikur Nansý. Með önnur hlutverk í sýningunni fara Bergþór Pálsson, Þórunn Lárusdóttir, Friðrik Friðriksson, Esther Talía Casey, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Ívar Helgason, Ólöf Jara Skagfjörð, Arnar Jónsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Guðbjörg Hilmarsdóttir, Heiða Björk Ingimarsdóttir, Aðalsteinn Kjartansson, Jón S. Snorri Bergsson og Áslákur Ingvarsson. Tryggvi Björnsson og Valgeir Hrafn Skagfjörð skiptast á að leika Hrapp, en auk þess leika fjölmörg börn í sýningunni. Einnig tekur níu manna hljómsveit þátt í sýningunni.

{mos_fb_discuss:2}